Vinamargur með dellu fyrir veiðum og útivist

 

„Ég er fæddur í Svíþjóð, en var þar bara mjög skamma hríð,“ segir Gunnar Kvaran um sín fyrstu skref í þessum heimi, en hann er fæddur í janúar byrjun 1972, yngstur þriggja systkina. „Uppvöxturinn var svo í Mosfellssveit eins og hún hét þá,“ bætir hann við kíminn, eins og vísað sé til grárrar forneskju, en það var í ágúst 1987 sem Mosfellshreppur varð að Mosfellsbæ.

 

„Maður er orðinn svo gamall að maður þarf orðið að hugsa sig um og telja jafnvel á fingrum sér þegar maður er spurður að aldri,“ segir hann og bætir við eftir smá umhugsun: „Ég hlýt að vera 46 ára.“

Flakk fyrstu árin

Það var reyndar dálítið flakk á Gunnari á fyrstu æviárunum, en hann var líka sem smágutti með fjölskyldunni í New York í Bandaríkjunum í þrjú ár. Búsetu utan landsteinanna segir hann líkast til skrifast á ævintýraþrá foreldra hans. Nokkuð hafi verið um það á árunum upp úr 1970 að Íslendingar flyttu til Svíþjóðar til að starfa þar. „Pabbi vann hjá Husqvarna. Og þó að það hafi ekki staðið lengi þá var það samt nóg til þess að í vegabréfinu stendur að ég sé fæddur í Svíþjóð.“ Sama ævintýraþráin hafi svo leitt þau til Bandaríkjanna þar sem faðir Gunnars starfaði hjá Loftleiðum.

„Við komum svo aftur heim í Mosfellssveit þegar ég komst á grunnskólaaldur og þar vorum við þar til ég var sautján.“ Gunnar segir uppvaxtarárin í Mosfellssveit hafa verið góðan tíma og nóg við að vera. Hann varð ungur heltekinn af handbolta og öllu sporti og segir að oftar en ekki hafi þurft að reka hann heim í kvöldmat því svo gaman hafi verið í íþróttahúsinu. „Það var eiginlega mitt annað heimili.“

Gunnar segir að fram til 12 eða 13 ára aldurs hafi hann stundað af kappi hverjar þær íþróttir sem hann komst í. „En svo varð handboltinn fyrir valinu. Ég spilaði handbolta með Aftureldingu fram á sautjánda ár og fór þá yfir í Fram og spila þar einhverja 200 meistaraflokksleiki eða svo, og í gegn um öll unglingalandsliðin í handbolta.“

Fór í Kvennó

Fjölskyldan hafi svo flutt í Fossvoginn í Reykjavík þegar komið var að menntaskólanámi hjá honum. Skólinn sem varð fyrir valinu var Kvennaskólinn í Reykjavík. „Við sáum það í hendi okkar við Grjóni vinur minn úr Mósó að það væri gáfulegt að skrá okkur í Kvennaskólann. Á þessum tíma var ekki mikið um stráka í skólanum, en við vorum tveir í bekknum og dekrað við okkur í fjögur ár.“

Gunnar var sterkur námsmaður, gekk ágætlega í gagnfræðaskóla og blómstraði í framhaldsskóla. „Sú staðreynd að í Kvennaskólanum var bekkjarkerfi, en ekki fjölbrautakerfi, átti stóran þátt í að sá skóli varð fyrir valinu og úr honum útskrifaðist ég með bara hörkufínar einkunnir.“ Á þeim tíma var hann hins vegar aðeins tvístígandi um hvaða stefnu skyldi taka, en skráði sig í viðskiptafræði í Háskólanum. „Ég hafði svo sem ekki hugmynd um hvað ég vildi gera en skráði mig í þetta fyrir rælni og eignaðist þar ágæta kunningja.“ Hann fann sig hins vegar alls ekki í náminu og fannst það raunar „ógeðslega leiðinlegt“ og ákvað því að taka sér hlé frá námi.

