Farmbréf fyrir fjölþáttaflutninga

Íslensk þýðing á flutningaskilmálum Samskipa. Beri eitthvað á milli gildir enski frumtextinn.

Ákvæði um móttöku til flutnings (farmskírteini) B/L:

Farmflytjandi hefur móttekið frá viðskiptamanni tilgreindan fjölda eða magn gáma, annarra pakka eða eininga, að því er séð verður í góðu lagi og ástandi (nema annars sé getið í farmskírteini þessu), sem viðskiptamaður segir samanstanda af ofangreindum vörum, til flutnings samkvæmt öllum skilmálum farmskírteinisins (þar með töldum skilmálum, skilyrðum og undanþágum á bakhlið farmskírteinisins og skilmálum, skilyrðu (þar með töldum skilmálum, skilyrðum og undanþágum á bakhlið farmskírteinisins og skilmálum, skilyrðum og undanþágum viðeigandi gjaldskrár farmflytjanda) frá móttökustað eða lestunarhöfn, hvort sem við á, að losunarhöfn eða afhendingarstað, hvort sem við á. Með því að taka við farmskírteini þessu samþykkir viðskiptamaður beinlínis og fellst á alla skilmála þess, skilyrði og undanþágur hvort sem prentaðar eru, stimplaðar, skrifaðar eða felldar inn á annan hátt þrátt fyrir að viðskiptamaður hafi ekki undirritað farmskírteini þetta. Einu frumriti farmskírteinis verður að skila, rétt framseldu, í skiptum fyrir vöruna eða afhendingarheimild. Þessu til staðfestingar hafa þrjú (3) frumrit farmskírteina (nema annars sé getið í skjali þessu) öll samhljóða og eins dagsett verið undirrituð, en þegar einu þeirra hefur verið fullnægt ógildast hin.

Ákvæði um "móttöku til flutnings" á forsíðu (óframseljanlegt fylgibréf):

Farmflytjandi hefur móttekið frá viðskiptamanni tilgreindan fjölda eða magn gáma, annarra pakka eða eininga, að því er séð verður í góðu lagi og ástandi (nema annars sé getið í óframseljanlegu fylgibréfi þessu), sem viðskiptamaður segir samanstanda af ofangreindum vörum, til flutnings samkvæmt öllum skilmálum óframseljanlega fylgibréfsins (þar með töldum skilmálum, skilyrðum og undanþágum á bakhlið óframseljanlega fylgibréfsins og skilmálum, skilyrðum og undanþágum viðeigandi gjaldskrár farmflytjanda) frá móttökustað eða lestunarhöfn, hvort sem við á, að losunarhöfn eða afhendingarstað, hvort sem við á. Með því að fallast á að varan verði flutt samkvæmt óframseljanlegu fylgibréfi þessu samþykkir sendandi beinlínis og fellst á alla skilmála þess, skilyrði og undanþágur hvort sem prentaðar eru, stimplaðar, skrifaðar eða felldar inn á annan hátt, fyrir sína hönd og fyrir hönd viðtakanda og eiganda vörunnar og viðskiptamanns og ábyrgist að hann hafi heimild til að gera það þrátt fyrir að enginn þeirra hafi undirritað óframseljanlegt fylgibréf þetta og án tillits til hvort þeir hafi fengið eintak af því eða ekki. Sérhver tilvísun í skjali þessu til orðsins „farmskírteini“ ber að lesa og túlka sem tilvísun til orðanna „óframseljanlegt fylgibréf“. Hafi sendandi ekki gefið farmflytjanda skriflegar upplýsingar um annað fyrir afhendingu, mun afhending fara fram til skráðs viðtakanda, eða staðfests umboðsmanns hans sem sanni á sér deili, í losunarhöfn eða á afhendingarstað, hvort sem við á. Óski viðtakandi afhendingar til annars aðila og/eða á annað heimilisfang, en segir hér að ofan í reitnum fyrir viðtakanda, verður viðtakandi að gefa farmflytjanda eða umboðsmanni hans skriflega fyrirmæli um slíkt. Ef sendandi fellur ekki beinlínis frá rétti sínum til þess að hafa umráð yfir vörunni þar til afhending fer fram með ákvæði á framhlið ófamseljanlega fylgibréfs þessa, eru slík fyrirmæli frá  viðtakanda háð hverskyns andstæðum fyrirmælum frá sendanda.

