Síðasta stóra skipið kemur í september

Þjónusta Samskipa við skemmtiferðaskip hefur gengið vel í sumar að sögn Guðmundar Arnars Óskarssonar, forstöðumanns flutningastjórnunardeildar Samskipa á Íslandi, en hún sinnir skemmtiferðaskipunum.

Sunnan úr Evrópu hafa borist af því fregnir að miklir hitar hafi haft áhrif á afgreiðslu í stórskipahöfnum, þegar spor sem kranar ganga á hafa aflagast. Við það hafa orðið einhverjar smátafir, en ekkert sem haft hefur áhrif á skemmtiferðaskipin sem hingað sigla.

Guðmundur segir að bókanir og fjöldi skipa sé samkvæmt áætlun, en nokkur aukning hefur verið á komum farþegaskipa síðustu ár.

Hlutur smærri farþegaskipa, leiðangursskipanna, hefur aukist síðustu ár, en það segir Guðmundur að megi meðal annars sjá á tölum um fjölda farþega í hverri viðkomu. Árið 2013 hafi farþegar í hverri viðkomu skipa að jafnaði verið 947, en séu nú 650. Á sama tíma hefur skipum fjölgað og viðkomur nálægt því þrefaldast. þær voru 235 árið 2013, en voru 620 á síðasta ári. Síðasta stóra farþegaskipið er væntanlegt hingað til lands í lok september, segir Guðmundur. „Þá er komið undir lok vertíðarinnar þó að einhver smærri skip, svokölluð leiðangursskip, eigi eftir að koma, þau síðustu í október.“

Skip

Þegar skip hafa hér viðkomu er tækifærið gjarnan notað og bætt á vistir. Mynd/Samskip