Við erum Samskip – litið við hjá Halldóri Kristjáni

Að þessu sinni fáum við að kynnast örlítið betur starfsmanni okkar og félaga, Halldóri Kristjáni Baldurssyni og lífinu í Samskipum.
Halldór Kristján Baldursson er 26 ára Kópavogsbúi frá Akureyri.

Að þessu sinni fáum við að kynnast örlítið betur starfsmanni okkar og félaga, Halldóri Kristjáni Baldurssyni og lífinu í Samskipum.

Að þessu sinni fáum við að kynnast örlítið betur starfsmanni okkar og félaga, Halldóri Kristjáni Baldurssyni og lífinu í Samskipum.
Halldór Kristján Baldursson er 26 ára Kópavogsbúi frá Akureyri. Hann er knattspyrnukempa sem spilar með Gróttu og hann er líka innheimtufulltrúi í innheimtudeild Samskipa.Líklega telst Halldór Kristján koma úr meðalstórri fjölskyldu, eða eins og hann lýsir því sjálfur: „Ég kem úr fimm manna fjölskyldu, foreldrar, tvö systkin og einn hundur.“ Hann á svo líka kærustu til lengri tíma, en þau hafa verið saman í átta ár og þar af búið saman í þrjú. „Mamma og pabbi er búin að skipta mér út þar sem að þau eru með skiptinema á menntaskólaaldri sem býr hjá þeim í eitt ár,“ segir hann líka um aðdraganda þess að hann hleypti heimdraganum.

Hvað áhugamál varðar þá segir Halldór Kristján að hann eyði nánast öllum sínum frítíma í að spila fótbolta og vísar til þess að hann spili með Gróttu í efstu deild. „Ásamt því er ég einnig að þjálfa varalið Gróttu sem spilar í fjórðu deild.“ Hann er þó ekki alveg einhamur í áhugamálum, því hann viðurkennir að hafa líka byrjað að spila golf í sumar. „Og ég held ég sé kominn með golfveiruna, þar sem ég nýti allan lausan tíma sem ég hef úti á golfvelli.“

Halldór Kristján hefur verið hjá Samskipum í á þriðja ár, en hann hóf störf hjá félaginu sem sumarstarfsmaður vorið 2018. Íbygginn á svip svarar hann því hvað séu skemmtilegustu stundirnar í vinnunni. „Það er þegar þær „ungu“ skreppa í kaffipásur. Þá er ró og friður hjá okkur Daníel.“ Helstu áskoranir í starfi sem við er að eiga segir hann líka að séu að reyna að svara öllum þessum tölvupósti sem berst. „Hólfið á það til að fyllast ansi hratt, eins og kannski margir kannast við.“

Þegar Halldór Kristján er spurður að því hver sé hans helsta fyrirmynd í lífinu og af hverju stendur ekki á svari. „Það er pabbi. Hann hljóp hundrað kílómetra utanvegahlaup í sumar og kom heim eins og hann hefði skroppið út að skokka, ótrúlegur gæi. En síðan má líka nefnda fyrrum þjálfara minn, Óskar Hrafn Þorvaldsson. Eins ruglaður og sá maður getur verið þá virðist hann alltaf finna réttu svörin.“

Ein þeirra spurninga sem stundum er komið að í þessum dálki er hvernig fólk viðheldur þekkingu sinni. Halldór Kristján segir hana tæpast eiga við í sínu tilviki. „Ég tel mig nú ennþá vera það ungan að ég sé enn að safna þekkingu,“ segir hann.Eins og gefur að skilja þá kallar knattspyrnuiðkunin á að líkamlegt atgervi sé gott. En hugsar Halldór Kristján vel um heilsuna? „Já, ég allavega hreyfi mig ansi mikið á hverjum degi. Það er þó alltaf eitthvað sem mætti betur fara og ég hef heyrt að það sé gott að sofa allavega átta klukkutíma á hverri nóttu. Sem ég geri ekki.“

Draumastarfið, ef það stæði til boða í vikutíma eða svo, stendur Halldóri Kristjáni nærri. „Það var að sjálfsögðu alltaf draumurinn að upplifa atvinnumannalífið í fótboltanum,“ svarar hann að bragði.
En hvað myndi hann leggja fyrir sig ef hann fengi að bæta við sig nýrri gráðu? „Ég færi í klipparann. Maður er alveg kominn með nóg af því að fara í klippingu. Og þá væri fínt að geta reddað þessu bara sjálfur.“

Í sumar var Halldór Kristján í vinnunni og fór ekki í sumarfrí fyrr en núna um nýliðin mánaðamót. Í fríinu stefndi hann á að iðka nýjasta áhugamálið. „Ég vona innilega að veðurguðirnir leyfi mér að ná síðustu sólardögunum á golfvellinum.“ Vætutíð undanfarið kann að hafa sett strik í þennan reikning, en þá er bót í máli að hann ætlaði líka að skella sér norður á Akureyri að heilsa upp á ættingja og vini.