Samskip styðja ráðstefnu um vistheimt
Samskip eru stoltur styrktaraðili SER Europe 2018 ráðstefnunnar sem fram fer í fyrsta sinn á Íslandi dagana 9. til 13. september næstkomandi.
Um er að ræða ellefta þing Evrópudeildar alþjóðlegu vistheimtarsamtakanna SER (Society for Ecological Restoration), en það er skipulagt af Landgræðslu ríkisins, Landbúnaðarháskóla Íslands, Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Landvernd og SER.
Um leið og flutningur varnings á milli landa er nauðsynleg innviðaþjónusta sem enginn getur verið án, taka Samskip alvarlega samfélagslega ábyrgð sína með virkum aðgerðum til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og með stuðningi við uppbyggileg umhverfisverkefni.
Með fjölþátta gámaflutningskerfi sínu er Samskip leiðandi fyrirtæki þegar kemur að aðgerðum til að draga úr mengun og útblæstri. Stöðugt er leitað leiða til að minnka umhverfisáhrif starfseminnar.
Á ráðstefnu Evrópudeildar SER, sem fram fer á Hilton Reykjavik Nordica, kemur saman breiður hópur sem fæst við endurheimt vistkerfa á öllum stigum, en slík endurheimt er sögð á meðal helstu viðfangsefna í umhverfismálum samtímans.
Um er að ræða þrjá daga með fyrirlestrum og veggspjaldskynningum þar sem meðal umfjöllunarefna er virkni vistkerfa, endurheimt votlendis, skógar og vistheimt, vistheimt í þéttbýli, endurheimt lífvera, líffræðileg fjölbreytni, og fleira slíkt.
Þá fjalla alþjóðlegra viðurkenndir sérfræðingar um hluti á borð við áskoranir og álitamál í vistheimt, samspil vistheimtar, loftslagsbreytinga og líffræðilegrar fjölbreytni; efnahagslega hvata vistheimtar, þýðingu vistheimtar fyrir ferðaþjónustu á norðurslóðum og margt fleira.
Frekari upplýsingar er að finna á vef ráðstefnunnar https://sere2018.org.