Samskip stuðla að orkuskiptum í þungaflutningum á landi

Nýr rafmagnsvöruflutningabíl tekinn í notkun

Samskip hafa tekið markviss skref í átt að orkuskiptum í þungaflutningum á landi með því að taka í notkun rafmagnsvöruflutningabíl frá Mercedes-Benz og áætlun um kaup á vörubifreiðum MAN sem ganga fyrir vetni.

Hjá Samskipum er áhersla á sjálfbærni og aðgerðir til að takmarka umhverfisáhrif starfseminnar samofin kjarnastefnu félagsins. Við erum stolt af því að hafa tekist á hendur forystuhlutverk í að innleiða notkun vistvænna ökutækja í þungaflutningum, en með ákvörðun um notkun slíkra tækja er líka þrýst á uppbyggingu þeirra innviða sem nauðsynlegir eru til þess að orkuskipti í þungaflutningum geti átt sér stað.

Rafmagnsvörubíll er á Selfossi

Rafmagnstrukkur Samskipa við brúarsporðinn, á leið inn í Selfossbæ.

Fyrsti af tveimur rafmagnsvörubílum Samskipa er þegar kominn í notkun og sinnir flutningum frá starfsstöð félagsins á Selfossi þaðan sem ekið er með vörur víðs vegar um Suðurland. 

Bíllinn er Mercedes Benz eActroz 300 og drægni hans um 330 kílómetrar, sem stendur vel undir flutningum á svæðinu. Auk þeirra viðbrigða að nota tæki sem gengur fyrir endurnýjanlegu eldsneyti er vinnuaðstaða bílstjóra öll önnur, enda ökutækið með öllu laust við vélardrunur þær sem alla jafna einkenna stóra vörubíla. Annar bíll sömu gerðar er væntanlegur síðar á þessu ári.

Vöruafgreiðsla á Laugarvatni.

Á næsta ári verður svo enn stærra skref stigið í átt að orkuskiptum í þungaflutningum þegar Samskip fá afhentan vetnisknúinn MAN hTGX vöruflutningabíl, en í apríllok voru Samskip í hópi fimm fyrirtækja sem skrifuðu undir viljayfirlýsingu um kaup á slíkum bílum. Um er að ræða dráttarbíla af stærstu gerð, 44 og 49 tonn. 

Glænýir vetnistrukkar

Vetnisdráttarbíll af þeirri gerð sem Samskip fá til sín á næsta ári. Þeir geta dregið bæði flutningavagna og aðrar gerðir af hlassi.

Vetnið fyrir bílana kemur frá framleiðslustöð Orku náttúrunnar á Hellisheiði, dreifingu annast Blær-Íslenska vetnisfélagið. Bílarnir sjálfir eru glænýir, en MAN tilkynnti um framleiðslu þeirra í byrjun apríl. Þeir eru með brunahreyfli sem gengur fyrir vetni og því er öll umhirða og viðhald sambærileg við bifreiðar sem fyrirtæki hafa þegar í rekstri. Drægni vetnistrukkanna er allt að 600 kílómetrar sem gerir þá líka samkeppnishæfari við hefðbundna vörubíla knúna dísilolíu. Vörubílar af þessari stærðargráðu eru með þeim ökutækjum sem nota mest eldsneyti og er ekið langar vegalengdir á ári hverju. Notkun sjálfbærra orkugjafa á slík tæki vegur því þungt í samdrætti losunar á Íslandi og ljóst að orkuskipti í þungaflutningum hafa gríðarleg áhrif. Við gleðjumst því yfir því að geta lagt okkar lóð á þær vogarskálar.