1. Skilgreiningar

"Farmflytjandi" þýðir í farmskírteini þessu Samskip hf. og/eða dótturfélög þeirra.
"Flutningur" þýðir öll framkvæmd og þjónusta, eða hluti þeirra, sem farmflytjandi tekur að sér vegna vöru, er farmskírteini þetta á við um.
"Skip" tekur einnig til sérhvers skips, sem kemur í stað hins upphaflega, svo og sérhvers skips er umskipa má í vegna efnda þessa samnings.
"Viðskiptamaður" felur í sér, hvern fyrir sig og sameiginlega, sendanda, móttakanda, viðtakanda, handhafa þessa farmskírteinis, hvern þann er á vöruna eða á rétt til eignarhalds á henni eða þessu farmskírteini, svo og hvern þann er starfar sem starfs- eða umboðsmaður eða á annan hátt í þágu slíks aðila.
"Handhafi" þýðir sérhver aðili, einstaklingur eða félög/lögaðili, sem hverju sinni hefur farmskírteini þetta í vörslu sinni, sem eignarráð vörunnar hafa gengið til eða skráður viðtakandi eða vegna afsals eða framsals farmskírteinis þessa eða á annan hátt.
"Vara" þýðir farmur móttekinn frá viðskiptamanni og felur í sér hverskyns gáma, sem ekki eru látnir í té af farmflytjanda eða fyrir hans hönd.
"Gjöld" innifela farmgjald og allan kostnað og fjárskuldbindingar, sem viðskiptamaður hefur stofnað til og ber að greiða.
"Fjölþáttaflutningur" verður til þegar móttökustaður og/eða afhendingarstaður er/eru tilgreindur/ir á framhlið þessa skjals.
"Flutningur frá höfn til hafnar " verður til þegar flutningur, sem tilgreindur er í farmskírteini þessu, er ekki fjölþáttaflutningur.
"Gámur" innifelur hverskyns gám, tengivagn, flytjanlegan geymi, fleti eða bretti eða hverskyns sambærilega flutningseiningu, sem notuð er til að halda vörum saman.
"SDR" Sérstök dráttarréttindi eins og þau eru skilgreind af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og innleidd með SDR-samningi (1979).
"SDR-samningur (1979)" er samningurinn, sem undirritaður var í Brussel hinn 21. desember 1979 til breytinga á Haagreglunum.
"Haagreglurnar" eru ákvæði Alþjóðasamningsins um samræmingu ákveðinna reglna sem varða farmskírteini og undirritaður var í Brussel 25. ágúst 1924, eins og þeim hefur verið breytt með samningi, sem undirritaður var í Brussel 23.febrúar 1968 og með SDR-samningnum (1979).
"US COGSA" eru lög Bandaríkja Norður-Ameríku um vöruflutninga á sjó, sem samþykkt voru 16. apríl 1936.

2. Gjaldskrá farmflytjanda

Gjaldskrá farmflytjanda þegar ferming á sér stað er hluti þessara ákvæða. Gjaldskráin fæst hjá farmflytjanda ef óskað er. Ef misræmi verður á milli ákvæða þessa farmskírteinis og gildandi gjaldskrár skulu ákvæði þessa farmskírteinis gilda.

3. Ábyrgð

(i) Viðskiptamaður ábyrgist að með því að fallast á skilmála þessa er hann eigandi eða rétthafi vörunnar og farmskírteinisins eða hefur heimild slíks aðila.

