Samskip og Howdens fá sérstaka viðurkenningu fyrir árangursríkt samstarf

Samskip og breska fyrirtækið Howdens fengu nýlega sérstaka viðurkenningu fyrir árangursríkt samstarf við vörudreifingu á Global Logistics Award 2016 sem fram fór í byrjun nóvember.

Lloyd‘s Loading List Global Logistics Awards fór að þessu sinni fram í Lancaster London Hotel í Lundúnum fimmtudaginn 3. nóvember síðastliðinn. Um er að ræða eina helstu upphefð sem fyrirtækjum í flutningageira getur hlotnast. „Viðurkenningin er til marks um hverju hægt er að áorka með nánu samstarfi sem byggir á fullkomnu gagnsæi,“ segir Richard Beales, viðskiptastjóri hjá Samskipum i Evrópu. „Við veitingu viðurkenningarinnar er horft til samstarfs sem byggir á greiningu eftirspurnar og pantanamynstri og sveigjanleika í magni og afhendingarleiðum, sem og mikilvægi þessara þátta við að tryggja hnökralausa afhendingu varnings Howdens.“ Howdens, sem er helsti framleiðandi Bretlands á fullbúnum eldhúsum, tækjum og innréttingum og Samskip, þjónustufyrirtæki sem sinnir fjölþættum flutningum, hafa saman þróað hagkvæma fjölþætta lausn fyrir flutninga á milli Ítalíu og Bretlands. Í samstarfinu er áhersla lögð á hvernig tryggja megi hagkvæma og trausta þjónustu sem tengi löndin allt árið. Sveigjanleiki og áreiðanleiki þjónustunnar fékk eldskírn sína 2015 þegar flutningar um Ermarsundsgöng lokuðust á sama tíma og háannatími var í vöruafhendingum hjá Howdens. Samskip sýndu með samstarfinu við Howdens hvernig komast mátti hjá áhrifum af framvindu mála Frakklandsmegin við göngin og tryggja áreiðanleika, hagkvæmni og sveigjanleika í sendingum á sama tíma og lykilþáttur í samgöngum við Bretland var í uppnámi. Með það fyrir augum að tryggja samfellu í birgðastöðu, hönnuðu Samskip sveigjanlegt kerfi „afhendingar og skipta“ þar sem vörubílar afhentu tóma gáma og tóku um leið fulla á innan við fimm mínútum. Þá hefur beiting fjölþættra flutninga (multimodal) einnig haft í för með sér umhverfisávinning. Með því að nota kerfi Samskipa til flutninga á framleiðslu og vörum Howdens spöruðust árið 2015 yfir 292 þúsund kíló af CO2 útblæstri miðað við sambærilega flutninga á þjóðvegum. Richard Beales segir: „Náin samvinna okkar við Howdens hefur getið af sér markverða aukningu í fyrirspurnum frá fyrirtækjum sem vilja draga úr mikilvægi Ermarsundsganga í flutningskerfi sínu og skoða nú mörg hver gámaflutninga í fyrsta sinn.“ Global Freight verðlaunahátíðin fagnar í ár 20 ára afmæli sínu, en þau eru hápunktur viðburða í dagatali fyrirtækja í flutningaiðnaði. Verðlaun eru veitt fyrir markverðan árangur og framúrskarandi frammistöðu á árinu.