Samskip stuðla að framþróun í vetnisefnarafalstækni

Almenningur á Íslandi hefur síðustu 16 árin haft tækifæri til að kynnast vetnistækninni í ökutækjum með efnarafalstækni en í apríl 2003 opnaði fyrsta vetnisstöðin í heiminum á Íslandi, nánar tiltekið á Vesturlandsvegi hjá Skeljungi. 

Fleiri vetnisverkefni komust á laggirnar en hér hafa meðal annars verið vetnisstrætisvagnar, lúxusbifreiðar og „End of life“ fólksbílar frá Ford. Vetnisverkefni hafa allar götur síðan verið mjög áhugaverðar í íslensku samhengi þar sem vetni er eini orkugjafinn á Íslandi sem hægt væri að framleiða í nægilegu magni til að þess að stuðla að orkuskiptum í samgöngum.

Í takt við umhverfisstefnu Samskipa leitar fyrirtækið leiða til að minnka kolefnisfótspor sitt og eitt þeirra verkefna sem Samskip taka þátt í hefur vakið heimsathygli en það er þróun efnaraflsskipa fyrir styttri siglingaleiðir í svokölluðu E-Pilot verkefni í Noregi.

Horft til framtíðar með visthæfum flutningum
Verkefnið sem Samskip taka þátt í snýst um þróun tveggja gámaskipa sem myndu sigla milli Osló, Póllands og vesturstrandar Svíþjóðar á hafsvæði sem er að miklu leyti landlukt og því sérstaklega berskjaldað fyrir mengun.

Verkefnateymi Seashuttle, eins og verkefnið er einnig kallað, samanstendur af tæknifyrirtækinu Kongsberg, vetnissérfræðifyrirtækinu Hyon og Massterly sem er sameiginlegt verkefni Kongsberg Maritime og Wilhelmsen skipaþjónustunnar. Eins og áður hefur komið fram hefur verkefnið þegar hlotið norskan styrk upp á 6 milljónir evra.

Nýjustu fréttir í verkefninu nú eru að norska skipatæknifyrirtækið Havyard hefur til viðbótar hlotið 11 milljóna Evra styrk til að þróa háorku vetniskerfi til notkunar í skipum. Kerfið kemur til notkunar 2022 og mun gera fjórum ferjum á vegum Havila Kystruten kleift að sigla fimm sinnum lengur en aðrar ferjur geta gert, og það algjörlega án útblásturs.

Fyrir land eins og Ísland með sínu gjöfulu fiskimið og hreinu náttúru er ljóst að vetnisverkefnið sem Samskip taka þátt í í Noregi gæti einnig vísað leiðina til framtíðar í visthæfum flutningum hérlendis.