Samskip með „geðveikasta jólalagið“ 2012

Frá ljósanna hásal, jólalag Samskipa, er „geðveikasta jólalagið 2012“ en Samskip söfnuðu mestu fé til styrktar Geðhjálp í jólalagakeppninni Geðveik jól 2012 eða einni milljón 126 þúsund og 600 krónum.

Frá ljósanna hásal, jólalag Samskipa, er „geðveikasta jólalagið 2012“ en Samskip söfnuðu mestu fé til styrktar Geðhjálp í jólalagakeppninni Geðveik jól 2012 eða einni milljón 126 þúsund og 600 krónum. Lag Samskipa var einnig valið sem það besta í keppninni af sérstakri átta manna dómnefnd.

Heildarupphæðin sem safnaðist í átaki Geðhjálpar nemur alls um 4,9 milljónum króna. Starfsfólk 15 fyrirtækja tók áskorun Geðhjálpar fyrir þessi jól um að syngja jólalag og búa til myndband því til stuðnings. Landsmönnum gafst síðan kostur á að kjósa jólalagið sem þeim þótti skara fram úr og völdu flestir laga Samskipa, Arion banki hafnaði í öðru sæti og Bláa lónið í því þriðja.

Sérstök átta manna dómnefnd valdi besta flutninginn og besta myndbandið og báru Samskip sigur úr býtum hvað flutninginn varðar en Össur var verðlaunað fyrir besta myndbandið. Vinningslag Samskipa er sungið af hinum tvítuga Kristjáni Jóhannessyni, sem starfar á lyftara í Vörumiðstöð Samskipa.

Úr umsögnum dómara:

Besti flutningurinn – Samskip „Besti flutningurinn er skuldlaust í höndum Kristjáns Jóhannessonar hjá Samskipum Besta myndbandið - Samskip „Þetta lag og myndband vinnur þessa keppni, skuldlaust, með hendur fyrir aftan bak. Frábær notkun á nánasta umhverfi í myndbandinu og vinnuvélunum sjálfum“ „Fantavel sungið hjá honum Kristjáni Jóhannessyni, 20 ára starfsmanni á lyftara í vöruhúsi Samskipa.“ „Þetta er eina myndbandið í keppninni þar sem ég stóð mig að því að klappa í lokin. Sigurvegarinn er fundinn.“

„Samskip þakka hlý orð í sinn garð og þakka öllum sem kusu lagið okkar í jólalagakeppni Geðhjálpar. Við erum afar stolt og þakklát öllum þeim fjölmörgu starfsmönnum sem komu að verkefninu en samheldni og frumkvæði okkar kristallast í myndbandinu sem var unnið af miklum krafti og kappsemi.

Auk þess að leggja góðu málefni lið hefur þátttakan í jólaleik Geðhjálpar létt okkar lund nú á aðventunni“ segir Ásbjörn Gíslason forstjóri Samskipa Fjármunirnir sem söfnuðust í jólalagakeppni Geðhjálpar í ár verða nýttir til að búa til aðgerðaáætlanir á sem flestum vinnustöðum sem grípa má til ef upp koma geðrænir erfiðleikar hjá starfsfólki.