Samstarf Samskipa og Rail Cargo Group tengir Norðurlönd og Austur-Evrópu
Þann 1. janúar 2017 hefst nýr kafli í samstarfi Samskipa og Rail Cargo Group (sem er hluti af austurríska járnbrautarfélaginu ÖBB) með beinum lestarflutningum milli Rúmeníu og Svíþjóðar.
Félögin munu tengja flutningsnet sín saman um járnbraut milli Curtici í Rúmeníu og helstu flutningamiðstöðva í Svíþjóð.
Nýja þjónustan tengir tvær flutningsleiðir sem þegar eru í rekstri þannig að úr verður fyrsta óslitna lestartengingin milli Austur-Evrópu og Skandinavíu í gegnum fullkomna lestarstöð Samskipa í Duisburg í Þýskalandi. Curtici, sem er við vestur landamæri Rúmeníu, er svo einn helstu tengipunkta í lestarkerfi Mið-Evrópu, þar á meðal með beinar tengingar til Búkarest, höfuðborgar landsins.
„Þeir sem vilja senda vörur milli þessara svæða hafa til þessa neyðst til að reiða sig á þjóðvegina, þar sem hætt er við umferðartruflunum og lítt hægt að reiða sig á afhendingartíma,“ segir Frank Gielen, þróunarstjóri járnbrautarflutninga hjá Samskipum í Hollandi. „Flutningar með lest eru áreiðanlegri kostur auk þess sem dregið er umtalsvert úr útblæstri við hverja flutta einingu.“
„Rail Cargo Group gengur hæstánægt til þessa breiða samstarfs við Samskip. Fyrirtækin tvö verða með þessu þau fyrstu til að bjóða beinar tengingar milli Tyrklands og Skandinavíu, þegar saman leggjast járnbrautartengingar Rail Cargo Group milli Tyrklands og Rúmeníu og Rúmeníu og Þýskalands og flutningsnet Samskipa frá Duisburg til ýmissa áfangastaða í Skandinavíu. Markaðnum býðst með þessu; aukin tíðni flutninga, skemmri flutningstími og samkeppnishæft verð,“ segir Max Kindler, viðskiptastjóri Rail Cargo Group Intermodal.
Þessi nýja og umhverfisvæna flutningsleið er fyllilega samkeppnisfær við flutninga með bílum og gerir til dæmis mögulegt að flytja vörur frá Curtici til Stokkhólms á fjórum til fimm virkum dögum.
Umtalsverð uppbygging hefur orðið á sviði lestarsamgangna í Rúmeníu síðustu ár, svo sem með nýrri tengingu við Búlgaríu yfir Dóná, sem er hluti af Sam-Evrópska Corridor IV-samgöngunetinu, og enduruppbyggingu járnbrautar milli hafnarinnar í Constanta og Búkarest. Curtici tengir áfangastaði í Mið- og Austur-Evrópu um leið og hún er tengipunktur við Vestur-Evrópu.
Til að byrja með er áætlað að ferðir milli Duisburg og Curtici verði fjórar í viku hverri en fleiri þegar fram í sækir.
Hagræði viðskiptavina eykst þar sem þeir þurfa einungis að eiga við Samskip um flutninginn á milli svæðanna og njóta um leið aðgangs að notendavænu vefsvæði þar sem haldið er utan um bókanir og hægt að fylgjast með stöðu sendinga. Þá skilar kerfið af sér sjálfvirkum tilkynningum um brottför og komu sendinga viðskiptavinum einnig til hagræðis.