(ii) Viðskiptamaður ábyrgist gagnvart farmflytjanda að upplýsingarnar um vöruna eins og þær eru ritaðar á framhlið hafi verið athugaðar af sendanda við móttöku farmskírteinis þessa og að þær upplýsingar og hverskyns aðrar upplýsingar, sem veittar hafa verið af sendanda eða fyrir hans hönd, séu efnislega réttar og tæmandi að öllu leyti og að farmflytjandi gefi ekki beint eða óbeint neinskonar yfirlýsingu um upplýsingarnar neinum aðila til hagsbóta.

4. Ráðning undirverktaka

(i) Farmflytjanda er heimilt að ráða undirverktaka á hvaða skilmálum sem er til að annast allan eða hluta flutningsins, fermingu, affermingu, geymslu, vörugeymslustarfsemi, meðhöndlun og, án takmörkunar, hverskyns aðrar skyldur hverju nafni sem nefnast, sem farmflytjandi hefur tekið að sér í tengslum við vöruna.

(ii) Viðskiptamaður skuldbindur sig til að sjá til þess að ekki verði sett fram nein krafa eða ásökun á hendur neinum starfsmanni, umboðsmanni eða undirverktaka farmflytjanda, þar með taldir, en ekki takmarkað við, hleðslumenn og rekstraraðila vörugeymslna, sem leggur á þá eða leitast við að leggja á einhvern þeirra eða skip í eigu þeirra nokkra ábyrgð í sambandi við vöruna og ef einhver slík krafa eða ásökun væri engu að síður gerð að verja farmflytjanda, bæta honum skaðann og halda honum skaðlausum af öllum afleiðingum þess. Án áhrifa á framangreint skal sérhver slíkur starfsmaður, umboðsmaður eða undirverktaki njóta hagsbóta af öllum undanþágum, takmörkunum, ákvæðum, skilyrðum og réttindum í skjali þessu, sem eru til hagsbóta fyrir farmflytjanda eins og slík ákvæði væru beinlínis gerð til hagsbóta fyrir þá; og þegar farmflytjandi gerir þennan samning gerir hann það, hvað þessi ákvæði varðar, ekki eingöngu fyrir sína hönd, heldur einnig sem umboðsaðili og fulltrúi slíkra starfsmanna, umboðsmanna og undirverktaka.

Farmflytjandi á rétt til greiðslu úr hendi viðskiptamanns, þegar krafist er, á hverskyns upphæð, sem slíkur viðskiptamaður endurheimtir eða getur endurheimt frá sérhverjum starfsmanni, umboðsmanni eða undirverktaka farmflytjanda vegna hverskyns taps, skemmda, tafa eða annars.

(iii) Orðið "undirverktaki" í þessari grein skal ná til beinna og óbeinna undirverktaka sem og starfsmanna og umboðsmanna þeirra.

(iv) Viðskiptamaður skuldbindur sig ennfremur til að sjá til þess að engin krafa eða ásökun, hvernig sem slíkt tengist vörunni, sem leggur eða leitast við að leggja á farmflytjanda nokkra skuldbindingu, hverju nafni sem nefnist, í sambandi við vöruna eða flutning vörunnar, hvort sem hún leiðir af vanrækslu af hendi farmflytjanda eða ekki, verði gerð á hendur farmflytjanda af hendi neins aðila, nema samkvæmt skilmálum og skilyrðum þessa farmskírteinis, og ef slík krafa eða ásökun verður engu að síður gerð, að verja farmflytjanda, bæta honum skaðann og halda honum skaðlausum af öllum afleiðingum þess.

5. Ábyrgð farmflytjanda

Flutningur frá höfn til hafnar:
Ef umbeðinn flutningur, samkvæmt farmskírteini þessu, er frá höfn til hafnar skal ábyrgð farmflytjanda (ef einhver er) vegna taps eða skemmda á vörunum, sem verða frá og með fermingu vörunnar í hverskyns skip til og með affermingar úr skipinu eða úr öðru skipi, sem vörunum hefur verið umskipað í, ákvörðuð samkvæmt þeim landslögum er áskilja að Haagreglurnar gildi um farmskírteini þetta eða að öðrum kosti samkvæmt Haagreglunum.

