Samskip kanna ásakanir á hendur undirverktökum
„Við tökum þessa umfjöllun alvarlega og höfum þegar haft frumkvæðið að því að rannsaka þær ásakanir sem beinast gegn undirverktaka okkar,“ segir Pálmar Óli Magnússon forstjóri Samskipa á Íslandi, um fréttaflutning og boðuð kærumál í Hollandi.
Samskip leggja áherslu á góðan aðbúnað starfsmanna og því kemur umfjöllunin í Hollandi félaginu mjög á óvart en hún virðist hinsvegar beinast að undirverktaka Samskipa.
„Það er alveg klárt að Samskip skorast ekki undan ábyrgð og þegar við ráðum undirverktaka þá krefjumst við upplýsinga til staðfestingar á að farið sé eftir lögum og reglum. Ef menn brjóta lög þá eru þeir líka að brjóta samningana við okkur og þá er samningunum sagt upp,“ segir Pálmar Óli Magnússon forstjóri Samskipa á Íslandi. „Það er skylda okkar að fara eftir lögum og reglum sem við gerum í hvívetna. Við leggjum ennfremur metnað okkar í jöfn tækifæri starfsmanna og góða aðbúnað þeirra.“
Samskip leggja sig fram um að eiga gott samstarf við eftirlitsstofnanir á borð við hollenska Umhverfis- og samgöngueftirlitið (ILENT) enda hefur félagið hagsmuni af því að hlíta þeirra tilmælum til að tryggja starfssemi félagsins sem best og þjónustu við viðskiptavini.
Frekari upplýsingar veitir Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa á Íslandi, í síma 858-8500.