Við erum Samskip – viðtal við Freyju okkar

Í tilefni af vinnu við stefnu og markmið Samskipa á sviði umhverfismála og samfélagsábyrgðar óskaði fyrirtækið eftir hugmyndum frá starfsfólki um aðgerðir til gagns umhverfinu. Ein þeirra var uppástunga um að starfsfólk fyrirtækisins kæmi saman til að plokka.

Við erum Samskip - viðtal við Freyju okkar

Við tókum viðtal við Freyju samstarfsfélaga okkar á dögunum - kynnumst þessari kjarnakonu betur hér: 

c

Freyja hóf störf hjá Samskipum árið 2014 og hefur því verið hjá okkur í sex ár.

Fjölskylda:

Dæmigerð íslensk fjölskylda, tvö börn og hundur! 

Áhugamál:

Ég er að mörgu leyti alæta á áhugamál, hef mjög vítt áhugasvið og oftast er það skortur á tíma sem kemur í veg fyrir að geta stundað þau öll. Ég nýti frítímann gjarnan í hjólabrölt, hvort sem það eru fjallahjól eða götuhjólreiðar. Á veturna erum við dugleg að fara á skíði og núna í vetur prófaði ég gönguskíði sem var skemmtileg viðbót. Ég spila líka blak með galvöskum öldungum hjá Fram og elska það í botn.

Áður stundaði ég mikið hestamennsku og hef ennþá mjög gaman af því þótt ég fari allt of sjaldan núorðið. Ég stunda fjallgöngur og finnst geggjuð tilfinning að toppa skemmtileg og krefjandi fjöll. Ég reyni að fara í eina lengri göngu á sumrin og í sumar er stefnan sett, með góðum hópi, á svæðið í kringum Tindfjöll. Þetta verður fimm daga ferð þar sem verður gist í skálum og notið út í ystu æsar.

Ég hef þrisvar sinnum tekið þátt Wow Cyclothon með samstarfsfólki hjá Samskipum. Þessar ferðir hafa verið mjög ólíkar, en endalaust skemmtilegar hver fyrir sig. Ég myndi ráðleggja öllum að taka þátt a.m.k. einu sinni – því þetta er engu líkt. Að hjóla hringinn í kringum landið í alls konar veðri með geggjuðu fólki er magnað. Ég held að ein sterkasta upplifunin af magnaðri náttúru hafi verið að hjóla inn í nótt númer tvö á Suðurlandi þar sem jöklarnir, sandarnir og umhverfið hreinlega greip þig og gaf endalausan kraft. Það var líka hresst þegar við gleymdum að taka bensín og urðum bensínlaus upp á heiði, þegar einn úr hópnum týndist, þegar vinnubíllinn stoppaði af því lyklarnir að honum lentu óvart í hvíldarbílnum, við gleymdum að beygja upp afleggjarann að Öxi, og svona mætti endalaust telja.

Í svona ferðum sést vel hvað liðsheildin skiptir gríðarlegu máli og kom það t.d. bersýnilega í ljós þegar við, ásamt þremur liðum sem við vorum að vinna með, lentum í frekar harkalegum árekstri. Í árekstrinum lentu fjórir hjólreiðamenn saman, flugu af hjólunum og í götuna. Tveir meiddust alvarlega sem varð til þess að tvö liðanna þurftu að draga sig úr keppni. Okkar lið var heppið að sleppa með skrekkinn, en það sem var svo magnað við þetta atvik, var að upplifa samstöðuna, liðsheildina og umhyggjuna í hópnum. Í þessum ferðum hefur myndast einhver massíf samþjöppun og einstakur vinskapur.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú gerir í vinnunni?

Það er kannski ekkert eitt sem gerir starfið mitt skemmtilegt. Ég held að spili sterkt inn í hversu fjölbreytt starfið er og ólík verkefnin sem ég er að kljást við. Dagarnir einkennast af miklum samskiptum. Ég kann vel við að hafa nóg fyrir stafni og þrífst á samveru við annað fólk. Ég elska samt verkefni sem hafa upphaf og endi, sem þarf að sökkva sér ofan í og leysa. Ég þrífst vel í skapandi umhverfi og vill gjarnan reyna að finna leiðir til þess að bæta verklag og reyni að hafa augun opin fyrir umbótatækifærum. Ég er ótrúlega ánægð með menninguna innanhúss hjá okkur, þar sem nýjum hugmyndum er tekið fagnandi og rými er gefið til að prófa þær og þróa áfram.

