Samskip opna vöruafgreiðslu á Húsavík
Samskip hafa opnað 600 m² vöruafgreiðslu á hafnarsvæðinu á Húsavík en
starfsemi fyrirtækisins hefur aukist umtalsvert á svæðinu eftir að
félagið hóf reglubundnar siglingar til Húsavíkur í sumar.
Með siglingunum var fyrirtækið að mæta aukinni flutningsþörf vegna uppbyggingar jarðhitavirkjunar á Þeistareykjum og væntanlegra framkvæmda á iðnaðarsvæðinu á Bakka.
Í vöruafgreiðslunni verður boðið upp á vöruhýsingu og margvíslega þjónustu fyrir viðskiptavini Samskipa og Landflutninga, en útflutningur frá Húsavík hefur aukist töluvert að undanförnu með tilkomu reglubundinna siglinga sem tengja Húsavík beint við meginland Evrópu.
Um árabil var fyrirtækið Úddi ehf. umboðsaðili fyrir Landflutninga og Samskip, Endurvinnsluna og Bústólpa á Húsavík. Samskip hafa nú tekið við starfsfólki og starfsemi Údda
Vöruafgreiðslan, sem er við Suðurgarð 2, er opin alla virka daga frá kl. 08.00 til 12.00 og frá kl. 13.00 til 16.00. Afgreiðslutími Endurvinnslunnar er frá kl. 13.00 til 15.00 alla virka daga.