Skipulagsbreytingar leggja grunn að frekari uppbyggingu
Yfirstjórn Samskipa hefur kynnt áform sín um breytt skipulag Samskipasamstæðunnar. Markmiðið er að einfalda og straumlínulaga rekstur samstæðunnar.
Yfirstjórn Samskipa hefur kynnt áform sín um breytt skipulag Samskipasamstæðunnar. Markmiðið er að einfalda og straumlínulaga rekstur samstæðunnar. Flutningakerfi Samskipa verða sameinuð undir tvö meginfélög sem mun auka hagkvæmni um leið og félagið hugar að nýjum landvinningum á mörkuðum í Evrópu og víðar.
Breytingarnar voru kynntar á starfsmannafundi hjá Samskipum, sem haldinn var síðdegis. Ólafur Ólafsson stjórnarformaður Samskip Holding BV og aðaleigandi félagsins gerði þar grein fyrir breytingum á starfsemi og stjórnendum.
Skipulagsbreytingarnar felast í því að samstæðan mun nú verða tvær megin stoðir. Flutningakerfi Samskipa hf. og Samskip Multimodal verða samþættuð undir merkjum Samskipa. Öll flutningsmiðlun félagsins verður sameinuð undir merkjum Samskip Logistics. Þar undir fellur starfsemi félagsins sem bæði er rekin undir merkjum Samskipa, Samskip Icepak og FrigoCare sem og eignarhlutur félagsins í frystiskipaflutningafélaginu Silver Sea.
Ólafur Ólafsson stjórnarformaður Samskipa:
„Þessar breytingar eru liður í því að félagið verði betur í stakk búið til að taka næstu skref og ráðast í frekari uppbyggingu á þeim mörkuðum þar sem tækifæri bjóðast.
Samskip högnuðust um tvo milljarða króna á síðasta ári. Velta samstæðunnar í fyrra var um 88 milljarðar ISK og er áætluð um 100 milljarðar ISK á þessu ári. Við höfum glímt við erfitt efnahagsumhverfi frá því snemma árs 2008 en við teljum að okkur hafi tekist að vinna vel úr þessum erfiðu aðstæðum. Í dag koma þrír fjórðu hlutar tekna félagsins frá erlendri starfsemi. Flutningakerfi Samskipa í Evrópu er það stærsta í dag og við teljum mikilvægt að tryggja íslensku atvinnulífi aðgang að þessu kerfi og um leið möguleikann að nýta stærð og hagkvæmni þess til vaxtar á öllum sviðum fyrir íslensk fyrirtæki.“
Yfirstjórn félagsins breytist ekki en hún samanstendur af Ásbirni Gíslasyni, Kristni Albertssyni og Jens Holger Nielsen, sem svara til stjórnar Samskip Holding BV.
Eftirfarandi breytingar munu eiga sér stað:
Ásbjörn Gíslason mun taka við stöðu forstjóra Samskip Logistics með aðsetur í Hollandi og svara til stjórnar Samskip Holding BV. Hann verður ábyrgur fyrir flutningsmiðlun, stórflutningum, FrigoCare og Silver Sea í Noregi.
Jens Holger mun verða forstjóri Samskipa með aðsetur í Hollandi og svara til stjórnar Samskip Holding BV. Hann verður ábyrgur fyrir öllum flutningakerfum Samskipa.
Á sama tíma er tilnefndur nýr forstjóri Samskipa hf. Hann mun svara til stjórnar Samskipa hf. en hana skipa Jens Holger Nielsen formaður, Ásbjörn Gíslason og Vesna Nevistic. Vesna er einnig í stjórn Samskip Holding BV ásamt Ólafi Ólafssyni sem er formaður og Hjörleifi Jakobssyni. Nafn nýs forstjóra verður tilkynnt í næstu viku.
Ásbjörn Gíslason verðandi forstjóri Samskipa Logistics:
„Við hugsum breytingarnar sem fyrsta skref í þá átt að nýta þau fjölmörgu og stóru tækifæri sem í boði eru á sviði flutninga um allan heim. Með þessu myndum við sterka heild sem er með skrifstofur í 24 löndum í fimm heimsálfum. Ætlunin er að verja meiri tíma í að þróa enn frekar alþjóðlegar flutningalausnir og vaxa bæði með innri vexti og gegnum uppkaup á öðrum félögum sem falla að okkar rekstri. Fyrir mig persónulega verður áhugavert að takast á við ný verkefni á sviði flutningaþjónustu í þeim hagkerfum heimsins sem vaxa hvað hraðast, t.d. Kína og Suður-Ameríku.“
Jens Holger forstjóri Samskipa:
„Það er trú okkar að skipulagsbreytingarnar gefi okkur tækifæri til að þróa áfram þessar tvær meginstoðir félagsins og um leið að tryggja viðskiptavinum okkar hagkvæmar heildarlausnir. Samþætting þeirra flutningakerfa sem Samskipa samstæðan hefur yfir að ráða mun opna nýja möguleika og nýtast vel í rekstri félagsins, til hagsbóta fyrir viðskiptavini, starfsfólk og hluthafa.“