Hvaða áskoranirnar mæta þér helst í starfi? 

Auðvitað koma allskyns áskoranir upp í mínu starfi eins og í flestum öðrum. Tíminn í fjarvinnu var ágætis áskorun fyrir mig. Ég kann vel við að hafa líf og fjör í kringum mig og fann það vel að eftir að hafa verið heima í 12 vikur að slík einvera, þar sem samskipti við samstarfsfélaga fóru einungis í gegnum fjarfundi, er ekki endilega minn tebolli. Ég var mjög fegin að komast aftur í Kjalarvoginn og hitta samstarfsfélagana – og þurfti að halda aftur af mér til þess að knúsa ekki fólkið sem ég mætti á ganginum á fyrsta degi!

Hver var síðasti fyrirlesturinn sem þú sóttir ?

Síðasti fyrirlestur sem ég sat var í náminu í vetur og var um „Samskipti og miðlun leiðtoga“. Þar var farið yfir mikilvægi upplýsingamiðlunar á krísutímum – virkilega áhugavert efni og mikilvægt og sérlega „relevant“ í þeim aðstæðum sem hafa verið í samfélaginu sl. vikur og mánuði. 

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig ?

Ég elska að lesa góðar bækur og er alltaf með bók á náttborðinu, eða í Kindlinum. Nýlega kláraði ég bókina „Why we sleep“ eftir Matthew Walker sem er virkilega áhugaverð. Ég er algjör A-manneskja og er oftast farinn að sofa snemma á kvöldin og hef fengið endalaus skot um það! En eftir að hafa lesið bókina, þá finnst mér eins og ég hafi fengið „vottorð frá lækni“ um að maður eigi að fara að sofa snemma og get núna látið þessi skot um svefnvenjur mínar sem vind um eyru þjóta.  

Hver myndi leika þig í kvikmynd?

Vó – ætli það sé ekki sama og lék Emil í Kattholti...hef stundum séð sjálfa mig í honum og ekki skemmir fyrir að ég hef híft systir mína upp í fánastöng eins og hann gerði.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Ég hef gaman að því að læra eitthvað nýtt og hef leitast við að fylgjast með fyrirlestrum og námskeiðum sem gætu verið gagnleg. Ég er ein af þeirra sem alltaf eru með einhver óróa í sér og þyrstir í að læra meira. Ég skráði mig því í 90 eininga viðbótarnám við Háskólann á Bifröst í Forystu og stjórnun og útskrifast með MLM gráðu þaðan núna í lok júní. 

Hugsarðu vel um heilsuna?

Vildi að ég gæti sagt eitthvað fallegt hérna....en jú eins og flestir þá reyni ég að hugsa vel um heilsuna. Ég hreyfi mig reglulega og hef mjög gaman af því. 

Ef þú mættir sinna hvaða starfi sem er í eina viku hvað væri það?

Eftir að ég hlustaði á podcast-viðtal við Höllu Tómasar og fjallaði um starf hennar sem forstjóri B Team, heillaðist ég algjörlega af þessu verkefni. B Team er vettvangur áhrifafólks, stjórnmála- og viðskiptamanna sem hafa einsett sér að leiða umbreytingu á viðskipta- og stjórnarháttum á heimsvísu, þar sem aðalfókusinn er settur á  loftslagsmál, aukna fjölbreytni í forystu, aukið gagnsæi og að búa til manneskjulegri vinnustaði og samfélag. Ég held að það væri geggjað að prófa vinna í svona umhverfi þar sem tekið er á svona ótrúlega mikilvægum verkefnum.  

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Þar sem lærdómshelgarnar og kvöldlesturinn síðasta vetur er mér enn í fersku minni, þá er ég alveg róleg í tíðinni varðandi áframhaldandi nám og er ekki með neitt á dagskrá á næstunni – en ef ég þekki mig rétt þá getur það breyst á stuttum tíma! 

Hvað ætlar þú að gera í sumarfríinu?

Sumarið eru alltaf frekar snúin hjá okkur fjölskyldunni þar sem við erum oft á tíðum dreifð um allt land stóran hluta sumarsins. Maðurinn minn er á strandveiðum norður á Ströndum og sonurinn stendur vaktina með honum þar í einhverjar vikur, á meðan dóttirin verður að vinna á Höfn í Hornafirði. En við stefnum á að nýta vel þann tíma sem við náum saman og fara inn á hálendið, ferðast um landið með tjaldvagninn og njóta blíðunnar sem verður – því þetta sumar verður geggjað – við eigum það inni!