Samskip á alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni í Brussel
Samskip eru í hópi tæplega 30 íslenskra fyrirtækja sem taka þátt í alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni Seafood Expo sem haldin verður í Brussel 26. – 28. apríl.
Sýningin er lang viðamesta sjávarútvegssýning sem haldin er í heiminum en hana sækja á hverju ári um 25 þúsund gestir sem tengjast sjávarútvegi á einn eða annan hátt. Sýningin í Brussel er því mikilvægur vettvangur til að kynna flutningsnet Samskipa og áherslur fyrirtækisins.
Íslandsstofa sér um heildarskipulag íslenska sýningarsvæðisins sem er í sýningarhöll fjögur. Bás Samskipa er númer 6115 og þar verður vel tekið á móti gestum og gangandi. Þetta er í 21. skiptið sem Samskip taka þátt í þessari umfangsmiklu sýningu.
Engan bilbug er að finna á sýningarhöldurum þrátt fyrir þá hörmulegu atburði sem áttu sér stað í Brussel í síðasta mánuði. Umfangsmikil öryggisgæsla verður í borginni vegna sýningarinnar. Boðið verður uppá rútuferðir fyrir sýnendur og gesti frá helstu hótelum í miðborginni til að forðast lestarstöðvar borgarinnar. Einnig má reikna með hertri öryggisgæslu við sýningarsvæðið sjálft og eru þátttakendur og gestir hvattir til að skipuleggja tíma sinn með tilliti til þess.
Starfsmönnum Samskipa sem almennt sækja sjávarútvegssýninguna er í sjálfsvald sett hvort þeir taka þátt í henni að þessu sinni. Enginn þeirra hefur hætt við þátttöku enn sem komið er og við reiknum með góðri sýningu í ár, eins og undanfarin ár.