Stöðugar framfarir í síkviku umhverfi

Nýverið kom út tölublað Frjálsrar verslunar tileinkað 100 áhrifamestu konunum í viðskiptalífinu 2017. Í blaðinu er fjölbreytt efni og þar á meðal viðtal við Birnu Ragnarsdóttur, forstöðumann þjónustudeildar Samskipa á Íslandi, en hún hefur verið fyrirtækinu samferða á umbrotatímum í rúma þrjá áratugi. 

Fram kemur í viðtalinu að rétt eins og Samskip bregðist við breytingum og leiti leiða til að bæta þjónustuna hafi hún sjálf bætt við sig í menntun og vaxið í störfum sínum. Hún segist ekki óttast annað hrun þótt greina megi þenslumerki. Texti viðtalsins fer hér á eftir:

„Tími minn hjá Samskipum hefur verið skemmtilegt og lærdómsríkt ferðalag, tími vaxtar, breytinga, áskorana og tæki færa,“ segir Birna Ragnarsdóttir, forstöðumaður þjónustudeildar Samskipa á Íslandi. Hún hefur verið hjá Samskipum síðan í mars 1986. „Þá hét þetta Skipadeild Sambandsins, sem varð svo að Samskipum 1991, en þar var mér boðin vinna eftir gjaldþrot Hafskips, þar sem ég hafði þá verið í tæp níu ár. Ég hef því verið ansi lengi í flutningabransanum.“

Breytingar segir Birna að hafi verið miklar þó svo að verkefnin snúi enn að flutningum á milli landa og afgreiðslu sendinga. „Skipaferðum hefur fjölgað og tækni og rafræn þjónusta tengd flutningum hefur gjörbreyst á nánast allan hátt.“ Þegar Birna byrjaði hafði hún umsjón með farmskrám skipa og reikningagerð, en þá bárust farmskrár í pósti eftir að hafa verið slegnar inn á ritvél einhvers staðar í útlöndum.

Ánægð með umbótaverkefnin

Birna segir að verkefnin hafi verið margvísleg í gegnum tíðina. „Mér hefur verið treyst fyrir því að skilgreina og móta margar þær verk­ og vinnu lýsingar sem Samskip starfa eftir í dag. Undanfarin ár hefur það aukist að stórfyrirtæki vilji gera úttektir á ýmsum ferlum og verkþáttum fyrir tækisins og ég hef verið fengin í þá skipulags­ og greiningarvinnu,“ segir hún. Eins standi yfir endurgerð á þjónustuvef fyrirtækisins og þar sé hún verkefnastjóri fyrir hönd viðskiptahlutans. „Þá hef ég tekið og tek enn þátt í margskonar umbótavinnu, bæði sem verkefnastjóri og þátttakandi.

“Sjálf hefur Birna bætt við sig þekkingu og námi og segist líta á það sem viðleitni bæði til að vaxa og forðast stöðnun í starfi. Frá 1999 hefur hún meira og minna verið í námi með vinnu. „Þá fór ég í Endurmenntun Háskóla Íslands, þar sem ég lærði út flutnings­ og markaðsfræði, rekstrar­ og viðskiptafræði og mannauðsstjórnun. Ég lauk MBA­námi frá Háskóla Íslands 2009. Eftir MBA­námið fór ég í markþjálfun, eða Executive Coaching, í Háskólanum í Reykjavík og fékk í framhaldi alþjóðlega vottun frá International Coach Federation sem ACC­markþjálfi árið 2013. Ég er stöðugt að leita leiða til að bæta mig og auka þekkingu mína.“ 

Birna segist eins mjög ánægð með áherslu Samskipa á að standa að umbótaverkefnum og bæta verkferla. Fyrirtækið leggi áherslu á að setja viðskiptavinina og þeirra þarfir í forgrunn. „Við viljum að upplifunin sé sú að Samskip séu sveigjanlegt fyrirtæki og að tengingar okkar á milli Íslands og Evrópu séu eins og brú á milli landa.“ Samskip séu góður vinnustaður þar sem vel sé búið að starfsfólki og stefnt að jafnrétti á allan hátt, hvort sem um sé að ræða konur, karla, Íslendinga eða erlenda starfsmenn. „Árangur sem hefur hlotist af þessu sýnir sig til dæmis í því að Samskip fengu jafnlaunavottun á árinu 2016.“

