Við erum Samskip — (Guðríður) Birna Ragnarsdóttir

Hér hjá okkur í Samskipum er reglulega litið inn hjá starfsfólki undir liðnum „Við erum Samskip“. Að þessu sinni fá samstarfsmenn og aðrir gestir dálitla innsýn í líf Birnu Ragnarsdóttur, sem er forstöðumaður þjónustudeildar Samskipa. Saga hennar hjá Samskipum teygir sig 35 ár aftur í tímann. 

Hefur séð miklar breytingar síðan 1986

„Fjölskylda mín er orðin nokkuð stór og það er ekkert annað en yndislegt,“ segir Birna. Hún er gift Kristni Eiríkssyni og eiga þautvö börn, Aðalheiði og Hauk. „Aðalheiður er gift Starkaði og þau eiga Val Kristin, Árnýju Svanhildi og Styrmi Örn. Sambýliskona Hauks er Anna Marín og þau eiga Emil Hrafn og Maren Birnu,“ bætir hún við.

Stór fjölskylda leikur að sjálfsögðu stór hlutverk í tilverunni utan vinnustaðarins, en Birna segist líka njóta alls konar útiveru. „Mér finnst gott og gaman að ganga, bæði í byggð og til fjalla og fer á hverju ári í nokkurra daga fjallgöngu með gönguhópnum mínum.“ Þá fara þau hjónin árlega í stangveiði með vinafólki. „Ég les mikið, hlusta á tónlist og hef áhuga á alls konar hönnun. Þessa dagana, er þó helsta áhugamálið að ganga frá bústað sem við hjónin keyptum fokheldan fyrir nokkrum árum. Sú vinna tekur heilmikinn tíma, er krefjandi en líka mjög skemmtileg.“

Saga Birnu hjá Samskipum teygir sig ein 35 ár aftur í tímann, en í mars 1986 bauðst henni vinna hjá Skipadeild Sambandsins, forvera Samskip. „Eftir gjaldþrot Hafskips, þar sem ég hafði verið í tæp níu ár, bauðst mér starf hjá Skipadeildinni og öðru fyrirtæki líka,“ segir hún og kveðst ekki sjá eftir því að hafa valið Skipadeildina. „Ég ætlaði reyndar að stoppa stutt við, en svona fór það. Hér er ég enn.“

Skemmtilegur tími

Birna segir tímann hjá Samskipum hafa verið „skemmtilegt, lærdómsríkt og fjölbreytt ferðalag, sem hefur svo sannarlega kennt mér að allt er breytingum háð og hvað það er mikilvægt að vera tilbúin til að taka þátt í alls konar verkefnum og hafa að hafa vilja og áhuga til að þróast með fyrirtækinu í átt að nýjum lausnum og nýjum tímum“. Breytingarnar hjá fyrirtækinu í gegn um tíðina hafi verið miklar. 

„Samskip eru allt annað fyrirtæki í dag en þegar ég hóf störf 1986. Hraðinn er meiri, skipaferðir tíðari og þörfin fyrir upplýsingaflæði eykst stöðugt. Stafræn þróun er á fleygiferð í Samskipum og verður áfram um ókomin ár. Það sem áður var handgert er nú gert í tölvum.“ Birna nefnir sem dæmi að áður hafi viðskiptavinir fengið tilkynningu um sendingar sínar 4-7 dögum eftir komu skips og gátu þá sent beiðni um tollafgreiðslu til tollsins. Í dag geti viðskiptavinir hins vegar fylgst með sendingum sínum á þjónustuvef um leið og sending er skráð og móttekin í erlendri höfn og fái tilkynningu um sendingu frá tveimur dögum eftir brottför. „Tollurinn fær upplýsingar fyrr og tollafgreiðslan tekur skemmri tíma en áðurog jafnvel sama dag og skip kemur. Viðskiptavinurinn getur því móttekið sendingu sína stuttu eftir að skip kemur til landsins og verið búinn að óska eftir afgreiðslu, til sín, rafrænt á þjónustuvefnum okkar, en hann er opinn allan sólarhringinn.“

Mesta ánægju í vinnunni segist Birna fá út úr því að taka þátt í alls konar verkefnum og þróunarvinnu, með hugmyndaríku og fjölhæfu samstarfsfólki víðs vegar úr fyrirtækinu. „Það er ánægjulegt þegar allir eru tilbúnir að leggja sitt af mörkum og liðsheildin og árangur Samskipa eru höfð að leiðarljósi. Svo finnst mér líka skemmtilegt hversu fjölbreytt verkefnin eru hjá mér og mínu fólki. Það er alltaf eitthvað nýtt sem bætist við.“

Helstu áskoranirnar sem Birna á við að eiga í vinnunni segir hún vera að verkefnin sem eru á hennar ábyrgð séu vel unnin og innan settra tímamarka. „Og svo að staðsetja starfsmenn í þeim störfum og verkefnum sem henta þeim best, að gaman séí vinnunni, að starfsfólki líði vel og viðskiptavinurinn sé ánægður og upplifi að það sé hlustað á hann og hans óskum og þörfum mætt.“ Þá þurfi hún að ganga úr skugga um að þau verkefni sem hún taki þátt í gangi vel og stuðli að þróun og bættum vinnubrögðum fyrir starfsmenn, fyrirtækið og viðskiptavini þess.  

