Silkileiðin er hagkvæmur og grænn kostur

Flutningur varnings með lest milli Norður-Evrópu og Kína opnar viðskiptavinum Samskipa ný tækifæri enda flutningurinn hraðari, hagkvæmari og umhverfisvænni en aðrir kostir.

„Vöruflutningur með lest um svonefnda Silkileið er nýr kostur í innflutningi frá Kína til Íslands,“ segir Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Samskipa á Íslandi. „Vörur eru fluttar hefðbundnum skipaflutningi milli Íslands og Evrópu þar sem tenging er við fjölþátta flutningskerfi Samskipa og við Kína um annað hvort norður- eða suðurleið“

Samskip sjá mikla möguleika í auknum vinsældum gámaflutninga með lest milli Kína og Evrópu en sú leið er ekki aðeins hraðari og umhverfisvænni, heldur einnig hagkvæmari en sjóleiðin.

Silkileiðin hefur tvo leggi

Flutningur á þessari leið með lest tekur nærri helmingi skemmri tíma en sjóflutningur. Með lest er 40 feta gámur 16 til 18 daga að fara á milli Sjanghaí og Rotterdam, samanborið við um 35 daga sjóleiðina. Lestin hefur augljósa yfirburði hvað flutningstíma varðar og eykst það forskot eftir því sem lengra er á milli umskipunarhafna í Kína og áfangastaða inni í landi.

Kostir fjölþátta flutningskerfis Samskipa í koma best í ljós þegar flytja þarf vörur um langan veg. Í flutningum til og frá Kína vegur þungt hraði flutningsins, aukinn áreiðanleiki og viðkomustaðir inni í landi. Vegna áhrifa af heimsfaraldri COVID-19 hefur líka þrengt að sjóflutningi gáma og kostnaður þar aukist, en sú þróun hefur ýtt undir flutning með lest milli Kína og Evrópu. Þetta sést á 10-15% aukningu sem nýlega hefur orðið á flutningum á landi milli Kína og Evrópu og endurspegla auknar vinsældir rótgróinnar lestarþjónustu á „Silkileiðinni“ á kostnað sjóflutninga.

Um er að ræða tvær leiðir til Kína sem í Þýskalandi tengjast flutningsneti Samskipa í Evrópu. Á norðurleiðinni fara sendingar um Síberíu frá Hamborg til Peking og Harbin í Kína. Á suðurleiðinni er Duisburg tengipunktur flutninganna um Íran og Tyrkland til og frá Guangzhou. Aðrir viðkomustaðir í Kína, eftir því hvor leiðin er valin, eru svo borgir á borð við Changsha, Chengdu, Sjanghaí, Heifei, Wuhan og Xi-an.

COVID-19 raskaði flutningum

Flutningur með lest hefur mikla kosti fyrir dýrari varning sem fluttur er frá Kína, svo sem rafmagnsreiðhjól, húsgögn, fartölvur, snjallsíma og annan rafeindavarning, og fatnað. Flutningur að þessu tagi hentar í báðar áttir, auk þess sem að hraðari flutningur þýðir líka að birgjar geti brugðist hraðar við breyttum markaðsaðstæðum og dregið úr birgðahaldi sínu.

Kostir fjölþátta flutningskerfis hafa jafnframt sannað sig í röskuninni sem varð á hefðbundnum sjóflutningum á fyrri parti árs 2020 vegna heimsfaraldurs COVID-19, en vegna niðurfellingar ferða lenti fjöldi gáma utangarðs í kerfinu. Það varð aftur til þess að getu skorti til að bregðast við skjótari bata í útflutningi frá Kína en búist hafði verið við.

Umhverfisvænni flutningur

Líklega kemur ekki á óvart að útblástur CO2 í fraktflugi milli Kína og Norður-Evrópu sé um 12 sinnum meiri en af samsvarandi flutningi með lest. Hins vegar gæti komið á óvart, vegna stærðarhagkvæmni gámaskipa, að útblástur af flutningi með lest er 25% minni en með skipi. Atburðir síðasta árs hafa sýnt fram á að hægt er að fara nýjar leiðir. Á árinu 2021 gerum við það líka í vöruflutningnum og leggjum áherslu á skemmri flutningstíma og minni losun.

Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs Samskipa á Íslandi, segir afar spennandi að kynna þennan nýja valkost í flutningum milli Íslands og Kína. „Við erum þess fullviss að þarna eru tækifæri sem við getum hjálpað viðskiptavinum okkar að grípa og þróa,“ segir hún og bætir við að eins gleðji sérstaklega að á svo langri flutningsleið megi ná jafnmiklum árangri í að hraða sendinga, minni útblæstri og aukinni hagkvæmni. 

„Innan Samskipa hefur verið unnið ötullega að því að bæta þjónustu við viðskiptavini, meðal annars með auknu gagnsæi og rekjanleika sendinga. Allt þetta, parað við sveigjanleikann sem fæst með fjölþátta flutningsneti Samskipa, styður við kosti Silkileiðarinnar nýju.“

Frekari upplýsingar veitir:

Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs Samskipa, í síma 858-8150 eða með því að senda tölvupóst áthorunn.inga.ingjaldsdottir@samskip.com

Um Samskip:

Samskip hf. eru alþjóðlegt flutningafyrirtæki sem býður flutningalausnir og tengda þjónustu á landi, sjó og í lofti með hagkvæmni og sjálfbærni að leiðarljósi. Samskip hf. bjóða upp á heildarþjónustu á Íslandi og í Færeyjum, fjölþátta flutnings­þjónustu um alla Evrópu, og frystiflutninga og flutningsmiðlun um allan heim. Á heimsvísu starfrækja Samskip 46 skrifstofur í 24 löndum í fimm heimsálfum og starfsmenn eru um 1.600 talsins. Sjá einnig: www.samskip.is.