Þrátt fyrir framangreint ber farmflytjandi alls enga ábyrgð vegna taps eða skemmda á vörum, hvernig sem þær orsakast, þegar slíkt tap eða skemmdir verða fyrir fermingu í eða eftir affermingu úr skipinu.

6. Ábyrgð farmflytjanda

Fjölþáttaflutningur:
Ef flutningur, samkvæmt farmskírteini þessu, er fjölþáttaflutningur tekur farmflytjandi framkvæmdina að sér og/eða útvegar í eigin nafni framkvæmd flutningsins frá viðtökustað eða lestunarhöfn, hvort sem við á, til losunarhafnar eða afhendingarstaðar, hvort sem við á, og að undanskildu því sem öðru vísi er áskilið í farmskírteini þessu, ber farmflytjandi ábyrgð á tapi eða skemmdum, sem verða meðan á flutningi stendur frá því hann veitti vöru viðtöku þar til afhending hefur átt sér stað, að því marki sem fram er tekið hér á eftir eða annars staðar í skilmálum þessum.

(1) Ef ekki er vitað á hvaða stigi flutningsins tapið eða skemmdirnar urðu:

(a) Undanþágur
Farmflytjandi skal vera án ábyrgðar á hverskyns tapi eða skemmdum ef slíkt tap eða skemmdir orsakast af:-

(i) athöfn eða athafnaleysi, ólögmætri háttsemi eða vanrækslu viðskiptamanns;

(ii) Vöntun eða ófullnægjandi pökkun á vöru sem vegna eðlis síns rýrnar eða skemmist þegar henni er ekki pakkað inn eða það gert með ófullnægjandi hætti;

(iii) ófullnægjandi eða gölluðum eða ónákvæmum pakkningum, merkingum eða magnlýsingum á vöru,  umbúðum eða flutningseiningum;

(iv) meðferð, fermingu, frágangi eða affermingu vörunnar af viðskiptamanni eða fyrir hans hönd;

(v) eðlislægum eða eigin galla vörunnar;

(vi) verkfalli, verkbanni, stöðvun eða takmörkun vinnuafls;

(vii) kjarnorkuslysi;

(viii) hverskyns orsök eða tilfelli, sem farmflytjandi gat ekki komist hjá og gat ekki komið í veg fyrir með eðlilegri árvekni.

(b) Sönnunarbyrði
Sönnunarbyrði um að tapið eða skemmdirnar hafi orðið vegna einnar eða fleiri orsaka eða tilfella er um getur í þessari 6. grein (1) hvílir á farmflytjanda nema farmflytjandi sýni fram á, að við viðkomandi aðstæður var hægt að kenna um einni eða fleiri af þeim orsökum eða tilfellum er greinir í 6. grein (1)

(a) (ii), (iii), (v) eða (vi) um tapið eða skemmdirnar, en þá ber að telja að svo hafi verið. Viðskiptamaður á þó rétt á að sanna að tapið eða skemmdirnar hafi í raun hvorki orðið algjörlega né að hluta af einni eða fleiri orsökum þessum eða tilfellum.

(c) Takmörkun ábyrgðar
Að undanskildu því sem gert er ráð fyrir í 7. grein (iii) skulu samanlagðar bætur undir engum kringumstæðum fara fram úr SDR 2 fyrir hvert kílógramm brúttóþunga tapaðrar eða skemmdrar vöru eða SDR 667 fyrir hvern pakka eða einingu, hvort sem hærra er.

