Samskip óska sjómönnum til hamingju með daginn

Samskip fagna sjómannadeginum sem er næstkomandi sunnudag 3. júní og óska sjómönnum öllum til hamingju með daginn. Um helgina fer fram Hátíð hafsins í Reykjavík, en þar eru Samskip á meðal aðalstyrktaraðila og leggja hátíðarhöldunum til margvíslegan stuðning.

Að hátíðarhöldunum standa Sjómannadagsráð og Faxaflóahafnir, en þau standa tvo daga, hafnardaginn sem haldinn er á laugardeginum og sjómannadaginn á sunnudeginum. Báða dagana er skipuleg dagskrá frá klukkan ellefu árdegis til klukkan fimm síðdegis. Fram kemur á vef Hátíðar hafsins að í ár sé sjómannadagurinn tileinkaður 100 ára fullveldisafmæli Íslands.

„Við fögnum með okkar fólki um helgina og erum stolt af því að leggja hátíðinni lið," segir Anna Guðný Aradóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa. „Samskip styrkja margvísleg málefni, en auðvitað er sérstaklega gaman að koma að því að styðja við hátíðarhöld sem standa okkur svo nærri."

Upplýsingar um dagskrá Hátíðar hafsins er meðal annars að finna á vef hátíðarinnar og svo má nálgast margvíslegan fróðleik um sjómannadaginn á vef sjómannadagsráðs.

Hh-web