Sverrir á Selfossi
Nýlega áttum við stutt spjall við Sverri Unnarsson rekstrarstjóra hjá Landflutningum- Samskipum á Selfossi. Sverrir er nýr í starfi á Selfossi en sannarlega ekki nýr hjá félaginu. Hann kom til starfa fyrir Samskip og Landflutninga í Vestamannaeyjum 1999 þar sem hann var fyrst útkeyrslumaður, þá afgreiðslustjóri og síðan rekstrarstjóri frá árinu 2006 allt til vormánaða 2014 að hann fluttist upp á land.
Sverrir er borinn og barnfæddur Vestmannaeyingur en bjó á meginlandinu frá 1980 fram til ársins 1999. Hann er giftur og á þrjá drengi, einn er eftir heima en tveir hafa hleypt heimdraganum.
Svæði Landflutninga – Samskipa á Selfossi nær frá Lómagnúpi að austan, að Hellisheiði að vestan og að Geysi í norður. Þetta er stórt og dreift svæði sem sinnt er bæði með eigin bílum, í samstarfi við verktaka og aðra akstursaðila.
Mikill uppgangur er á svæðinu og þá sérstaklega á Selfossi þar sem fólki hefur fjölgað, byggingarframkvæmdir hafist að nýju og bjartsýni ríkir. Svo er sífellt stækkandi sumarhúsabyggð á svæðinu sem er í notkun allt árið um kring. Allt þetta þýðir aukna flutninga og umsvif Landflutninga á Selfossi hafa sannarlega aukist. „Þessu til viðbótar höfum við tekið að okkur dreifingu fyrir stóra aðila eins og t.d. Vífilfell sem er góð búbót og gerir okkur kleift að bæta þjónustu á svæðinu með aukinni tíðni og sífellt meiri hraða. Á svæðum sem eru svo nálægt höfuðborginni sem raun ber vitni, er sífellt aukin krafa um meiri hraða. Viðskiptavinir okkar gera kröfur um að sendingar berist þeim fljótt og örugglega. Við reynum að bregðast við þessum kröfum eins og kostur er, sem dæmi þá er fyrsta ferð úr Reykjavík til Selfoss kl. 06.30 að morgni. Svo má ekki gleyma dreifbýlinu en ekki búa allir í þéttbýli eða við þjóðveg eitt og þarf að sinna þeim svæðum líka og reynum við að gera það eftir því sem flutningsmagn og geta leyfir“ segir Sverrir.
Landflutningar – Samskip fluttu nýlega í nýtt húsnæði á Selfossi. „Það breytti miklu bæði fyrir viðskiptavini og starfsfólk. Lestun og losun er nú aðskilin frá aðgengi viðskiptavina, öll aðstaða fyrir starfsmenn til fyrirmyndar, vöruhús nýtist mun betur og tækin góð, bæði lyftarar og bílar. Við erum líka með afgreiðslu fyrir Endurvinnsluna og er því talsvert af fólki sem á leið til okkar reglulega. Við erum mjög ánægð að vera komin í þetta nýja húsnæði og vitum að viðskiptavinir okkar kunna að meta það líka“.
Hvað gerir svo Sverrir annað en að stússast í kringum flutningabíla? „Ég er mikill skákáhugamaður og tefli mikið. Ég fór því strax í taflfélagið hér á Selfossi en þar þekki ég ótrúlega marga“.
Og hvernig er svo fyrir innfæddan Eyjamann að flytja upp á fastalandið? „Tímasetningin á þessum flutningum var góð fyrir fjölskylduna. Við höfum komið okkur vel fyrir og aðlagast vel, en Selfoss hefur að mörgu leyti komið okkur á óvart, er stór bær með allt sem slíkur bær þarf að hafa upp á að bjóða, en er samt rólegur bær– dálítið dreifbýli – þrátt fyrir alla umferð sem fer hér í gegn og það kann ég vel að meta. Svo eru samgöngur við Selfoss mun betri en við Vestmannaeyjar“ segir Sverrir og hlær!!