Tryggjum góða og persónulega þjónustu til viðskiptavina
Þjónustudeild Samskipa blasir við þegar gengið er inn í aðalskrifstofur Samskipa í Kjalarvoginum. Þar sitja starfsmenn deildarinnar, flestir önnum kafnir við að aðstoða viðskiptavini.
Okkur lék forvitni á að vita hver verkefni deildarinnar eru og hittum fyrir Birnu Ragnarsdóttur.
Flutningaferlið gangi smurt fyrir sig
Að sögn Birnu sinnir þjónustudeildin margvíslegum verkefnum, m.a. tekjuskráningu og reikningagerð fyrir innflutning ásamt afgreiðslu á þjónustubeiðnum fyrir viðskiptavini. „Stórir viðskiptavinir hafa sinn þjónusturáðgjafa sem ber ábyrgð á að uppfylla þá þjónustuþætti sem samningurinn þeirra kveður á um. Svo þurfum við að hafa samskipti við tollayfirvöld varðandi tollafgreiðslu og fylgja eftir heimakstri á sendingunum.“ Allt þarf þetta svo að gerast í réttri röð svo ferlið gangi sem best fyrir sig og viðskiptavinir fái sendingar sínar afhentar eins og til er ætlast.
Með aleigu fólks í höndunum
„Við önnumst líka búslóðaflutninga bæði til og frá landinu. Það er vandmeðfarið ferli, þar sem við erum oft og tíðum með aleigu fólks í höndunum.“ Það er því að mörgu að hyggja, því það er eins með búslóðirnar og hefðbundnar vörusendingar, allt þarf að gerast á réttum tíma til að tryggja að ferlið gangi vel fyrir sig. „En við erum með reynslumikið fólk hjá okkur sem hefur mikla þekkingu á þessu ferli og getur leiðbeint viðskiptavinum um hvernig best er að leysa málið.“
Þjónustuvefurinn mikilvægt tæki
Þjónustudeildin ber einnig ábyrgð á þjónustuvefnum og kennslu á hann, en hann er mikilvægt tæki fyrir okkur, bæði viðskiptavini og starfsfólk. Þar er hægt að fylgjast með sendingum og stöðu þeirra, gámum, reikningum o.fl. Þar geta viðskiptavinir afgreitt sig sjálfir þegar þeim hentar, sent inn þjónustubeiðnir, skoðað yfirlit og reikninga og leitað að upplýsingum.
„Við erum nýbúin að opna nýjan vef sem er mun sneggri og aðgengilegri en sá eldri. Nú er leitin einnig orðin miklu sveigjanlegri sem auðveldar notendum að nálgast upplýsingarnar.
Sumarið er tíminn
Á sumrin er alltaf mikið að gera hjá þjónustudeildinni því þá er yfirleitt mikið að gera í sjóflutningi. Svo er töluvert um að ferðamenn flytji bílana sína til landsins með Samskipum, noti þá á ferðalögum innanlands og sendi þá aftur með skipi út að ferðalagi loknu.
„Við munum einnig fylgja nýja þjónustuvefnum eftir, halda þróuninni á honum áfram. Nokkur verkefni eru enn í pípunum og þau þarf að klára, enda alltaf spennandi að taka þátt í þróunarverkefnum og bæta þjónustu við viðskiptavini enn frekar“ segir Birna að lokum.