„Eftir á að hyggja hefði maður kannski átt að þrauka í þessu þótt það væri leiðinlegt, en það fór öðruvísi. Eftir einhverja tvo mánuði blés ég á þetta allt saman og fór til Bandaríkjanna.“ Þar var Gunnar hjá skyldfólki í Phoenix í Arizona í 10 mánuði. „Þetta var virkilega skemmtilegur tími. Ég hafði það náðugt og hugsaði minn gang og kynntist fullt af Íslendingum sem voru þarna í námi.“

Kynntist konunni í KHÍ

Þegar heim kom var svo stefnan tekin á kennaranám. „Ég lauk námi í Kennaraháskólanum og útskrifaðist með B.Ed. gráðu sem kennari.“ Námsvalið hafi verið gæfuspor á margan hátt því á lokaballinu í skólanum hafi hann jú kynnst eiginkonu sinni, Ásdísi Björk Jónsdóttur.

Þar fyrir utan hafi Kennaraháskólaárin líka verið frábær tími og hann fengið tækifæri til að taka þátt í miklu ævintýri utan skólans. Þeir bræður Dagur Sigurðsson, vinur Gunnars úr handboltanum, og Lárus bróðir Dags festu nefnilega kaup á Kofa Tómasar frænda við Laugaveg sem margir kannast við.

„Þarna var ég allar helgar, ekki að skemmta mér, heldur við störf á bjórdælunni.“ Hjá þeim bræðrum, sem hafa verið um tvítugt, vann Gunnar svo allt kennaranámið. „Það eru margir sem minnast þessa tíma með hlýju, þessara þriggja ára eða hvað það var sem þeir áttu þetta. Þarna hélt nefnilega meira og minna alltaf til sama fólkið, kannski 60 manna kjarni, fólk sem tengdist starfsmönnum staðarins og eigendum hans. Helst minnti þetta á Staupastein,“ segir Gunnar og bætir við að enn sé stundum blásið til  „kofaveislu“ þar sem fólk rifjar upp gamla tíð. „En með þessu komst ég hjá því að taka námslán og slapp við að vera fullur allar helgar.“

Giftu sig fyrir Samskip

Gunnar segir kennaranámið hafa átt vel við og hann farið í það fullur áhuga. „Og í því námi er margt sem hefur nýst mér allar götur síðan, bæði í vinnu og daglegu lífi, þótt ekki hafi átt fyrir mér að liggja að verða kennari.“

Hlutirnir gerðust hratt eftir lokaballið þar sem þau náðu saman hann og Ásdís Björg, því Gunnari bauðst starf í geira sem hann hafði verði viðloðandi allt frá unglingsaldri, í flutningageiranum. „Karl faðir minn og alnafni var fyrsti starfsmaður Jóna í Hafnarfirði, sem þá var í eigu Byko,“ rifjar Gunnar upp. Sumarstörf þar hafi því legið beint við þegar hann hóf slíka vinnu 15 ára. „Og í þessu var ég út mitt nám á sumrin og í fríum.“

Gunnar ákvað því að „bíða aðeins“ með kennsluna og taka starfi sem sölumaður hjá Jónum og sú bið stendur enn. Samskip keyptu Jóna 2001 og segir Gunnar fyrirtækið hafa átt nokkurn þátt í því að hann og Ásdís drifu í að láta pússa sig saman. Hann hafði verið beðinn að taka yfir rekstur skrifstofu fyrirtækisins í Bandaríkjunum, en þá þessum tíma voru þau með tvær ungar dætur.

„Ég fer út til Virgina Beach í ársbyrjun 2002 og þær ætluðu að koma um vorið. Kemur þá ekki í ljós að til að Ásdísi verði örugglega hleypt inn í landið þyrftum við að vera gift.“ Slegið var upp mikilli giftingarveislu í Iðnó í mars 2002 þegar hann kom heim um páskana. „Það má því segja að Samskip hafi ýtt á brúðkaupið hjá okkur eða jafnvel að við höfum gift okkur fyrir Samskip,“ segir Gunnar og hlær. „Við erum búin að vera gift síðan og eigum þrjár dætur. Ein er uppkomin og farin að heiman, en heima eru hinar tvær önnur sautján og hin fjórtán.“

Vinir og fjölskylda toguðu

Yngsta dóttir þeirra, Sigríður Vala, segir Gunnar að hafi komið í heiminn þegar þau bjuggu í Bandaríkjunum. Þau hafi ekki enn sagt henni að hún eigi þess vegna bandarískt vegabréf. „Hún þarf að komast að því sjálf. Við sjáum þá hvort hún les þetta,“ bætir hann við og hlær. „Þá fer hún að leita í skúffum.“

