Styðja MAGMA og flytja grjót

Flutningur á varningi milli landa lendir ekki oft í fréttum og gengur enda alla jafna snurðulaust og eftir áætlun. Eyjafréttir.is í Vestmannaeyjum upplýstu hins vegar nýverið um einn skemmtilegan sem Samskip önnuðust, en hann endurspeglar líka sveigjanleika þjónustunnar hjá Samskipum og vilja fyrirtækisins og getu til að leggjast á árar með viðskiptavinum sínum til þess að bjarga málum.

Samskip eru á meðal þeirra sem styrkja sýninguna MAGMA við norrænu sendiráðin í Berlín í Þýskalandi, en hún er haldin í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands og er opin út júnímánuð. Gunnar Kvaran, framkvæmdastjóri útflutningssviðs Samskipa, segir hluta af stuðningnum hafa falist í flutningi á sýningarmun frá Vestmannaeyjum til Berlínar, en um er að ræða tveggja tonna hraunhnullung úr Vestmannaeyjagosinu.

Frá því að Eyjamaðurinn Martin Eyjólfsson, sendiherra Íslands í Þýskalandi, fékk hugmyndina að því að bæta hraunmolanum við sýninguna og forvitnaðist um vænleika þess að koma grjótinu til Berlínar, leið ekki sólarhringur þar til grjóthnullungurinn var kominn í gám og út á sjó um borð í flutningaskipi Samskipa í Eyjum.

Bryndís Gísladóttir, verkstjóri á svæðisskrifstofu Samskipa í Vestmannaeyjum, var á vaktinni á fimmtudagsmorgni, næstsíðustu viku aprílmánaðar, þegar Martin hringdi til að forvitnast um hugmynd sína um að flytja hraunhnullung á sýninguna í Berlín. „Ég sagði honum að þetta væri vel hægt,“ segir Bryndís, en þegar Martin hafði fengið úr því skorið að hægt yrði að flytja steininn út, þá fór hann að hringja víðar og virkja menn í Eyjum til þess að finna hraunmola sem hentaði og búa til flutnings. „Svo kom hérna maður fyrir hádegi til að afla frekari upplýsinga um þetta og ég sagði honum bara að grjótið þyrfti að vera komið til okkar fyrir hádegi daginn eftir, á föstudeginum og við myndum ganga frá því til flutnings.“

Hjá Samskipum höfðu þau svo njósnir af leitinni að grjótinu og upplýstu gröfumann síðdegis um hvar best væri að láta hnullunginn þegar hann fyndist. „En grjótið var komið hingað til okkar klukkan níu á föstudagsmorgni.“ Þá var búið um það á bretti og það svo sett í 20 feta gám og um borð í skipið.

Fram kemur í umfjöllun Eyjafrétta að steinninn hafi vakið talsverða athygli ytra, en hann er notaður til að kveikja áhuga á á margmiðlunarsýningunni MAGMA um ógnarkrafta náttúrunnar á Íslandi í sameiginlegu rými sendiráðanna. Martin segir þar að upplýsingar um gosið sé að finna við hlið steinsins. „Og ýmist er fólk að lesa þær, láta taka myndir af sér við steininn og sumir klifra jafnvel uppá hann,“ segir Martinn og vitnar í fleyg orð Jóns úr Vör um að hægt sé að taka manninn úr þorpinu en ekki þorpið úr manninum. „Eigum við ekki að segja að ég sé núna byrjaður að taka þorpið til mín í bókstaflegri merkingu. Þetta er sem sagt bara rétt að byrja!“

 

Martin_Eyjafrettir

Martin Eyjólfsson í forgrunni fréttar á vef Eyjafrétta, en fyrir aftan hann sést hraungrjótið á bretti.