Samskip taka þátt í sjávarútvegssýningunni í Brussel

Samskip verða með myndarlegan bás á sjávarútvegssýningunni í Brussel 25. – 27. apríl n.k. eins og svo oft áður. 

Það eru Samskip á Íslandi, Samskip Logistics og FrigoCare sem sýna þar saman og starfsmenn þeirra eininga keppast við að hitta viðskiptavini og kynnast þörfum þeirra viðskiptavina ásamt því að bjóða gesti velkomna á básinn.

Hér koma saman flest allir viðskiptavinir Samskipa sem stunda útflutning frá Íslandi og má því segja að sjaldan gefist betra tækifæri til að hitta alla saman komna á einum stað en á þessari árlegu sjávarútvegssýningu í Brussel. Sýningarsvæðið eru margar hallir en svæði Samskipa er í höll nr. 4 og básinn er nr. 6115. Samskip sýna undir hatti Íslands eins og flest íslensku fyrirtækin. 

Á sýninguna 2015 komu yfir 26.000 gestir frá meira en 140 löndum. Heldur færri voru í fyrra, árið 2016, vegna hryðjuverka sem framin voru í borginni stuttu fyrir sýningu. Nú er allt með kyrrum kjörum en öryggisgæsla en enn mikil í Brussel og ekkert til sparað að tryggja öryggi gesta eins og mögulegt er. Boðið er upp á rútuferð frá sýningarsvæði inn í borgina fyrir þá sem vilja síður nota lestarkerfið.

 Brussel-2017-IS