Samskip stóðu vaktina á Sjávarútvegsráðstefnunni í Hörpu

Áhugaverðri og vel heppnaðri Sjávarútvegsráðstefnu, þar sem Samskip voru meðal bakhjarla og fyrirtækja sem kynntu starfsemi sína, lauk föstudaginn 8. nóvember síðastliðinn. Í ár var haldið upp á tíu ára afmæli ráðstefnunnar og af því tilefni var sérstök áhersla á hönnun kynningarefnis og kynningar á ráðstefnunni.

Fjölmargir notuðu tækifærið og stöldruðu við í kynningarbás Samskipa á ráðstefnunni, enda veita Samskip fyrirtækjum í sjávarútvegi mikilvæga þjónustu við útflutning á afurðum sínum, auk alls annars inn- og útflutnings sem fyrirtækið annast. Í básnum tóku vel á móti gestum þær Steinunn Jónasdóttir frá markaðsdeild Samskipa og Heiðrún Arnsteinsdóttir frá útflutningsdeild.

Samskip veita sérhæfða þjónustu við flutning á viðkvæmri kælivöru líkt og með víðfeðmu flutninganeti til Evrópu og um heim allan er fyrirtækið í afburðastöðu til að veita sjávarútvegsfyrirtækjum þá þjónustu sem þarf til að tryggja afhendingu á gæðavöru inn á erlenda markaði. Í þeim efnum hafa gámaflutningar með ferskan fisk til Evrópu verið í stórsókn og hafa Samskip meðal annars lagað flutningakerfi sitt að þeirri þróun, og hafa að bjóða bæði þann sveigjanleika og öryggi sem þarf til að koma kælivöru bæði hratt og örugglega á erlenda markaði.

Áhugasamir um ráðstefnuna geta kynnt sér hana á vef hennar, www.sjavarutvegsradstefnan.is, en hún fer einnig fram í Hörpu á næsta ári, dagana 19. – 20. nóvember.