Reglur um vernd uppljóstrara

Reglur Samskipa verklag við uppljóstrun starfsfólks um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi.

Reglur þessar eru settar með vísan til 1. mgr. 5. gr. laga nr. 40/2020

Starfsfólki Samskipa er heimilt að greina frá upplýsingum eða miðla gögnum í góðri trú um brot
á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi fyrirtækisins til aðila innan þess sem stuðlað
getur að því að látið verði af eða brugðist við hinni ólögmætu eða ámælisverðu háttsemi eða til
lögregluyfirvalda eða annarra opinberra eftirlitsaðila sem við eiga, t.d. umboðsmanns Alþingis,
ríkisendurskoðanda og Vinnueftirlitsins.

Skilgreiningar

Með innri uppljóstrun er átt við að starfsmaður greinir frá upplýsingum eða miðli gögnum
í góðri trú um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda síns
til aðila innan fyrirtækisins eða til opinbers eftirlitsaðila.

Með ytri uppljóstrun er átt við að starfsmaður greini frá upplýsingum eða miðli gögnum í
góðri trú um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda síns
til aðila utan fyrirtækisins, t.d. fjölmiðla. Ytri uppljóstrun er að jafnaði ekki heimil nema innri
uppljóstrun hafi fyrst verið reynd til þrautar. sbr. 4.mgr.1gr.laga 40/2020

Með góðri trú er átt við að starfsmaður hafi góða ástæðu til að telja gögnin eða
upplýsingarnar sem miðlað er séu réttar, og að það sé í þágu almennings að miðla þeim
og að hann eigi ekki annan kost til að koma í veg fyrir þau brot eða þá háttsemi sem um
ræðir. 

Með ámælisverðri háttsemi er átt við hátterni sem stefnir almannahagsmunum í hættu,
t.d. hátterni sem ógnar heilsu eða öryggi fólks eða umhverfi, án þess að um sé að ræða
augljóst brot á lögum eða reglum.

Starfsmaður í skilningi reglna þessara er sá sem hefur aðgang að upplýsingum eða
gögnum um starfsemi vinnuveitanda vegna hlutverks síns, þ.m.t. ráðinn, settur, skipaður,
sjálfstætt starfandi verktaki, stjórnarmaður, starfsnemi, tímabundinn starfsmaður og
sjálfboðaliði, sbr skilgreining 2.mgr.1,gr.laga nr. 40/2020 Starfsmaður nýtur verndar
samkvæmt ákvæðum framangreindra laga um vernd uppljóstrara, eftir að hlutverki hans
lýkur.

Miðlun upplýsinga

Starfsmanni er heimilt að tilkynna atvik sem varðar brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi
í starfsemi fyrirtækisins til mannauðsstjóra og/eða til siðanefndar Samskipa. Starfsmaður fær
staðfestingu á tilkynningu sinni og móttakandi upplýsinganna tryggir að málið sé afgreitt af
viðeigandi aðila og innan skilgreinds tíma. Samskip munu taka ákvörðun um hver tekur
endanlega ákvörðun í málinu og metur hvort Samskip þurfi að grípa til frekari ráðstafana.
Samskip munu upplýsa uppljóstrara um ákvörðun sína í samræmi við lög og gildandi reglur
varðandi þagnarskyldu innan Samskipa.

  • Móttakandi upplýsinganna skal greina starfsmanninum frá því hvort upplýsingarnar hafi
    orðið honum tilefni til athafna og þá hverra.
  • Móttakanda upplýsinganna eða gagnanna er skylt að stuðla að því að látið verði af hinni
    ólögmætu eða ámælisverðu háttsemi eða brugðist á annan hátt við henni.
  • Móttakandi upplýsinga eða gagnanna skal gæta leyndar um persónuupplýsingar sem honum berast um þann sem miðlar upplýsingum eða gögnum nema hinn síðarnefndi veiti afdráttarlaust samþykki sitt fyrir því að leynd sé aflétt.

Mikilvægt er að árétta að tilkynning um atvik skal ávallt vera gerð innan fyrirtækisins
áður en leitað er til utanaðkomandi aðila.

Miðlun til ytri aðila

Miðlun upplýsinga til aðila utan fyrirtækisins getur verið brot á skyldum og ábyrgð þinni vegna
starfa þinna ef þú hefur ekki fyrst miðlað upplýsingum um atvikið til mannauðsstjóra og/eða
siðanefndar Samskipa.

Starfsmanni sem miðlað hefur upplýsingum eða gögnum án þess að það hafi leitt til fullnægjandi
viðbragða innan fyrirtækisins, er heimilt í góðri trú að miðla umræddum upplýsingum eða
gögnum til utanaðkomandi aðila, svo fremi sem starfsmaðurinn hafi réttmæta ástæðu til að ætla
að um háttsemi sé að ræða sem getur varðað fangelsisrefsingu.

Miðlunin verður að teljast varða brýna almannahagsmuni og að hagsmunir Samskipa eða
annarra verði að víkja fyrir hagsmunum af því að upplýsingum sé miðlað til utanaðkomandi
aðila, svo sem til að vernda:

  1. Öryggi ríkisins eða hagsmuni ríkisins á sviði varnarmála.
  2. Efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins.
  3. Heilsu manna.
  4. Umhverfið.

Rétt er að benda á að starfsmannamál og deilur sem tengjast ráðningarsambandi lúta ekki
þessum leiðbeiningum nema þær varði þær aðstæður sem nefndar eru hér að ofan.

Vernd „uppljóstrara“

Miðlun upplýsinga eða gagna að fullnægðum skilyrðum ákvæða laga nr. 40/2020, um vernd
uppljóstrara, telst ekki brot á þagnar- eða trúnaðarskyldu sem starfsmaðurinn er bundinn
Af samkvæmt lögum eða með öðrum hætti. Slík miðlun leggur hvorki refsi- né skaðabótaábyrgð
á viðkomandi og getur ekki leitt til stjórnsýsluviðurlaga eða íþyngjandi úrræða að
starfsmannarétti.     

Óheimilt er að láta uppljóstrara sæta óréttlátri meðferð skv. ákvæðum 2.mgr.4.gr.laganna.

Komi til ágreinings fyrir dómi um stöðu uppljóstrara með tilliti til hvort tilkynning og miðlun
upplýsinganna hafi verið óheimil eða að uppljóstrari er látinn sæta óréttlátri meðferð í kjölfar
hennar skal veita uppljóstrara gjafsókn í héraði, fyrir Landsrétti og Hæstarétti. Gjafsókn fellur
niður ef sýnt er fram á fyrir dómi að uppljóstrari hafi ekki verið í góðri trú þegar upplýsingum var
miðlað.

Reglur þessar taka gildi við birtingu. Reglurnar skulu endurskoðaðar eins oft og þurfa þykir, þó
a.m.k. á þriggja ára fresti.

Þannig samþykkt af stjórn Samskipa hf þann 7 Desember 2021
Kari-Pekka Laaksonen
Elaine Pelisson
Kristinn Albertsson