Samskip styðja handboltalandsliðið á HM í Frakklandi

Í dag undirrituðu Pálmar Óli Magnússon forstjóri Samskipa, og Einar
Þorvarðarson framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands samning um
áframhaldandi samstarf Samskipa og HSÍ. 

Samskip hafa stutt við bakið á íslensku kvenna- og karlalandsliðunum frá árinu 1998 eftir að karlalandsliðið náði 5. sæti á HM í Japan 1997. Nú er HM í Frakklandi fram undan eftir frábæra riðlakeppni og segir Einar Þorvarðarson mikilvægt að allur aðbúnaður landsliðsins sé eins og best verður á kosið.

„Það er mikið handboltaár fram undan hjá karla- og kvennalandsliðunum. Þessi árangur byggist ekki upp á einni nóttu heldur með markvissu uppbyggingarstarfi yfir lengri tíma. Traustir bakhjarlar, sem standa með okkur yfir lengri tíma í gegnum sætt og súrt, og þrautseigja landsliðsfólksins er grunnurinn að þessum árangri,“ sagði Einar.

„Samskip hafa verið styrktaraðili bæði karla- og kvennalandsliðsins í handbolta um árabil. Við höfum tekið þátt í fjölda stórmóta með liðunum og hefur samstarfið verið með miklum ágætum. Það er okkur því sönn ánægja að halda áfram á þeirri braut og leggja bæði strákunum og stelpunum lið og því góða starfi sem unnið er hjá HSÍ,“ sagði Pálmar Óli við þetta tækifæri.

Framkvæmdastjóri HSÍ, Einar Þorvarðarson þakkaði Samskipum stuðninginn bæði fyrr og nú og áréttaði að það væri sambandinu afar mikilvægt að eiga trygga stuðningsaðila en Samskip hafa verið stuðningsaðili HSÍ í að verða tvo áratugi eða allt frá árinu 1998. Á þeim tíma hafa landsliðin verið með á 35 stórmótum og fjölda minni móta. „Það er gott að eiga góða að,“ sagði Einar að lokum.

Myndatexti:
Einar Þorvarðarson framkvæmdastjóri HSÍ og Pálmar Óli Magnússon forstjóri Samskipa undirrituðu samninginn.