(2) Ef vitað er á hvaða stigi flutnings tapið eða skemmdirnar urðu:
Þrátt fyrir öll ákvæði 6. greinar (1), en jafnan að tilskildum 5., 20. og 24. greinum, ef vitað er á hvaða stigi flutningsins tapið eða skemmdirnar urðu, ber að ákvarða ábyrgð farmflytjanda á slíku tapi eða skemmdum:

(a) eftir ákvæðum hverskyns alþjóðasamþykktar eða landslaga, sem:-

(i) ófrávíkjanleg eru með samningi til skaða fyrir viðskiptamann; og

(ii) gilt hefðu ef viðskiptamaður hefði gert sérstakan samning við farmflytjanda um þann hluta flutningsins þar sem tapið eða skemmdirnar urðu og fengið í hendur því til staðfestingar eitthvert það skjal, sem gefa verður út til að gefa slíkri alþjóðasamþykkt eða landslögum gildi; eða

(b) ef engin alþjóðasamþykkt eða landslög giltu vegna 6. greinar (2) (a), eftir Haagreglunum ef vitað er að tapið eða skemmdirnar hafi orðið úti á sjó eða á vötnum, ám eða skurðum; eða

(c) samkvæmt ákvæðum 6. greinar (1) ef ákvæði 6. greinar (2) (a) eða (b) eiga ekki við.

Að því er varðar þessa 6. grein (2) skulu tilvísanir í Haagreglunum til sjóflutninga teljast fela í sér tilvísun til flutninga á vötnum, ám eða skurðum og ber að túlka Haagreglurnar samkvæmt því. Ef Haagreglurnar gilda vegna 6. greinar (2) (b) takmarkast ábyrgð farmflytjanda eins og gert er ráð fyrir í 7. grein (iii).

(3) Ef ekki er getið um viðtökustað eða afhendingarstað á forsíðu þessa skjals:
Ef ekki er getið um viðtökustað á forsíðu þessa skjals ber farmflytjandi alls enga ábyrgð á tapi eða skemmdum á vörunni, af hverju sem þær stafa, ef tapið eða skemmdirnar verða fyrir fermingu í skipið. Ef afhendingarstaðar er ekki getið á forsíðu þessa skjals ber farmflytjandi alls enga ábyrgð á tapi eða skemmdum á vörunni, af hverju sem þær stafa, þegar tapið eða skemmdirnar verða eftir affermingu úr skipinu.

7. Upphæð bóta

(i) Að tilskildum 5., 6., 8. og 24. greinum og málsgreinum (ii), (iii) og (iv) í þessari grein, þegar farmflytjandi ber bótaábyrgð vegna taps eða skemmda á vörum, ber að reikna slíkar bætur eftir verðmæti vörunnar samkvæmt vörureikningi en hverskyns tap að hluta eða skemmdir ber að reikna hlutfallslega.
Bótafjárhæðin skal vera ákveðin eftir því verðgildi sem varan hefði haft, á þeim stað og tíma, sem hún ætti að afhendast viðskiptamanni samkvæmt samningnum eða hefði átt að afhendast.

(ii) Liggi verðmæti vörunnar samkvæmt vörureikningi ekki fyrir skulu slíkar bætur reiknaðar eftir verðmæti slíkrar vöru á þeim stað og tíma þar sem og þegar afhending til viðskiptamanns fer fram samkvæmt samningi eða hana hefði átt að afhenda. Verðmæti vörunnar ber að ákvarða samkvæmt kauphallarverði eða, ef ekki er um slíkt verðlag að ræða, samkvæmt gildandi markaðsverði eða, ef ekki er um að ræða neitt kauphallarverð eða gildandi markaðsverð, með vísan til eðlilegs verðmætis vöru sömu tegundar og gæða.

(iii) Sé ekki beinlínis um annað samið í skjali þessu skulu bætur ekki vera hærri en SDR 2 fyrir hvert kílógramm brúttó þunga tapaðrar eða skemmdrar vöru, eða SDR 667 fyrir hvern pakka eða einingu,hvort sem hærra er, nema verðmæti slíkrar vöru hafi verið gefið upp af sendanda fyrir fermingu og það skráð á forsíðu farmskírteinis þessa í reitinn með fyrirsögninni "vörulýsing" og viðbótarflutningsgjald sé greitt af slíku uppgefnu verðmæti, sé þess krafist.