Starfsandinn er góður

Birna segir Samskip taka hlutverk sitt alvarlega með því að fylgja reglum, stöðlum og sýna samfélagslega ábyrgð. Þá haldi fyrirtækið vel utan um sinn fjölbreytta starfsmannahóp, mötuneyti sé gott, auk þess sem á staðnum séu íþróttasalur, kennslustofa og barnaherbergi svo eitthvað sé nefnt. „Öll þessi aðstaða er mikið notuð af starfsmönnum.“ Þessar áherslur í starfsmannamálum eigi við hvar sem Samskip séu með starfsemi í heiminum, alls staðar sé vel hugsað um starfsmenn.

Dags daglega segir Birna að stemningin sé góð hjá fyrirtækinu. Til dæmis hafi hjólahópur æft stíft fyrir Wow Cyclothon­keppnina í júní, gönguhópur fari í að minnsta kosti eina góða fjallgöngu á ári og íþróttahópur og jógahópur æfi tvisvar til þrisvar í viku með aðstoð þjálfara. „Við viljum að það sé gaman í vinnunni, að starfsfólki líði vel og viðskiptavinurinn upplifi að það sé gott að eiga við okkur viðskipti, að það sé gott og skemmtilegt að vera með okkur og koma til okkar.“ 

Hvað varðar stemninguna í samfélaginu segist Birna í starfi sínu finna fyrir ákveðnum breytingum. Daglegt álag hafi aukist og sumar vikur minni nú nokkuð á árin fyrir hrun. „Það er mikið flutt inn af bílum og ákveðin spenna í loftinu.“ Eins finni þau fyrir fjölgun ferðamanna, en töluvert sé um að Samskip flytji ökutæki þeirra á milli landa. „Þeim liggur mikið á, stoppa oftast í stuttan tíma og því er mikilvægt að búið sé að sækja um tímabundna akstursheimild hjá Tollinum fyrir þá. Það má því í raun segja að þjónusta við ferðamenn sé viðbótarþjónusta sem við sinnum og þá oftast yfir sumarið. Svo eru búslóðaflutningar alltaf töluverðir og við finnum fyrir því að í dag flytja fleiri heim, frekar en til útlanda eins og eftir hrun.“

Ræktar vini og fjölskyldu

Birna hlær hins vegar við þegar hún er spurð hvort hún óttist þá annað hrun og kveður svo ekki vera. „Ég er bjartsýn og hef trú á að íslenskt efnahagslíf muni blómstra á næstu misserum. En við höfum reglulega farið í gegnum sveiflur og eigum örugglega eftir að gera það aftur einhvern tímann. Ég tel þó einna mikilvægast að áhersla sé lögð á að halda stöðugleika og að almennt fari Íslendingar ekki fram úr sér í fjárfestingum og framkvæmdum.“ 

Birna er frá Akranesi en hefur búið í Reykjavík síðan 1973, gift kona með börn, tengdabörn og barnabörn, eins og hún lýsir því sjálf. Hún sé mikil fjölskyldumanneskja. Í vor hafi þau hjónin fest kaup á fokheldum sumarbústað í Borgarfirði sem í augnablikinu taki allan þeirra frítíma. Þá hafi hún yndi af alls konar útiveru og ferðalögum. „Ég og maðurinn minn erum í veiðihópi sem stundar stangveiði og við erum í fjallgönguhópi sem fer árlega í nokkurra daga gönguferðir á fjöll. Ég les mikið, hlusta á tónlist og hef áhuga á hönnun alls konar. Ég hitti vini mína og vinkonur reglulega, bæði frá barnæsku og fullorðinsárum. Ég er í klúbbum með nokkrum góðum vinkonum frá Hafskipsárunum og frá námi mínu í mannauðsstjórnun,“ segir Birna. Sjaldgæft sé að hún sitji auðum höndum.

Mynd: Svona tekur Birna Ragnarsdóttir, forstöðumaður í þjónustudeild Samskipa á Íslandi, sig út í viðtali í kvennablaði Frjálsrar verslunar sem út kom í lok júní. Hún segir hefðbundinn vinnudag hjá sér byrja á kaffibolla áður en hún snúi sér að tölvupósti og haldi svo út í verkefni dagsins.