Titill Þrettán flutningatæknar útskrifast úr Flutningaskóla Samskipa

Þrettán nemendur útskrifuðust sem flutningatæknar úr Flutningaskóla Samskipa síðasta þriðjudag og var nemendahópurinn fjölþjóðlegri en nokkru sinni fyrr því auk Íslendinga stunduðu nú nám við skólann þrír Pólverjar, Marokkóbúi og Filippseyingur.

Alls hafa 50 nemendur útskrifast frá skólanum frá því hann var settur á laggirnar haustið 2008. Boðið er upp á tvíþætt fagnám og starfsnám í flutningum í skólanum sem starfræktur er í samstarfi við Mími símenntun.

„Stefna Samskipa er að stuðla stöðugt að auknum lærdómi starfsfólks. Fræðsla skal vera hluti af framtíðaráætlun hvers starfsmanns á þann hátt að viðkomandi hafi möguleika á að auka við þekkingu sína og færni í núverandi starfi, auk þess að afla sér þekkingar á nýjum sviðum. Starfsfólkið þarf að vera vel að sér og skilja hvernig best er að framkvæma hlutina og taka ákvarðanir sem byggðar eru á faglegum skilningi á viðskiptavinum okkar og þeirra þörfum,“ sagði Auður Þórhallsdóttir, mannauðsráðgjafi Samskipa, m.a. í ávarpi sínu við skólaslitin í gær, að viðstöddum framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, forstjóra Samskipa, nemendum og gestum.

Flutningaskóli Samskipa er fyrir starfsmenn sem eiga stutta formlega skólagöngu að baki og starfa í vöruhúsum, á gámavelli eða sem bílstjórar. Nokkur starfsþróun hefur átt sér stað hjá því starfsfólki Samskipa sem þegar hefur útskrifast úr skólanum og sagði Auður að um helmingur þeirra tækist nú á við ný og ábyrgðarmeiri störf.

„Einnig hafa átta úr þessum hópi farið í diplómanám í flutninga- og vörustjórnun í Háskólanum í Reykjavík og staðið sig með sóma og eru Samskip afar stolt af árangri þeirra.“

Kennslan í Flutningaskólanum byggist á viðurkenndri námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og er námið viðurkennt af menntamálaráðuneytinu til allt að 23 eininga í framhaldsskóla. Námið tekur tvær annir og er tæplega 400 kennslustundir. Kennt er í vinnutíma starfsmanna tvisvar til þrisvar í viku og fer kennslan fram á athafnasvæði Samskipa við Kjalarvog. Kennarar frá Mími sjá um almenna kennslu en sértæk fög er snúa að flutningafræði, öryggismálum, tölvum og upplýsingatækni ásamt vinnustaðanámi eru í umsjón sérfræðinga Samskipa. Starfsfólk Samskipa hefur einnig samið og gefið út fyrstu kennslubókina í flutningafræðum sem gerð hefur verið á Íslandi.