(iv) Hafi verðmæti verið gefið upp samkvæmt þessari grein skal sérhvert tap að hluta eða skemmdir gerðar upp hlutfallslega á grundvelli slíks uppgefins verðmætis.

8. Almennt

(i) Farmflytjandi ábyrgist ekki að varan komi til losunarhafnar eða afhendingarstaðar á neinum sérstökum tíma eða nái nokkrum sérstökum markaði eða notkun.

Farmflytjandi er undir engum kringumstæðum ábyrgur fyrir nokkru beinu, óbeinu eða afleiddu tapi eða skemmdum, sem tafir orsaka.

(ii) Sé annað ekki tilgreint í skjali þessu er farmflytjandi ekki undir neinum kringumstæðum eða á neinn hátt ábyrgur fyrir beinu, óbeinu eða afleiddu tapi eða skemmdum eða fyrir ágóðatapi.

(iii) Skilmálar farmskírteinis þessa ákvarða ábyrgð farmflytjanda í sambandi við eða vegna útvegunar gáms fyrir viðskiptamann hvort sem er áður eða eftir að varan er móttekin af farmflytjanda til flutnings eða afhendingar til viðskiptamanns.

9. Tilkynning um tap og fyrning kröfu

Hafi farmflytjanda eða umboðsmönnum hans í losunarhöfn eða eftir atvikum á afhendingarstað ekki verið tilkynnt skriflega um tap eða skemmdir og almennt eðli slíks taps eða skemmda áður eða um leið og varan er færð í vörslu viðskiptamanns telst slík færsla veita löglíkur fyrir því að farmflytjandi hafi afhent vöruna eins og lýst er í farmskírteini þessu. Sé tapið eða skemmdirnar ekki sýnilegar verður að tilkynna slíkt skriflega innan þriggja daga frá afhendingu. Undir öllum kringumstæðum skal farmflytjandi vera laus undan allri ábyrgð nema mál sé höfðað og það sé tilkynnt innan 9 mánaða frá afhendingu vörunnar eða þeim degi þegar vöruna hefði átt að afhenda.

10. Varnir og takmarkanir farmflytjanda

Þær undanþágur frá ábyrgð, varnir, réttindi og ábyrgðartakmarkanir, sem fram koma í farmskírteini þessu gilda í hverskyns málarekstri gegn farmflytjanda vegna tafa, taps eða skemmda á vörunni hvernig sem til koma, hvort sem málaferlin byggjast á samningi eða skaðabótaskyldum verknaði utan samninga og jafnvel þótt tapið, skemmdirnar eða tafirnar hafi orsakast af óhaffærni, vanrækslu eða grundvallarbroti eða höfnun samnings.

Ekki skal koma til vaxta af neinni kröfu á hendur farmflytjanda fyrr en frá uppkvaðningu dóms.

11. Flutningsaðferðir og leiðir

(1) Farmflytjanda er hvenær sem er og án þess að tilkynna viðskiptamanni heimilt að:

(i) nota hverskyns flutnings- eða geymsluaðferð;

(ii) flytja vöruna úr einu flutningstæki í annað, þar með talið að umskipa eða flytja vöruna með öðru skipi en því sem tilgreint er á forsíðu eða með hverskyns öðrum flutningstækjum og jafnvel þótt umskipun eða flutningur vörunnar kunni ekki að hafa verið ætlaður eða gert ráð fyrir honum í skjali þessu;

(iii) sigla án hafnsögumanns, fara hvaða leið sem er, á hvaða hraða sem er, halda til, snúa aftur til og dvelja í hvaða höfn eða á hvaða stað sem er (þar með talin lestunarhöfn sem tilgreind er í skjali þessu), í hvaða röð sem er á leiðinni eða utan hennar eða í gagnstæða átt til eða fram hjá losunarhöfn einu sinni eða oftar til að taka eldsneyti eða ferma eða afferma farm eða til að taka um borð eða setja í land hvaða mann eða menn sem er, hvort sem er í sambandi við yfirstandandi, fyrri eða síðari ferð eða, án takmörkunar, í hverskyns öðrum tilgangi og fyrir afhendingu vörunnar í losunarhöfn eða á afhendingarstað, sem gert er ráð fyrir í skjali þessu og í samræmi við framanskráðar heimildir fara frá og koma aftur í og losa vöruna í slíkri höfn, draga eða láta draga, fara reynsluferðir, stilla áttavita eða tæki eða annast viðgerðir eða fara í þurrkví með eða án farms um borð;

