Samskip eru aðalstyrktaraðili nýja Votlendissjóðsins
Samskip eru aðalstyrktaraðili Votlendissjóðsins sem nú hefur verið stofnaður. Skrifað var undir samning um stofnun sjóðsins föstudaginn 6. apríl, en hann tók formlega til starfa eftir kynningarfund á Bessastöðum 30. apríl.
Samskip eru eitt af níu fyrirtækjum sem standa að stofnun sjóðsins, sem jafnframt nýtur stuðnings ríkisstjórnar Íslands í verkum sínum. Verndari sjóðsins er Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Markmið sjóðsins er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda úr náttúru Íslands með endurheimt votlendis. Að þessu markmiði vinnur sjóðurinn með því að gefa einstaklingum, fyrirtækjum, félagasamtökum og stofnunum tækifæri til að sýna samfélagslega ábyrgð með greiðslu fjárframlaga til sjóðsins, sem einkum verða nýtt til að fjármagna framkvæmdir við endurheimt votlendis.
Stjórn Votlendissjóðsins skal skipuð sjö mönnum; fjórum til þriggja ára í senn og þremur til tveggja ára í senn. Aðalmaður í stjórn sjóðsins fyrir hönd Samskipa er Anna Guðný Aradóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar. Formaður stjórnar er Eyþór Eðvarðsson, en framkvæmdastjóri sjóðsins er Ásbjörn Björgvinsson
„Þetta er afskaplega spennandi verkefni og við stolt af því að fá að leggja því lið,“ segir Anna Guðný. „Samskip leggja ríka áherslu á umhverfisvernd og hafa gripið til margvíslegra ráðstafana til að takmarka neikvæð áhrif starfseminnar á umhverfið. Með þátttöku í stofnun Votlendissjóðsins stígur fyrirtækið enn frekari skref, nú út fyrir fyrirtækið, til að stuðla að umhverfisvernd, og er það í takti við stefnu Samskipa um samfélagslega ábyrgð.“
Mynd: Frá undirritun samninga um stofnun Votlendissjóðsins í
apríl.