Þau hafi lagt upp með að vera ekki lengur úti en í þrjú til fimm ár og við það hafi þau staðið. „Ég sagði við konuna að tími væri kominn til að fara heim þegar ég var farinn að skoða mokkasíur með dúskum. Ef maður fær sér svoleiðis þá er maður að breytast í Ameríkana og óvíst að það verði aftur snúið.“ Þau hafi því snúið aftur úr þessum víkingi til Vesturheims í árslok 2006. „Þetta var aldrei spurning hjá okkur, enda bæði fjölskylda og stór vinahópur sem togaði.“

Gunnar segir vinina í stórum dráttum skiptast í tvo hópa. Annars vegar eru það gamlir vinir úr handboltanum og svo vinir tengdir Veiðifélaginu Urriðanum, sem sex félagar hafi stofnað árið 1992. Það sé þéttur hópur og mikill samgangur, svo sem með afmælisferðum til útlanda og öðrum viðburðum. Handboltavinirnir séu svo í grunninn gamlir Frammarar af ´72 árgerð sem haldið hafi miklum vinskap alla tíð.

Veiðimennska leikur líka stórt hlutverk í því sem vinirnir taka upp á. „Við höfum til dæmis í mörg ár farið í Mývatnssveit að veiða urriða á hverju ári og það hefur undið þannig upp á sig að við erum orðið með allt hollið. Þetta eru 15 stangir og 30 menn að fara að veiða.“

Gengur með góðum hópi

Veiðidellan segir Gunnar að sé nokkuð alvarleg og nái yfir allar tegundir veiða, hvort sem það sé á stöng eða með byssu. „Veiðidellan tók eiginlega við af íþróttaiðkuninni, þó svo ég sé ennþá nokkuð duglegur við hlaup í viku hverri.“

Þar fyrir utan hefur Gunnar alltaf haft gríðarlegan áhuga á útivist. „Í námi mínu í Kennaraháskólanum þá fór ég til dæmis eina önn á kaldasta stað í miðju Noregi og nam fræði sem nefnast á norsku friluftsliv, eða útivistarfræði. Það var alveg geggjaður tími, bara bakpokinn á bakið og svo af stað út í náttúruna.“ Þessi áhugi á útivist hafi haldist alla tíð og jafnvel heldur færst í aukana í seinni tíð. „Við erum komin með fastan hóp sem alltaf gengur saman á haustin. Þá er farið í góðar göngur á vegum Útivistar.“ Þetta séu gömlu góðu vinirnir og eiginkonur þeirra komnar með. „Í fyrra gengum við Laugaveginn sem var mjög skemmtilegt. Og nú er búið að bóka aftur svipaðan túr, 60 kílómetra göngu, Sveinstindur-Skælingjar, í september. Það er gaman þegar svona heppnast og frábær leið til að upplifa landið sitt.“

Í gegnum konuna hafi svo líka komið mikill áhugi á hollustu og mataræði. „Þann heiður má hún Ásdís eiga. Þannig að maður er alveg aktívur í dag,“ segir Gunnar glaðbeittur.

 IMG_2663vefminni

Mynd 1: Stoltur veiðimaður með feng sinn. Gunnar, sem er með mikla veiðidellu, hefur hér á loft væna hrygnu sem hann fékk í Hafralónsá. (Mynd úr einkasafni.)

IMG_0438vefminni

Mynd 2: Fjölskyldan saman úti að borða. Gunnar, Ásdís og dætur þeirra þrjár. (Mynd úr einkasafni.)

IMG_2016vefminni

Mynd 3: Handboltinn átti hug Gunnars allan á yngri árum og keppti hann lengi í meistaraflokki. Hér er hann með Ólafi Stefánssyni, gömlum félaga úr boltanum. (Mynd úr einkasafni.)

IMG_0770vefminn

Mynd 4: Gunnar veiðir nær allt sem hreyfist, en hér hefur hann skellt sér á rjúpu. (Mynd úr einkasafni.)

IMG_0270-1-

Mynd 5: Ásdís og Gunnar eru göngugarpar og áhugafólk um hreyfingu og útivist. (Mynd úr einkasafni.)