Viðbrögð við rangfærslum
Viðbrögð við rangfærslumSamskip telja rétt að bregðast við rangfærslum sem teknar hafa verið upp úr ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um ætlað samráð félagsins og Eimskips.
Þannig er því til að mynda haldið fram með nokkrum blekkingum að vinatengsl séu milli fyrrum forstjóra Eimskips og Samskipa. Fullyrt er að þeir hafi verið í „vinahópi“ sem hafi m.a. spilað golf, farið í veiðiferðir og ferðir til útlanda. Þarna er hins vegar um að ræða samkomur er til eru komnar vegna viðburða á vegum fyrirtækisins N1 og hópurinn samanstóð af fjölda forstjóra hinna ýmsu fyrirtækja, m.a. flugfélags, fasteignafélags, olíufélags og fl.
Hið rétta er að þessum fyrrverandi forstjórum var ekki vel til vina og þeir tilheyrðu ekki sameiginlegum vinahópi. Þá áttu þeir aldrei í neinum ólögmætum samskiptum enda ekki nokkurt skjal í málinu, sem telja í tugum þúsunda, sem bendir til þess.
Umrædda viðburði, rétt eins og ýmsa aðra sem fyrirtæki landsins standa fyrir, var forstjórum þessara fyrirtækja vitanlega heimilt að sækja. Framsetning Samkeppniseftirlitsins um þetta efni, sem önnur, er einstaklega villandi og ómakleg.
Þá er því haldið fram í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að Samskip hafi afvegaleitt rannsókn stofnunarinnar með rangri eða villandi upplýsingagjöf. Þetta er rangt. Rannsókn stofnunarinnar stóð yfir í 13 ár og á þeim tíma gerðu starfsmenn Samskipa allt sem í þeirra valdi stóð til að liðsinna stofnuninni og verða við endurteknum og ítarlegum upplýsingabeiðnum.
Um leið má fullyrða að ekkert fyrirtæki hefði getað orðið að öllu leyti við kröfum stofnunarinnar, svo sem um að taka saman öll „samskipti, formleg eða óformleg, óformlegar viðræður, símtöl, tölvupóstsamskipti, samskipti í gegnum samfélagsmiðla“, vegna núverandi og fyrrverandi starfsmanna eða hvers kyns minnisblöð, tilboð, samninga, samningsdrög og fl. 9 ár aftur í tímann.
Meðfylgjandi er sýnishorn slíkrar upplýsingabeiðni og ætti hverjum þeim sem komið hefur nærri fyrirtækjarekstri að vera ljóst að útilokað er að verða að öllu leyti við þessum kröfum. Allt var gert til að verða við þessum óraunhæfu kröfum. Samkeppniseftirlitið var ítrekað upplýst um ástæðu þess að ómögulegt væri að afla allra þeirra upplýsinga sem óskað var eftir og var starfsmönnum stofnunarinnar endurtekið boðið að koma á starfsstöð félagsins til að sjá með eigin augum hvernig utanumhaldi gagna var háttað hjá félaginu. Þau boð þáði stofnunin ekki en kaus þess í stað að fara fram með hótunum um refsingar ef félagið yrði ekki við öllum kröfum.
Fullyrðingar um að Samskip hafi dregið úr þjónustu til að halda uppi verði til einstakra viðskiptavina á tímum efnahagshamfara í heiminum í aðdraganda fjármálahrunsins eru líka með ólíkindum. Fyrirtækið var nauðbeygt til að bregðast við þegar innflutningur hrundi og niðurskurður framboðs sambærilegur og hjá flugfélögum á þeim tíma.
Þá hefur eftirlitið haft að engu athugasemdir Samskipa um þróun sjóflutningsverðs á rannsóknartímabilinu. Sjóflutningsgjöld eru langoftast í evrum og lækkuðu í evrum talið á rannsóknartímabilinu. Gjöldin hækkuðu hins vegar í krónum vegna falls krónunnar við efnahagshrunið haustið 2008. Því er einstaklega villandi að halda því fram að félögin hafi hækkað flutningsgjöldin. Hækkun í krónum varð vegna óviðráðanlegra ytri atburða og sannanlega ekki vegna ætlaðs samráðs félaganna.
Glærukynningin „Nýtt upphaf“ er lykilgagn í máli Samkeppniseftirlitsins. Kynningin fannst við húsleit hjá Eimskipi. Um er að ræða skjal sem sýnilega var búið að vera um nokkurn tíma í vinnslu hjá Eimskipi en þar voru reifaðar ýmsar hugmyndir um aðgerðir til hagræðingar í rekstri félagsins, þar á meðal vangaveltur um mögulegt samstarf við Samskip. Þetta innanhússplagg Eimskips sá aldrei nokkur starfsmaður Samskipa fyrr en Samkeppniseftirlitið afhenti það á árinu 2018.
Kenning Samkeppniseftirlitsins er hins vegar sú að efni þessa skjals hafi verið rætt á fundi æðstu stjórnenda félagsins sem haldinn var 6. júní 2008. Þetta er rangt og það geta vitanlega allir þeir einstaklingar sem fundinn sátu staðfest. Stofnunin hikar hins vegar ekki við að setja fram fullkomlega rangar fullyrðingar um fundarefnið sem betur falla að kenningum stofnunarinnar.
Hið rétta er að tilefni fundarins var áhugi Samskipa á tilteknum rekstrareiningum Eimskips í Evrópu sem vitað var að félagið þyrfti að losa sig við vegna fjárhagsörðugleika. Af gögnum málsins má sjá að þessu efni fundarins var fylgt eftir með tölvupóstsamskiptum en svo fór hins vegar að Eimskip reyndist ekki til viðræðu um að selja þessar einingar til Samskipa og þar við sat. Samkeppniseftirlitið kýs að líta fram hjá þessum gögnum en setja þess í stað fram fullkomlega rangar fullyrðingar um efni fundarins. Fundarefnið var hvort tveggja í senn eðlilegt og lögmætt.
Tekið hefur Samkeppniseftirlitið 13 ár að teikna upp fullkomlega ranga mynd af rekstri Samskipa, og ætluðu samráði við Eimskip. Það verkefni bíður félagsins að leiðrétta þær fjölmörgu rangfærslur sem finna má í ákvörðun stofnunarinnar og verður það gert við meðferð málsins fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála, og eftir atvikum fyrir dómstólum.
Samskip hafa við rannsókn málsins svarað öllum ályktunum og fullyrðingum Samkeppniseftirlitsins með traustum rökum og með vísan til gagna. Stofnunin hefur hins vegar virt þær athugasemdir, sem eru á annað þúsund blaðsíður, að vettugi. Þau atvik sem vísað er til hér að framan í dæmaskyni eru lítið brot af málinu en hins vegar dæmigerð fyrir vinnubrögð stofnunarinnar í málinu í heild sinni.
Hörður Felix Harðarson, lögmaður Samskipa. hordur@law.is