Senda fullan gám af sjúkrahúsbúnaði til Sierra Leone

Nýverið gaf sjúkrahúsið á Akureyri fullan gám af notuðum sjúkrahúsbúnaði til Sierra Leone en það voru Samskip sem sáu um flutninginn og lánuðu gám til verksins.

Þetta er í annað sinn sem Sjúkrahúsið á Akureyri sendir búnað til Sierra Leone, sem er eitt fátækasta land í heimi. Árið 2016 voru send 22 rúm sem enn eru í góðri notkun segir á vef RÚV.

„Ástandið er náttúrlega bara alls ekkert gott hér. Það er bæði ekkert mikið um spítala og þeir eru mjög illa búnir að mörgu leyti." segir Regína Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri velgerðarsjóðsins Auroru.

Á síðasta ári gáfu Samskip töluvert magn tölvubúnaðar til Sierra Leone og sáu um flutningin á áfangastað. Í Sierra Leone er tölvueign mjög langt frá því að vera almenn og því eru tækifæri fólks til að öðlast tölvufærni afar takmörkuð. Þetta hrjáir ungt fólk sérstaklega og stendur samfélaginu fyrir þrifum við uppbyggingarstarf og Aurora Foundation mætir þessari þörf með mjög vinsælum tölvunámskeiðum fyrir þennan hóp landsmanna. 

Aurora velgerðasjóður var stofnaður árið 2007 af hjónunum Ingibjörgu Kristjánsdóttur og Ólafi Ólafssyni í þeim tilgangi að styrkja góðgerðarmál í þróunarlöndum og menningarmál innanlands. Sjóðurinn hefur að mestu unnið í Sierra Leone og hefur meðal annars byggt fjölda skóla, þjálfað nokkur hundruð kennara og stofnað fjölmarga mæðraklúbba.  Landið er enn að græða sárin eftir harðvítuga borgarastyrjöld sem geisaði þar frá 1991 til 2002. Fæstir vita að Sierra Leone er eitt verst stadda land heims og því er unnið mikilvægt starf þar sem miðar að því að bæta lýðheilsu og atvinnutækifæri auk annarra verkefna.  Nánar má lesa um sjóðinn og þau verkefni sem hann hefur styrkt á vefnum www.aurorafund.is.