Við hjá Samskipum erum afar stolt af því að vera einn stofnfélaga Votlendissjóðsins sem stofnaður var 2018

Annan febrúar er alþjóðlegur dagur Votlendis og viðeigandi að horfa til þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til við endurheimt votlendis. Samskip eru eitt af níu fyrirtækjum sem stóðu að stofnun Votlendissjóðsins 30. apríl 2018, en verndari hans er Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.

Votlendissjóðurinn selur fyrirtækjum og einstaklingum kolefnisjöfnun. Jöfnunin fer þannig fram að á móti þeirri CO2-losun sem á sér stað, stöðvar Votlendissjóðurinn CO2-losun á öðrum vettvangi. Sérstaða sjóðsins er að hann stöðvar losun sem á sér stað, í stað þess að binda það sem hefur þegar verið losað. Jafnframt felst sérstaða í hraða virkninnar, þ.e. að stöðvunin á sér strax stað í heild sinni. 

Framræst votlendi, m.ö.o. þurrkaðar mýrar, er sagt bera ábyrgð á um 2/3 af allri losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og þá er allt tekið saman, iðnaður, landbúnaður og samgöngur að undanskilinni alþjóðlegri flugumferð. Framræst votlendi á Íslandi er 24.000 ferkílómetrar. Einungis hluti þess lands er í notkun. Þannig má ljóst vera að sóknarfærin eru gríðarleg. 

Á vefsíðu Votlendissjóðs má finna tengla yfir á reiknivélar fyrir kolefnisspor, þ.e. um það hve mörg tonn af koldíoxíðígildum viðkomandi losar. Athugaðu að einnig er hægt að kolefnisjafna sig að hluta til. https://www.votlendi.is/kolefnisspor

Það kann að hljóma eins og það sé of gott til að vera satt að hægt sé að stöðva CO2-losun með því að fylla upp í skurði. Staðreyndin er samt sú að um er að ræða leið sem er viðurkennd af loftlagsnefnd Sameinuðu þjóðanna sem aðferð til að berjast gegn hlýnun jarðar. Þá sér Landgræðslan um að mæla og meta aðgerðir okkar og færir til landsbókhalds endurheimtar. PWC fylgist síðan með framlögum og endurheimtum tonnum á móti framlögum til sjóðsins.

Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað áratuginn sem nú er nýhafinn endurheimt vistkerfa. Með endurheimt votlendis eru ekki bara tekin stór skref í baráttunni við hlýnun jarðar heldur færast vistkerfin á þeim svæðum til fyrra horfs. Það þýðir margföldun náttúrulegs lífríkis, með þeirri fegurð sem því fylgir. Það á ekki bara við um fuglalíf heldur hafa rannsóknir sýnt fram á að vatnsbúskapur batnar í vötnum og ám þar sem endurheimt hefur farið fram.

Verkefni og framsetning Votlendissjóðs hafa vakið athygli víða og sjóðurinn er í samstarfi við stærstu dýralífssamtök Bretlands, RSBP (hið konunglega breska fuglaverndarfélag) ásamt Fuglavernd á Íslandi. Öll verkefni sjóðsins eru svo unnin í samráði við Umhverfisstofnun, sveitarfélög og aðra sem að slíkum framkvæmdum þurfa að koma.

Haustið 2019 var endurheimt sjóðsins hafin af fullum krafti. Í lok árs 2020 hafði Votlendissjóðurinn endurheimt votlendi á 203 hekturum. Það eru 32.668 tonn af koldíoxíði sem sjóðurinn hefur til sölu á móti kolefnisjöfnun.

„Það starf sem sjóðurinn vinnur skiptir miklu máli fyrir okkur öll og fyrir framtíðina. Fram undan eru mjög spennandi tímar hjá Votlendissjóði. Við hjá Samskipum erum afar stolt af því að vera einn af stofnaðilum sjóðsins. Samskip leggja ríka áherslu á samfélagslega ábyrgð. Einn liður í því var að taka þátt í stofnun sjóðsins,“ segir Þórunn Inga Ingjaldsdóttir, forstöðumaður markaðs- og samskiptasviðs Samskipa og stjórnarmaður í Votlendissjóði.