Samskip og stærsta flutningafyrirtæki Tyrklands með „græna brú“ til og frá Evrópu

Samskip hafa ásamt stærsta flutningafyrirtæki Tyrklands, Turkey Netlog Logistics Group, stofnað sameiginlegt flutningafyrirtæki til að annast rekstur og markaðssetningu á nýrri flutningaleið frá Tyrklandi til Evrópu.

Samskip hafa ásamt stærsta flutningafyrirtæki Tyrklands, Turkey Netlog Logistics Group, stofnað sameiginlegt flutningafyrirtæki til að annast rekstur og markaðssetningu á nýrri flutningaleið frá Tyrklandi til Evrópu. Nýja félagið heitir GreenBridge C.V. og er nafnið meðal annars skírskotun í þau miklu umhverfisáhrif sem nýja flutningaleiðin felur í sér í minni útblæstri á koltvísýringi.

Nýja flutningaleiðin sem GreenBridge býður upp á er einstök fyrir þær sakir að lestakerfi Samskipa tengist  tíðum skipaferðum frá Istanbul í Tyrklandi til Trieste á Ítalíu en þaðan eru reglubundnar lestarferðir til Duisburgar í Þýskalandi þar sem er ný lestarmiðstöð  Samskipa er staðsett.

Lestarmiðstöð Samskipa í Duisburg er mjög afkastamikil og af fullkomnustu gerð. Með lestarmiðstöðinni er flutningakerfi Samskipa í Evrópu tengt öllum helstu áfangastöðum álfunnar. Nú liggja sjö lestarspor inn á lestarmiðstöðina og er hún mikilvægur liður í að bjóða hagkvæma flutninga og hagstæðar heildarlausnir. Miklir stækkunarmöguleikar eru á svæðinu. Lestarmiðstöðin er tæknilega mjög fullkomin og er hver og einn lestarvagn skannaður inn á svæðið og sömuleiðis út af því. Öflugt öryggiskerfi og eftirlit er til staðar.

Frá Duisburg lestarmiðstöðinni er vörum frá Tyrklandi dreift áfram á áfangastað. Sama leið er í boði fyrir vörur til Tyrklands. Til að byrja með verða lestarferðir frá Duisburg til Trieste þrjá daga í viku en miðað við áhuga viðskiptavina er mjög líklegt að fljótlega verði ferðum fjölgað í fimm brottfarardaga í viku.

GreenBridge mun tengja Tyrkland við alla helstu áfangastaði í Evrópu og um leið bjóða upp á ýmsa kosti umfram hefðbundnar flutningaleiðir sem hafa verið í boði og þá fyrst og fremst með vöruflutningabifreiðum. Meðal margra kosta má nefna að tafir á landamærum verða úr sögunni, vegatollar detta út og eldsneytiskostnaður lækkar mjög mikið. Útblástur koltvísýrings er allt að 275% meiri ef vörum er ekið með flutningabílum upp til Evrópu, frá Tyrklandi, samanborið við þá leið sem GreenBridge hefur tekið í notkun. Loks má nefna að umskipunartími styttist með þessari nýju leið og fjölgar þeim möguleikum sem hægt er að velja úr fyrir framhaldsflutning vörunnar.

Samlegðaráhrif með samstarfinu eru mikil. GreenBridge mun nýta til fullnustu fjölbreytt flutningakerfi Samskipa til að bjóða sem hagstæðast verð og á sama tíma nýta þekkingu Turkey Netlog á tyrkneska markaðnum. GreenBridge mun bjóða viðskiptavinum sínum upp á heildarlausnir sem verða klæðskerasniðnar fyrir ólíkar þarfir.

Miklar vonir eru bundnar við samstarfið og það byggir á sannfæringu um að GreenBridge býður samkeppnishæfan kost og  að mikið magn af vörum muni fara þessa nýju leið.  Þetta er sveigjanleg lausn og getur fyrirtækið á mjög skömmum tíma brugðist við auknu framboði.

 „Græna brúin“ er mjög áhugavert verkefni sem opnar stóran og spennandi markað í Evrópu fyrir vörur til og frá Tyrklandi. Samskip binda miklar vonir við að þróa frekari flutningaleiðir í Evrópu með það fyrir augum að geta boðið viðskiptavinum sínum hagkvæmari möguleika á að nýta ólíkar leiðir til að flytja vörur á endastað. Lestarmiðstöð Samskipa í Duisburg gegnir þar lykilhlutverki í áframhaldandi þróun.

Til að byrja með eru brottfaradagar til Tyrklands þrír í viku en búist er við því að þeim fjölgi fljótlega í fimm.