Samskip taka virkan þátt í að bæta orkunýtingu

Bætt orkunýting og nýting annarra og vistvænni orkugjafa en jarðefnaeldsneytis eru Samskipum hugleikin. Þetta sagði Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa á Íslandi, á opnum fundi um nýsköpun og hugvit í orkumálum sem fram fór í byrjun vikunnar.

Í erindi sínu sagði Pálmar Óli að við fyrstu sýn gæti virst sem flutningageirinn væri ekki mikil nýsköpunargrein, en við nánari skoðun væri raunin önnur. „Þegar horft er til þeirra hröðu samfélagsbreytinga sem við erum öll að upplifa, alþjóðavæðingarinnar og upplýstari neytenda, sem gera kröfur um gæði, hraða, áreiðanleika, sanngjarnt verð og ábyrga hegðun er augljóst að þarfir markaðarins hafa gjörbreyst á síðustu áratugum og þar með þjónustuframboð Samskipa,“ sagði hann og kvað ekkert lát á breytingunum sem ættu eftir að gerast enn hraðar á næstu árum og áratug. Þetta leggi fyrirtækjum á herðar áður óþekktar kröfur um að huga að nýsköpun.

Áherslur í samræmi við markmið ESB

Breytt umhverfi sagði Pálmar hafa haft mikil áhrif á vöxt Samskipa síðustu ár, en á innan við tveimur áratugum hefur fyrirtækið sjöfaldað veltu sína og veltir í dag um 700 milljónum evra á ári, en það svarar til tæplega 87,2 milljarða króna. Starfsmenn eru um 1.500 í 26 löndum og fyrirtækið er með tugi skipa í rekstri og yfir 1.000 flutningabíla og -vagna víðsvegar um Evrópu. Í flutningakerfum sínum flytja Samskip yfir 800.000 gámaeiningar á ári.

Fram kom í máli Pálmars Óla að vöxtur Samskipa hafi fram til þessa verið mestur í flutningum innan Evrópu. „Þar hafa Samskip tekið sér stöðu sem leiðandi aðili í að bjóða hagkvæmar og vistvænar flutningalausnir sem valkost við hefðbundna vöruflutninga á vegum,“ sagði hann og benti á að áherslur Samskipa væru í samræmi við almennt viðhorf Evrópubúa og yfirlýst markmið Evrópusambandsins um að draga úr neikvæðum áhrifum flutninga á umhverfi og samfélag. Með því að nýta sér fjölþátta flutningskerfi Samskipa gætu viðskiptavinir fyrirtækisins minnkað vistspor sitt umtalsvert með því að nýta vistvænasta flutningsmátann sem í boði væri hverju sinni.

Mynd7_web

Pálmar sagði áherslur Samskipa á bætta orkunýtingu og nýja orkugjafa endurspeglast víðsvegar í starfseminni, en metan, lífdísill, rafmagn, sólarorka og fljótandi jarðgas (LNG) væru meðal orkugjafa sem Samskip hafi, í mismiklu mæli þó, tekið í notkun í starfsemi sinni.

Léttari gámar og sólarorka

Þá hafi Tæknideild Samskipa um áratugaskeið unnið náið með gámaframleiðendum við að bæta hönnun og efnisval gáma. „Gámar Samskipa í dag eru um 960 kílóum eða 20 prósent léttari en þeir voru fyrir 20 árum sem dregur úr orkunotkun.“

Um leið sagði Pálmar félagið leggja áherslu á nýsköpun í bættri orkunýtingu og minni mengun frá flutningabílum með samstarfssamningi við Mercedes Benz í Þýskalandi. Rekstrarsamningur við Mercedes Benz gerði Samskipum kleift að endurnýja árlega tugi dráttarbíla og vera þannig með nýjustu og vistvænustu bílana á markaðnum í sinni þjónustu á hverjum tíma. „Að sama skapi hefur félagið nú um tólf ára skeið átt í samstarfi við vélaframleiðandann MAN í Þýskalandi um að þróa og bæta skipsvélar þannig að draga megi úr mengun frá útblæstri skipa,“ bætti hann við.

Mynd5_web

Meðal annarra áfanga til að bæta orkunýtingu nefndi Pálmar að Samskip tóku á síðasta ári í notkun 750 þúsund kílówatta sólarorkuver til að fæða frystigeymslu félagsins í Rotterdam, sólarorkuverið er það stærsta sem reist hefur verið þar í borg. „Og í ár bættust tvö skip í flota Samskipa sem brenna fljótandi jarðefnagasi (LNG), sem mengar mun minna en olía,“ sagði Pálmar og bætti við að í dag sneru helstu áskoranir félagsins við nýta aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti í siglingum um að þróa leiðir til þess að geyma nægjanlegt magn af orku um borð í skipunum. „En LNG er geymt um borð í skipunum í vökvaformi við mínus 162 gráður á Celsíus.“

Fundinn, sem fram fór 9. þessa mánaðar í Veröld – Húsi Vigdísar, hélt MBA-námið við Háskóla Íslands í samstarfi við ráðstefnuna CHARGE - Energy Branding Conference . Auk Pálmars tóku til máls Friðrik Larsen stjórnarformaður CHARGE og lektor í HÍ, Ásgeir Margeirsson forstjóri HS Orku, Jón Ólafur Halldórsson forstjóri Olís og Tinna Jóhannsdóttir markaðsstjóri Brimborgar.

Mynd6_web

Myndir: Ester Gustavsdóttir©