Samskip styðja AFÉS 2018

Að vanda styðja Samskip dyggilega við bakið á tónlistarhátíðinni Aldrei fór ég suður á Ísafirði, en hún fer fram í 15. sinn um páskahelgina. Hátíðin hefur notið stuðnings Samskipa allt frá árinu 2011 en síðustu ár hefur fyrirtækið verið á einn aðalstyrktaraðila hátíðarinnar. Auk styrks í formi peningaframlags sjá Samskip um flutninga á tækjum og tólum fyrir hátíðina.

Starfsmenn Samskipa á Ísafirði segja gaman að snúningunum í kring um hátíðina, enda verkefni sem setur mikinn svip á bæinn. Litið er á hana sem vorboða og kærkomna upplyftingu.

Öflugur stuðningur gerir svo að verkum að inn á hátíðina er ekki innheimtur neinn aðgangseyrir. „Það hefur aldrei kostað neitt inn á Aldrei fór ég suður, og það breytist ekkert í ár. Það er alveg algerlega ókeypis,“ segir á vef hátíðarinnar.

Líkt og síðustu tvö ár verður aðaldagskrá hátíðarinnar í Kampa-skemmunni á horni Ásgeirsgötu og (Aldrei fór ég) Suðurgötu og stendur yfir í tvo daga, föstudaginn langa 30. mars og laugardaginn 31. mars.

Fyrir utan aðaldagskrá hátíðardaganna er svo í boði margvísleg hliðardagskrá allt frá miðvikudegi til sunnudags víðsvegar um Skutulsfjörð sem og nágrannabyggðarlög, að því er fram kemur á vef tónlistarhátíðarinnar.

Meðal tónlistarmanna sem upp troða á hátíðinni að þessu sinni má nefna Kolrössu krókríðandi, Dimmu, 200.000 naglbíta, Auði, Hatara, Between Mountains, Á móti sól, Une Misére, Kuldabola, Friðrik Dór, og fjölda annarra sem lesa má sér til um á vef Aldrei fór ég suður, aldrei.is.

 Aldrei_stemning

Svona var stemningin í Kampa-skemmunni á Aldrei fór ég suður á Ísafirði í fyrra.