Vegirnir þurfa að uppfylla kröfur nútímans
Strandflutningar sem Samskip hafa nú boðið upp á um árabil létta álagi af vegakerfinu, en vegna krafna um þjónustustig og hraða afhendingu, verður ávallt þörf fyrir þjónustu vöruflutningabíla líka.
Þetta er meðal þess sem fram kom í máli Inga Þórs Hermannssonar, forstöðumanns Samskipa innanlands, á opnum fundi Vegagerðarinnar um vegblæðingar 16. þessa mánaðar.
Ingi Þór benti á að þungum bílum væri stundum kennt um ástand vegakerfisins, en varpaði um leið fram spurningunni um hvort vegir landsins væru byggðir til að mæta því álagi sem þyrfti vegna þeirrar staðreyndar að vörur þyrfti að flytja á milli landshluta.
Samskip sinna landsbyggðinni vel
„Ef við horfum á hlutverk okkar þá lítum við svo á að við séum í lykilhlutverki í þjónustu við bæði fyrirtæki og einstaklinga sem búa og starfa á landsbyggðinni og hafa atvinnustarfsemi sína þar,“ sagði Ingi Þór í erindi sínu og bætti við að krafan á hendur Samskipum væru um áreiðanlega daglega þjónustu.
„Á þetta reiða sig fyrirtækin á landsbyggðinni, framleiðsluvörur þurfa að komast á höfuðborgarsvæðið eða í flug eða annað þess háttar. Þannig að þó að við bjóðum upp á siglingar þá eru kröfurnar þeirra sem búa og starfa á landsbyggðinni miklu víðtækari en svo að sjóflutningskerfi geti annað þeim. Þess vegna er svo mikilvægt að vegakerfið okkar styðji við kröfur þeirra sem búa þar og starfa.“
Samskip leggja líka mikla áherslu á að draga úr kolefnisfótspori starfseminnar og mæta með því stöðugt vaxandi kröfu um umhverfisvernd frá viðskiptavinum fyrirtækisins. Ingi Þór benti á að þungatakmarkanir á vegum torvelduðu hins vegar notkun þeirra flutningstækja sem hagkvæmust væru frá umhverfissjónarmiði. Ástand vega og tíðar þungatakmarkanir gerðu að verkum að notast þyrfti við dýrari og eyðslufrekari bíla við flutninginn.
Vegbætur styðja umhverfisvernd
Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs Samskipa, segir Samskip fagna þeim vilja sem komið hafi fram í máli Bergþóru Þorkelsdóttur, forstjóra Vegagerðarinnar, í kjölfar ráðstefnunnar til að styrkja vegakerfið þannig að draga megi úr þungatakmörkunum. Í viðtali í morgunútvarpi Rásar tvö daginn eftir ráðstefnuna sagði Bergþóra Vegagerðina stefna á að setja kraft í malbikun á þeim vegum þar sem mest er umferð og flutningar eru mestir, en malbik blæðir ekki og þolir bæði mikla umferð og þyngd flutningabíla betur en bundið slitlag sem víða er notað.
„Öll röskun á vegasamgöngum kemur náttúrlega illa við flutningafyrirtæki, sem breyta þurfa áætlunum og tafir koma niður á þjónustustiginu. En erum með sveigjanlegt kerfi og bregðumst við eftir þörfum og í afar góðu samstarfi við viðskiptavini til þess að tryggja að sem hæst þjónustustig hverju sinni,“ segir Þórunn Inga. „Margþættur ávinningur fæst hins vegar með vegbótum, þar á meðal umhverfisávinningur, því draga mætti úr eldsneytisbruna um fimmtung með notkun átta hjóla bíla, í stað tíu hjóla bíla með tvöföldum dekkjagangi sem öxulþungatakmarkanir kalla á.“
Fróðlegt erindi Inga Þórs Hermannsonar og annarra sem þátt tóku í fundi vegagerðarinnar má finna HÉR og hægt er að hlusta á viðtal morgunútvarps Rásar 2 við forstjóra Vegagerðarinnar HÉR.