Stórbættar tengingar við Pólland

Flutningsleiðir milli Íslands og Póllands hafa verið stórbættar með nýjum samstarfssamningum og nýrri siglingaleið í Eystrasalti. Með samningum við samstarfsaðila geta Samskip boðið nýja möguleika í Eystrasaltinu en ný siglingaleið fer til Klaipeda í Litháen, Gdynia í Póllandi og Osló í Noregi.

„Um skeið hefur verið kallað eftir bættum tengingum inn á þetta svæði og því kalli höfum við nú svarað,“ segir Birgir Gunnarsson, framkvæmdastjóri innflutningssviðs Samskipa á Íslandi.  „Sendingar taka mun skemmri tíma en áður og leitun er að hagkvæmari sendingarmáta.“

Birgir segir umtalverða aukningu hafa verið á innflutningi frá bæði Póllandi og löndum Eystrasaltsins síðustu ár, svo sem á margvíslegum varningi tengdum byggingariðnaði.

Samstarf við flutningafyrirtæki á svæðinu og siglingar á nýju leiðinni um Eystrasalt hófust í byrjun apríl og tengjast leiðakerfi Samskipa í Árósum. Lagt er upp frá Klaipeda í Litháen og siglt til Gdynia í Póllandi, áður en haldið er áfram til Ósló í Noregi og þaðan til Árósa í Danmörku þar sem er umskipað. Þaðan liggur leiðin til Reykjavíkur með viðkomu í Varberg í Svíþjóð og Kollafirði í Færeyjum.

Samskip eru með skrifstofu í Gdansk í Póllandi sem annast þjónustu við pólska sendendur á vörum til Íslands, svo sem vegna forflutninga, lestunar gáma og skjalagerðar.

Í bæklingnum má sjá nýju siglingaleiðina og hvernig hún tengist inn á núverandi siglingaleið Samskipa til Íslands auk brottfarar og komutíma á hverjum stað.