Stærstu skemmtiferðaskipin tólf sinnum stærri en flutningaskipin
Stórflutningadeild Samskipa sinnir margvíslegum verkefnum sem ekki láta alltaf mikið yfir sér. Starfsmennirnir sjá um að útvega skip í sérverkefni, t.d. frystiskip fyrir fiskflutninga eða heilfarmaskip í tengslum við stærri framkvæmdir.
Við röltum við hjá þeim til að forvitnast um hvað væri á döfinni hjá þeim og hittum fyrir Guðmund Óskarsson forstöðumann deildarinnar.
Við byrjuðum á að spyrja hann um verkefni sumarsins. „Helstu verkefnin hjá okkur á sumrin eru umboðsþjónusta fyrir erlend skip sem hingað koma. Til dæmis lestun og losun á frystiflutningaskipum sem koma hingað til að flytja t.d. makríl frá landinu. Svo koma skemmtiferðaskip til landsins á sumrin og þau þurfa margs konar þjónustu.“
Guðmundur segir flest skipin koma til Reykjavíkur en einnig til annarra hafna um landið, t.d. til Ísafjarðar og Akureyrar.
Aðspurður að því hvað skipin séu stór og hvaðan þau koma segir Guðmundur að skipin séu af öllum stærðum og gerðum. „Stærstu skipin sem hingað koma eru um 113 þúsund brúttó tonn en í samanburði eru Arnarfell og Helgafell sem sinna vikulegum siglingum frá Reykjavík til Evrópu 8.830 brúttó tonn.“ Guðmundi leiddist ekki að ræða um skipin og eiginleika þeirra enda mikill skipaáhugamaður og ljóst að maður kemur ekki að tómum kofanum hjá honum. „Skemmtiferðaskip eru öðruvísi byggð en flutningaskip, þau eru hlutfallslega breiðari miðað við lengd og rista ekki eins djúpt miðað við stærð. Þau koma flest hingað frá Evrópu, en stærstu skipin koma hingað á leið frá Evrópu yfir til Ameríku.“
Hvaða þjónustu veitum við til skemmtiferðaskipa og farþega? „Það sem við gerum er að tryggja skipunum bryggjupláss og sjá um samskipti við yfirvöld, t.d. tollinn, Útlendingastofnun, Landhelgisgæslu, lögreglu og þess háttar aðila til að tryggja að viðkoman gangi smurt fyrir sig. Svo þarf að útvega vatn, sorphirðu, varahluti, aðstoða við vistir og fleira svo skipið geti haldið áfram för sinni. Stundum eru vistir sendar í gámum í veg fyrir skipin og þá þarf að sjá um það og koma vistunum um borð.“
„Við höfum nú lent í ýmsum verkefnum í gegnum tíðina. Þetta eru stór skip með marga farþega og þá getur ýmislegt komið upp á. Farþegar hafa misst af skipinu og þannig orðið eftir á Íslandi, þá þurfum við að aðstoða við það. Slys og óhöpp geta orðið og þá þarf að útvega læknisþjónustu og nokkrum sinnum höfum við þurft að aðstoða vegna andláts farþega. Það má því segja að verkefnin séu af ýmsum toga“ segir Guðmundur.
Koma annars konar skip en skemmtiferðaskip? „Já, já við þjónustum alls konar skip. Hingað koma til dæmis rannsóknaskip og svo herskip, en þá gilda yfirleitt strangari reglur um öryggi og eftirlit, undirbúningur er því yfirleitt meiri og felst oftast í samskiptum við viðkomandi sendiráð.“
Það er því í nægu að snúast hjá stórflutningadeildinni. Við óskum þeim góðs gengis með verkefni sumarsins og þökkum Guðmundi kærlega fyrir spjallið.