Viðbúnaður sem sannað hefur gildi sitt

Mál tengd almennu öryggi og öryggismálum vega þungt í starfsemi Samskipa. Þannig eru til staðar fyrir fram skilgreindir verkferlar til þess að ná stjórn á aðstæðum fari hlutir aflaga. Einnig eru í lögum og reglugerðum gerðar ríkar kröfur til flutningafyrirtækja sem eðli málsins samkvæmt þurfa að flytja hættulegan farm.

Verkferlarnir sönnuðu gildi sitt þegar óhapp leiddi til saltsýruleka á athafnasvæði 

Bergvin_thordarson.jpg

Samskipa við Sundahöfn í Reykjavík undir lok síðasta mánaðar. „Það sem gerðist var að það rakst eitthvað í sýrubrúsa þegar verið var að taka hann og koma honum fyrir í flutningabíl. Við það kom á hann lítið naglagat og við það fór náttúrlega allt að leka,“ segir Bergvin Magnús Þórðarson, öryggisstjóri hjá Samskipum og bætir við að blessunarlega hafi verið brugðist við eftir bókinni, en í aðstæðum sem þessum miðist viðbragðið við að forða frekara tjóni, hvort heldur sem það er á umhverfi eða fólki.

„Hættuleg efni sem þessi meðhöndlar starfsfólkið okkar ekki, enda ekki sérfræðingar í slíku, heldur hringjum við strax í 1-1-2 á eiturefnadeildina hjá Slökkviliðinu og þeir koma og sinna málinu. Við göngum hins vegar í að verja fólk, farm og staði, og reynum að koma í veg fyrir að lekinn dreifi sér með því að koma fyrir svokölluðum efnapulsum,“ segir Bergvin, en það eru sérstakar rúllur sem koma í veg fyrir að fljótandi efni fari út um allt.

Hættulegur varningur er, samkvæmt svokölluðum ADR-reglum sem um slíkan flutning gilda, efni og hlutir sem vegna efnafræðilegra eða eðlisfræðilegra eiginleika eru: sprengifimir; eldfimir; með hættu á sjálftendrun; eitraðir; geislavirkir; ætandi og sem við ranga eða ógætilega meðhöndlun við flutning geta valdið skaða á dýrum, fólki og umhverfi. Bergvin segir að flestum komi á óvart hversu umfangsmikill flutningur á hættulegum efnum sé, en þar geti margvíslegar vörur verið undir.

„Það er eitt og annað sem svona er skráð, úðabrúsar, flugeldar, iðnaðarvörur af ýmsum toga, klór, sýrur, olíur, bensínblönduð efni, málning og fleira og fleira,“ segir Bergvin. Ef frá séu teknir bílar þá séu á þessu ári komin til landsins einhver 14 þúsund tonn af vörum sem flokkast undir hættuleg efni.

Þegar vörur sem þessar eru fluttar og með þær höndlað þá þarf að fylgja lögum og reglugerðum um meðhöndlun á hættulegum varningi. „Við förum eftir henni í einu og öllu varðandi pappíra, réttindi og leyfi.“ Og þó að reglurnar og umhverfið virðist flókið þá segir Bergvin það lærast eins og annað. „En þetta kallar til dæmis á sérúttekna bíla og vagna sem þurfa að standast sérstaka skoðun. Svo þurfa bílstjórarnir að vera með réttindi til þessa flutnings og ekki alveg sama hvaða réttindi. Þau skiptast í fjóra hluta, almenni flutningurinn sem er í sendibílum og lokuðum kassabílum, svo er tankaleyfi, sprengiefnaleyfi og síðast leyfi til flutnings á geislavirkum efnum.“ Þessum réttindum þurfa bílstjórar að bæta við sig í þessari röð, fá fyrst leyfi til almenna flutningsins, áður en leyfi fæst til tankflutninga og þannig koll af kolli. Hvað geislavirkan flutning varðar segir Bergvin stærstan hluta hans vera efni sem notuð eru í heilbrigðiskerfinu, svo sem ísótópa í geislamælingatæki, en slíkt sé alla jafna sent í flugi. Samskip hafi þó verið að flytja bergmálsþykktarmæla með skipum og bílum sem falli í þennan flutningsflokk.

Þá eru kvaðir um bruna- og mengunarvarnir sem þurfa að vera til staðar. „Við höldum reglulega æfingar, þó að við drögum ekki út pylsurnar, því þetta er einnota búnaður. Það er hins vegar gætt að því að allir viti hvar búnaðurinn er geymdur, kunni að bera sig að við notkun hans og eins að ekki sé hindraður aðgangur að honum. Þetta er eins og með hjartastuðtækin, maður þarf að eiga þetta þó að maður vilji helst aldrei þurfa að nota það.“

Eins segir Bergvin heilmikið lagt í að verja umráðasvæðið og koma í veg fyrir að þangað komist fólk sem ekki á þar heima, til dæmis með hreyfiskynjurum og öðrum búnaði. Kveðið er á um takmarkað aðgengi að þessum svæðum í siglingaverndarlögum og Samskip eru í raun undirverktakar hjá Faxaflóahöfnum þegar að þessu kemur. „Við tökum þá að okkur að sinna okkar svæði og verja það óæskilegri umferð.“ Það hafi blessunarlega verið fátítt og minna um það í seinni tíð að drukknir Íslendingar í leit að heimili sínu eftir bæjarferð þvælist inn á svæðið. „En það var á tímabili að menn rötuðu ekki heim til sín og voru komnir niður á bryggju. En þá fer bara ákveðið ferli í gang.“

Bergvin segir að yfirstandandi 4DX-átak Samskipa þar sem áhersla er lögð á öryggismál hafi skilað heilmikilli vitundarvakningu á vinnustaðnum. „Ég vil helst hafa þetta í gangi alla daga ársins. Fólk er farið að koma til mín sem kannski sýndi öryggismálunum lítinn skilning áður, en kemur nú og spyr út í hina og þessa öryggisþætti.“ Þá sýni tölurnar líka árangur því á tímabilinu 1. september til 1. desember í fyrra hafi orðið átta slys, en núna séu þá á sama tíma bara tvö, eitt á athafnasvæði Samskipa og svo eitt umferðarslys. „Vitundin er orðin miklu meiri. Fólk er farið að banka í öxlina á félaganum ef það sér eitthvað sem betur mætti fara. Og það er það sem þetta snýst um, að af 500 manns séum við með 502 öryggisfulltrúa. Það eiga allir að vera sinn eigin öryggisfulltrúi.“