Samskip bæta við skipum til Eystrasaltsins

 Samskip kynna nýja siglingaleið með auknum tengingum við Eystrasaltslöndin. Vikulegar siglingar á nýrri leið hefjast 16.ágúst næstkomandi, en með henni er bætt við viðkomustöðum í flutningakerfi Samskipa í Evrópu með tengingum við siglingar til og frá Íslandi.

 

Lagt verður upp á nýrri siglingaleið frá Reykjavík á miðvikudögum. Fyrst er siglt til Cuxhaven í Þýskalandi, með viðkomu í Vestmannaeyjum og Færeyjum, og það með tengingu til Gdansk í Póllandi og svo áfram til Klaipeda í Litháen. Á bakaleiðinni er svo siglt til Ósló í Noregi, áður en siglt er til Árósa í Danmörku með tengingu til Íslands á ný.

Ný siglingaleið býður upp á margþættan ávinning jafnt fyrir inn- og útflutning frá Íslandi. Flutningur með Samskipum alla leið skilar sér í auknum áreiðanleika og bættri þjónustu við viðskiptavini, en áreiðanleiki í flutningum er lykilatriði fyrir útflytjendur í sjávarútvegi og marga aðra.

Þá er mikill innflutningur frá Eystrasaltslöndunum og tækifæri honum tengt. Þar má nefna margvíslega byggingavöru, húsgögn, umbúðir, framleiðsluvörur og annan almennan neytendavarning.

„Við sjáum mikla vaxtarmöguleika fyrir bæði innflutning og útflutning með þessari bættu tenginu við Eystrasaltið. Með milliliðalausum flutning innan okkar siglingakerfis er ávinningur á hverjum viðkomustað með tengingum við víðtækt flutningsnet Samskipa innan Evrópu. Þá er viðbótarávinningur í beinum innflutningi frá Noregi til Íslands innan siglingakerfis Samskipa á Íslandi. Við höfum unnið að þessari siglingaleið í nokkra mánuði til að bæta áreiðanleika og þjónustu við viðskiptavini okkar.“ segir Birkir Hólm Guðnason forstjóri Samskipa á Íslandi

Tvö skip sinna siglingum á nýju siglingaleiðinni. Viðkoma á hverjum stað á nýrri leið er bundin við ákveðna daga vikunnar.

Á útleiðinni frá Íslandi er siglt er frá Reykjavík á miðvikudögum, Vestmannaeyjum á fimmtudögum, Færeyjum á föstudögum, Cuxhaven á þriðjudögum, Gdansk á föstudögum og Klaipeda á laugardögum. Á bakaleiðinni frá Klaipeda er lagt upp frá Ósló á mánudögum, og til Íslands frá Árósum á fimmtudögum.