Samskipum vel tekið á Ísafirði

Óhætt er að segja að strandsiglingum Samskipa hafi verið tel tekið af Ísfirðingum og Vestfirðingum öllum, en Samskip héldu í gær boð fyrir viðskiptavini í Turnhúsinu til að fagna nýrri siglingaleið félagsins um ströndina áleiðis til Evrópu

Óhætt er að segja að strandsiglingum Samskipa hafi verið tel tekið af Ísfirðingum og Vestfirðingum öllum, en Samskip héldu í gær boð fyrir viðskiptavini í Turnhúsinu til að fagna nýrri siglingaleið félagsins um ströndina áleiðis til Evrópu.  Fjölmargir litu við og fögnuðu með starfsfólki Samskipa en við sama tækifæri var undirritaður samningur við 3X Technology um útflutning á framleiðsluvörum þeirra.

Daníel Jakobsson, bæjarstjóri á Ísafirði tók til máls í boðinu og lýsti ánægju sinni með að Samskip hafi haft frumkvæði að siglingum um ströndina og þaðan beint á erlenda markaði.  Nefndi hann að þetta framtak félagsins væri stærsta einstaka byggðaaðgerð í langan tíma.  Ásbjörn Gíslason forstjóri Samskipa lýsti ánægju sinni með að geta boðið Vestfirðingum upp á nýjan og spennandi valkost, bæði hvað varðar inn- og útflutning, sem einnig skapar hagræði fyrir viðskiptavini.

Ánægjulegt er að finna hversu vel þessari nýju leið hefur verið tekið og standa vonir til að grundvöllur verði fyrir vikulegum siglingum þegar fram líða stundir en ákveðið var að byrja á skynsamlegum forsendum, að sögn Kristínar Hálfdánsdóttur, rekstrarstjóra Samskipa á Ísafirði.