Samskip flytja tónlistina á Aldrei fór ég suður

Samskip hafa um langt skeið stutt við bakið á tónlistarhátíðinni „Aldrei fór ég suður“. Ekki verður brugðið út af vananum í þetta sinn og verða Samskip einn af aðalstyrktaraðilum hátíðarinnar. 

Samskip sjá um flutninga á tækjum og tólum fyrir hátíðina og veita henni jafnframt styrk í formi peningaframlags.

Einar Pétursson rekstrarstjóri Samskipa á Ísafirði ber hitann og þungann af samstarfinu og skipulagningu flutninganna en hann segir að gaman sé að snúast í kringum þetta verkefni sem setji svo mikinn svip á bæinn og sé kærkomin upplyfting í byrjun vors.Hátíðin er um páskana, 13. til 16. apríl næstkomandi, og fer fram á hafnarsvæðinu á Ísafirði í nýbyggðri skemmu sem Rækjuverksmiðjan Kampi leggur til á gatnamótum Ásgeirsgötu og Suðurgötu. Sem fyrr kostar ekkert inn á hátíðina, sem nýtur stuðnings bæjarfélagsins og fjölda fyrirtækja. Fram kemur á heimasíðu hátíðarinnar að viðhaldið sé þeirri stefnu að að blanda saman straumum og stefnum í tónlist, konum og köllum, gömlum sem ungum, frægum og efnilegum og öllu þar á milli. Boðið verði upp á indípopp, blús, pönk, lúðrastuð, þungarokk, gleðipopp, rapp, köntrí, dramatík og dans. „Allir fá eitthvað, enginn fær ekkert, einn fær ekki allt,“ segir þar.Eins kemur fram að á meðal flytjenda séu: Emmsjé Gauti, Hildur, Kött Grá Pje, Ham, Soffía Björg, KK Band, sigurvegarar Músiktilrauna, Karó, Mugison, Börn, Valdimar, Vök, Rythmatik og Lúðrasveit Tónlistarskólans á Ísafirði. Frekari upplýsingar um hátíðina er að finna á www.aldrei.is .

 

Mynd: 15. mars komu saman fulltrúar stærstu styrktaraðila Aldrei fór ég suður og innsigluðu samstarfið með merki hátíðarinnar á framhandlegg. Á myndinni eru (frá vinstri): Bjarni Sólbergsson frá Orkubúi Vestfjarða, Magnús Kristjánsson frá Orkusölunni, Fannar Páll Aðalsteinsson frá 66 Norður, Einar Pétursson frá Samskipum, Elísabet Samúelsdóttir frá Landsbankanum, Arnar Jónatansson frá Flugfélagi Íslands og Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri AFÉS. Mynd/Gusti.is