Samskip kynntu þjónustu sína í Barselóna

Sýninguna sóttu yfir 33 þúsund gestir, nærri fjórðungi fleiri en á síðasta ári. Íslensku fyrirtækin 45 sem þátt tóku eru hluti 2.078 fyrirtækja frá 87 ríkjum sem voru með bása á sýningunni, auk 68 þjóðarskála.

Samskip kynntu þjónustu sína í Barselóna

Samskip vill þakka öllum sem litu við í sýningarrými fyrirtækisins í nýafstaðinni sjávarútvegssýningu í Barselóna á Spáni, Seafood Expo Global. Um er að ræða stærstu sjávarútvegssýningu heims, hún fór fram í 29. sinn dagana 25. - 27. apríl. Sýningin hefur aldrei verið stærri og metfjöldi sótti hana heim.

„Samskip taka að sjálfsögðu þátt í sýningunni, enda með langa og farsæla sögu þjónustu við íslenskan sjávarútveg og aðra flutninga um heim allan. Sýningin er frábært tækifæri til að hittast og spjalla saman og kynna þjónustu okkar með beinum hætti. Hér voru líklega sex til átta hundruð manns frá Íslandi að kynna fyrirtæki sín og þjónustu. Ég vil líka þakka Íslandsstofu fyrir skipulagninguna,“ segir Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa.

Sjávarútvegsýningin í Barselóna er vettvangur alls hins besta og framsæknasta sem sjávarútvegsfyrirtæki og fyrirtæki sem þjónusta sjávarútveginn hafa upp á að bjóða. Þetta er í annað sinn sem sýningin er haldin í Barselóna, en þangað flutti hún frá Brussel í Belgíu.

Sýningin fór fram í Fira de Barcelona sýningarhöllinni, þar sem hún lagði undir sig rúma 49 þúsund fermetra. Seafood Expo Global fer næst fram í Barselóna 23. til 25. apríl 2024.

Sjá einnig heimasíðu sjávarútvegssýningarinnar: https://www.seafoodexpo.com/global/ 

Hér má sjá nokkrar myndir frá sýningarrými Samskipa á Seafood Expo Global.