Samskip stíga skref fram á við með áherslu á sjálfbært lífeldsneyti í skipaflutningum
Samskip hafa aukið skuldbindingu sína við grænni flutninga með nýjum samningi við GoodShipping, framtaksverkefni um sjálfbæra flutninga. Samningurinn felur í sér að hluti flota Samskipa verður knúinn með lífeldsneyti, en með því minnkar kolefnisspor starfseminnar verulega.
Til að byrja með er gert ráð fyrir að notkun lífeldsneytis minnki útblástur koltvísýrings um allt að 45%, en stefnt er að því að minnka útblástur í hverri ferð um allt að 80% síðar á árinu. Framtakið undirstrikar langvarandi skuldbindingu Samskipa um að taka að sér forystuhlutverk við að draga úr útblæstri í skipaflutningum.
800 gámaeininga flutningaskip Samskipa, Endeavour, sem alla jafna hefur notað hefðbundið eldsneyti, varð þess heiðurs aðnjótandi í nýlegri ferð sinni að hefja samstarfið með notkun sjálfbærs lífeldsneytis. Með því að nota lífeldsneyti aðstoða Samskip líka farmeigendur við að minnka kolefnisfótspor sitt í aðfangakeðjunni umtalsvert.
Fyrir tveimur árum var Endeavour jafnframt fyrsta skipið til að taka lífeldsneyti um borð í tengslum við framtak GoodShipping og sannaði með því ágæti lífeldsneytis sem valkosts við jarðefnaeldsneyti. Lífeldsneytið er búið til úr úrgangi af sjálfbærum uppruna og hefur sannað sig í siglingum skipsins milli Hollands og Írlands.
Endurnýjaður samningur við lífeldsneytisfélagið GoodFuels, einnig í samstarfi við GoodShipping, styður við fyrirætlan Samskipa um að fleiri skip félagsins taki lífeldsneyti í notkun á árinu. Önnur kynslóð sjálfbærs lífeldsneytis GoodFuels er framleidd með endurvinnslu vottaðs hráefnis flokkuðu sem úrgangur eða leifar. Framleiðslunni fylgja engin vandamál tengd landnotkun, engin samkeppni við matvælaframleiðslu eða skógareyðing.
„Við fögnum mjög samstarfinu við GoodShipping og erum stolt af því. Í því endurspeglast áhersla Samskipa á sjálfbærni á öllum sviðum og aukin áhersla á lífeldsneyti bætist líka við aðrar margháttaðar aðgerðir og þróunarstarf sem þegar hefur verið ráðist í til að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar,“ segir Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa á Íslandi. „Með samstarfinu við GoodShipping takast Samskip á hendur framsýnt hlutverk og ryðja brautina í orkuskiptum og um leið njóta viðskiptavinir Samskipa góðs af einfaldri og hentugri leið til að draga úr útblæstri tengdum flutningum sínum. Samskip eru í fararbroddi við notkun háþróaðs lífeldsneytis í skipaflutningum og umhverfið nýtur góðs af tafarlausum samdrætti útblásturs.“
„Þessi tilkynning markar enn einn mikilvægan áfanga á leið okkar frá því að jarðefnaeldsneyti sé fyrsta val,“ segir Katarin van Orshaegen, viðskiptastjóri hjá GoodShipping. „Að draga úr notkun og losun vegna eldsneytis er mikilvægt næsta skref fyrir skipaflutningageirann. Við erum því hæstánægð með að hafa fundið hjá Samskipum leið til að halda sjálfbærum afurðum okkar fyrir flutninga í stöðugri notkun og dýpkað með því langvarandi samstarf, sem um leið hjálpar til við að breyta því hvaða augum markaðir okkar líta framtíðareldsneyti.“
Frekari upplýsingar veitir Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa, í síma 858-8150 eða með tölvupósti til thorunn.inga.ingjaldsdottir@samskip.com.