Samskip eru traustur stuðningsaðili Andrésar andar leikanna

Líkt og síðustu þrjá áratugi eða svo styrkja Samskip Andrésar andar leikana sem Skíðafélag Akureyrar stendur fyrir.

 Um er að ræða lang fjölmennasta skíðamót landsins, en að þessu sinni fara leikarnir fram dagana 18. til 21. apríl, frá miðvikudegi til laugardags. Saman koma hátt í þúsund keppendur á aldrinum sjö til fimmtán ára og keppa í svigi og stórsvigi, göngu, bæði hefðbundinni og með frjálsri aðferð, auk þess sem keppt er í þrautabraut. 

„Við erum afar stolt af aðkomu okkar að leikunum enda margur skíðakappinn sem hafið hefur feril sinn á þessum vettvangi og enn fleiri sem þarna hafa fengið áhuga á skíðaíþróttinni,“ segir Anna Guðný Aradóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa. 

Dagskrá leikanna er meðal annars að finna á Facebook-síðu þeirra, en vert er að vekja athygli á að smávægilegar breytingar hafa verið gerðar á skipulagi síðustu ára. Þannig færast skrúðganga fyrir leikana og verðlaunaafhendingar á fimmtudegi og föstudegi til klukkan 19:00, en voru áður klukkustund síðar. Þá eru smábreytingar aðrar vegna þess að nú verða verðlaun fyrir 14 og 15 ára keppendur afhent í fjallinu.

Andres