Samskip styðja keppnislið RU Racing
Samskip hafa skrifað undir samning um styrk til Háskólans í Reykjavík vegna þátttöku keppnisliðs RU Racing í Formula Student, árlegri hönnunarkeppni og kappakstri háskólanema, sem að þessu sinni fer fram í Rúmeníu. Viðburðurinn hefst í lok júlí og stendur til 5. ágúst.
Hér má sjá Þórunni Ingu Ingjaldsdóttur, forstöðumann markaðs- og samskiptadeildar Samskipa, og Atla Vikar Ingimundarson, markaðsstjóra RU Racing, handsala stuðning Samskipa við keppnislið RU Racing. Með þeim er Arnar Jónsson, samfélagsmiðlastjóri RU Racing.
„Okkur þykir afar skemmtilegt að fá að vera bakhjarl liðsins og veita liðsinni okkar við að koma kappakstursbíl þeirra til Rúmeníu síðar í sumar. Stuðningur við margvísleg verkefni er hluti af samfélagsábyrgðarstefnu Samskipa og fellur stuðningur við liðið vel að markmiðum um stuðning við menntun og íslenskt hugvit,“ segir Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptadeildar Samskipa.
RU Racing er Formula Student kappaksturslið Háskólans í Reykjavík og samanstendur af nemendum skólans og tveimur leiðbeinendum. Starfsemi liðsins gengur út á að hanna og smíða kappakstursbíla frá grunni og keppa síðan á þeim erlendis.
Í ár fer Formula Student keppnin fram í Lasi í Rúmeníu, en að lokinni ítarlegri keppnisskoðun er meðal annars keppt í verkfræðilegri hönnun, hröðun, kostnaðar- og markaðsáætlun, og að lokum kappakstri. Keppnin stendur í um vikutíma og gista keppendur í tjöldum við hlið brautarinnar.
„Liðið hefur fjórum sinnum tekið þátt í keppni erlendis og alltaf komist í gegnum keppnisskoðun. Þetta verður því fimmta keppnin sem við tökum þátt í og er liðið gríðarlega þakklátt Samskip fyrir þeirra famlag “ segir Arnar Jónsson,, markaðsstjóri RU Racing.
Frekari upplýsingar um Formula Student er að finna á vef keppninnar
Svo má finna upplýsingar um íslenska keppnisliðið og þegar fram í sækir fregnir af árangri í keppninni á Facebook síðu liðsins