Heldur þekkingunni við

Birna segist alltaf hafa haft mjög gaman að því að læra og hafi þörf fyrir að bæta reglulega við sig þekkingu á ýmsum viðfangsefnum. „Það er svona mín leið til að vaxa og forðast stöðnun.“

Að loknu námi í Versló fór hún að vinna en langaði stöðugt í eitthvað nám. „Frá 1999 til 2013 var ég í námi með vinnu. Ég fór í diplómanám í Endurmenntun HÍ þar sem ég lærði útflutningsfræði, rekstrar- og viðskiptafræði og mannauðsstjórnun. Eftir það fór ég í MBA nám hjá HÍ, sem var ótrúlega skemmtilegt og gefandi, með frábærum kennurum og nemendum. Að því loknu fór ég í Markþjálfunarnám hjá HR og Coach University og tók ACC vottun þaðan 2013.“ Eins sækir Birna ýmsa fyrirlestra sem henni finnast áhugaverðir, oft fyrirlestra sem tengjast stjórnun og hvernig megi virkja mannauðinn. Nú síðast sótti hún í byrjun Apríl opinn Zoom hádegisfyrirlestur „Hver vill ráða einhvern á mínum aldri“ á vegum Viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands. Það hafi verið áhugaverð og verðug umræða þar sem Árelía Eydís Guðmundsdóttir, dósent hjá HÍ og Tinni Kári Jóhannesson ráðningarstjóri hjá Góðum samskiptum ræddu stöðu fólks yfir 50 ára á vinnumarkaði og hvaða skref reynslumesta fólkið í atvinnulífinu getir tekið. 

„Þá les ég ýmsar greinar, bæði á blaði og netinu. Ég kíki líka oft í skólabækurnar til að rifja upp og koma mér af stað þegar einhverjar breytingar eru á döfinni hjá mér.“ Birna segist annars eiginlega vera alæta á bækur og hún lesi mikið af alls konar. „Þegar ég leita eftir afþreyingu þá sæki ég í sakamálasögur og sögur af fólki og aðstæðum, en ekki þó endilega sjálfsævisögur. Uppáhalds íslenski höfundurinn minn er Ólafur Jóhann Ólafsson. Mér finnst hann skrifa einstaklega fallegan og lipran texta.“

Svo þegar hún sækir sér fróðleik tengdan vinnunni, eða er að fara í vinnutengdar breytingar, flettir Birna gjarnan upp í Bricks to Bridges eftir Robin Speculand og Leading Change eftir John P. Kotter. „Þá vil ég alls ekki sleppa því að nefna The 7 Habits of Highly Effective People, en það námskeið og þau fræði höfðu mikil áhrif á mig og ég gríp oft til þeirra.“

Viðmælendur í „Við erum Samskip“ eru gjarnan spurðir að því hver þeir teldu að yrði fenginn til að leika þá í kvikmynd og Birna er þar engin undantekning. „Ég hef svo sem aldrei í spáð í það, en til að velja einhvern þá spurði ég manninn minn og hann var mjög snöggur að svara því að Julianne Moore gæti pottþétt leikið mig, hún gæti farið í mörg hlutverk og pottþétt tekið ýmsa takta frá mér.“

Bíður með utanlandsferðir 

Ef Birna fengi val um starf til að sinna í eina viku þá er hún snögg til að svara því að það yrði starf þar sem hún yrði fengin til að stjórna, skipuleggja og koma í farveg fyrirmyndarfyrirtæki, þar sem valinn maður væri í hverju starfi og allir tilbúnir til að taka þátt í að ná árangri. „Neikvæðni væri bönnuð,“ áréttar hún. 

En ef hún ætlaði að bæta við sig í námi þá myndi hún horfa til náms í markþjálfun. „Og svo langar mig að fara á námskeið í skapandi skrifum og öðlast meiri færni í að skrifa lipran texta. En við sjáum til með það.“

Auk þess að næra andann vill Birna líka hugsa vel um heilsuna en bætir um leið að á því sviði finnist henni hún geta bætt sig. „Ég reyni að borða hollt og tekst það oftast, en þó ekki alltaf.“ Svo fer hún í göngutúra og finnst gott að synda, þó að ríkjandi Covid ástand hafi takmarkað þá iðju. „En ég reyni almennt að fara vel með mig, hlusta eftir líðan minni og að huga vel að bæði andlegri og líkamlegri heilsu.“

Núna er sumarfríið fram undan og eitt og annað við að vera. „Ég ætla að veiða, fara í fjallgöngu, vera í bústaðnum, vera með fjölskyldunni minni og ekki síst þessum frábæru barnabörnum sem ég á,“ segir Birna glaðbeitt. Svo segist hún líka ætla að laga aðeins til í garðinum heima og bara almennt njóta lífsins. „Ég bíð með allar utanlandsferðir í bili, en við sjáum til í haust, eða fyrir jólin.“