Stærstu kaup Samskipa í áratug

Samskip hafa gengið frá kaupum á norska flutningafyrirtækinu Euro Container Line (ECL). Kaupin eru í takt við áform Samskipa um vöxt á þessu markaðssvæði og um leið stærstu kaup félagsins í Noregi frá upphafi.

Kaupin á ECL eru gerð með það að markmiði að styrkja stöðu Samskipa í Noregi. Aukin tíðni ferða og meiri hraði eflir þjónustu við viðskiptavini með umsvif í Noregi. Á það sérstaklega við sjávarútveg á svæðinu sem nýtur góðs af betri þjónustu á norsku ströndinni.

Heildar flutningsmagn Samskipa í Noregi vex umtalsvert eða úr 55.000 gámaeiningum (TEU) í 90.000 gámaeiningar sem eykur heildarflutningsmagn félagsins úr 850.000 gámaeiningum í 885.000 gámaeiningar á ári.

Þessi bætta þjónusta eykur frystiflutningsgetu Samskipa á milli Noregs og meginlands Evrópu um 275 til 300 frystigámaeiningar í viku hverri og tengir frystigeymslur félagsins í Álasundi og Rotterdam.

Þessi kaup Samskipa eru enn einn áfanginn á vegferð félagsins í að styrkja stöðu félagsins í Noregi.

Samskip öflug í kælistýrðum flutningum

Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa, segir að samningaviðræður milli félaganna hafi verið leiddar af Ólafi Ólafssyni aðaleiganda Samskipa og Kristian Eidesvik fyrir hönd ECL.  „Þessi kaup renna frekari stoðum undir áform Samskipa um að styrkja stöðu sína í Noregi og koma í framhaldi af kaupum félagsins á 50% hlut í Silver Green AS. Við getum nú boðið sjávarútveginum í Noregi betri þjónustu, sambærilega þeirri sem við höfum veitt um áratuga skeið á Íslandi og í Færeyjum.“

Kaupin á ECL koma í kjölfar kaupa Samskipa á helmingshlut í Silver Green í Bergen í Noregi sem rekur 14 frystiskip og er leiðandi á þeim markaði. Helstu markaðssvæði þeirrar starfsemi er Norður-Atlantshafið, Eystrasalt, Norðursjór og Svartahaf. Fimm frystiskipanna eru í eigu Samskipa.

15 ára vaxtarskeið Samskipa í Noregi – Forsaga fjárfestingarinnar

Samskip hafa markvisst styrkt stöðu sína í Noregi með uppbyggingu á fjölþættum flutningalausnum.  Má þar nefna 45 feta gámalausnir frá dyrum sendanda til móttakanda, for- og framhaldsflutninga sem og frystiflutninga um heim allan.  Fjárfestingar í frystiskipum, gámaskipum, frystigeymslum, hafnarþjónustu og flutningsmiðlun eru í samræmi við stefnu félagsins um aukið þjónustuframboð. Með kaupum á ECL bætast Hamborg og Bremerhaven við þjónustuframboð Samskipa til og frá Noregi.



Kaup Samskipa á ECL leiða til aukinnar samkeppni á þessu markaðssvæði þar sem Samskip verða mun stærri en áður og áhrifameiri keppinautur, til hagsbóta fyrir viðskiptavini og samstarfsaðila. Aðgengi að flutningsneti Samskipa og aukinn áreiðanleiki fyrir norska útflytjendur er einstök þjónusta sem erfitt er fyrir aðra flutningsaðila að mæta.

 

Ný siglingaáætlun í Noregi

Eftir kaupin munu Samskip koma við í 14 höfnum og hugsanlega fleirum þegar fram líða stundir. Nýjasta viðbótin er Holla, Ikornes, Maloj og Haugasund í Noregi sem bætast við víðtækt net Samskipa og verða þrjár til fjórar brottfarir í viku frá Rotterdam og Hamborg eftir árstíðabundnu álagi.

  • Samskip eru með starfssemi á 55 stöðum í 24 löndum með um 1.400 starfsmenn og velta tæplega 90 milljörðum á ári
  • Velta Samskipa eykst um u.þ.b 10 milljarða króna við kaupin á ECL.                   
  • Stjórnendateymi Samskipa samanstendur af Ásbirni Gíslasyni, Kristni Albertssyni, Jens Holger Nielsen og Pálmari Óla Magnússyni.                  
  • Kaupin eru fjármögnuð af félaginu og með seljendaláni að hluta. Kaupverð er trúnaðarmál.