Samskip styðja kynningu á íslenskum þorski
Meðal fjölmargra verkefna sem njóta stuðnings Samskipa er kynning Íslandsstofu og Íslenskra saltfiskframleiðenda á söltuðum þorskafurðum frá Íslandi í Suður-Evrópu. Nýafstaðin er vel heppnuð kynning sem Bacalao de Islandia stóð fyrir í Bilbao á Spáni, en frá 23. apríl fram í aðra viku maímánaðar kynntu níu veitingastaðir á svæðinu íslenskan þorsk.
Haldinn var blaðamannafundur ytra í glæsilegum húsakynnum Mercado La Ribera í miðborg Bilbao, en hann sóttu auk almennra gesta blaðamenn og bloggarar auk fulltrúa frá borgaryfirvöldum í Getxo og Bilbao.
Þá var bás merktur Bacalao de Islandia staðsettur á Plaza Indautxu í Bilbao dagana 26. og 27. apríl og komu nokkur þúsund manns sem fylgdust með kokkum elda í beinni og brögðuðu á íslenska þorskinum. Að auki munu um 60 þúsund manns hafa séð beinar útsendingar frá viðburðinum á Facebook síðu verkefnisins.
Samskip eru meðal 20 fyrirtækja sem þátt taka í verkefninu en auk Samskipa eru það Bacco Seaproducts, Drangur, Fiskkaup, GPG, Iceland Seafood, Icelandic Iberica, Ísfélag Vestmannaeyja, KG Fiskverkun, Marel, Oddi , Rammi, Samhentir, Skinney, Smyril Line, Valafell, Vísir, VSV, Þorbjörn og Þórsnes.
„Samskip styðja við margvísleg félagasamtök og framtak af ýmsum toga. Stuðningur við kynningu á íslenskum afurðum felur líka í sér stuðning við aukna möguleika fyrirtækja til útflutnings, en Samskip eru náttúrlega í einstakri stöðu þegar að því kemur að aðstoða fyrirtæki við að koma vörum sínum hratt og örugglega á markað," segir Anna Guðný Aradóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs hjá Samskipum á Íslandi.
Myndir og annað efni frá Bacalao de Islandia er að finna á Facebook síðu verkefnisins.