(iv) losa og fjarlægja vöru sem sett hefur verið í gám og/eða senda hana áfram í gámum eða á annan hátt eins og farmflytjandi kann að ákvarða að eigin vali;

(v) ferma og afferma vöruna í hvaða höfn eða höfnum eða á hvaða stað eða stöðum sem er (hvort sem slík höfn er tilgreind á forsíðu sem lestunar- eða losunarhöfn eða ekki) og geyma vöruna án tímamarka í slíkri höfn eða höfnum eða á slíkum stað eða stöðum.

(2) Hvað sem gert er eða látið ógert samkvæmt málsgrein (1) eða hverskyns tafir sem af því leiða skal telja innan umsamins flutnings og ekki úrleiðis.

12. Opinber fyrirmæli, styrjaldir, farsóttir, ís, verkföll o.fl.

(i) Skipstjóra og/eða farmflytjanda er frjálst að hlýðnast hverskyns fyrirskipunum, fyrirmælum eða tillögum varðandi fermingu, brottför, siglingaleiðir, viðkomuhafnir, stöðvanir, ákvörðunarstað, komu, affermingu, afhendingu eða önnur atriði sem berast frá ríkisstjórnum eða hverskyns aðilum, sem starfa eða segjast starfa samkvæmt heimild ríkisstjórna eða frá hverskyns nefndum eða aðilum, sem rétt hafa til að gefa fyrirskipanir, fyrirmæli eða leggja fram tillögur samkvæmt skilmálum húftryggingar skipsins.

(ii) Telji skipstjóri eða farmflytjandi, að fyrirhuguð ferð sé óörugg, ólögleg eða óráðleg vegna yfirvofandi eða yfirstandandi styrjaldar, styrjaldaraðgerða eða ófriðar, má afferma vöruna í lestunarhöfn eða hvaða höfn annarri sem er og skipstjóri eða farmflytjandi telja örugga og hentuga.

(iii) Fari svo, vegna hverskyns hindrana, áhættu, tafa, erfiðleika eða hverskyns óhagræðis (jafnvel þótt kringumstæðurnar, sem orsaka hindrun, töf, erfiðleika eða óhagræði hafi verið fyrir hendi þegar samningur þessi var gerður eða þegar tekið var við vörunni til flutnings), þar með talið, en án takmörkunar, raunveruleg eða yfirvofandi farsótt, sóttkví, ís, verkfall, verkbann, órói á vinnumarkaði, bann, þrengsli eða örðugleikar við fermingu eða affermingu, að skipstjóri eða farmflytjandi efi á einhverjum tíma að skipið geti örugglega og án tafa farið úr lestunarhöfn eða komist til eða farið inn í losunarhöfn eða geti affermt þar á venjulegan hátt eða haldið ferðinni áfram þaðan má afferma vöruna í lestunarhöfn eða sérhverri höfn, sem þeir eða annar hvor þeirra kann að telja örugga og hentuga eða fara með hana á annan hátt í samræmi við þær heimildir sem um getur í 11. grein.

(iv) Í þeim tilfellum, sem um getur í öllum liðum þessarar greinar, getur farmflytjandi hvenær sem er frestað samningnum, gert hlé á honum eða fellt hann niður, jafnvel áður en tekið hefur verið við vörunni og/eða hún fermd og/eða farmskírteini hefur verið gefið út. Afferming hverskyns farms samkvæmt ákvæðum þessa liðar og/eða lok flutnings vegna hverskyns fyrirskipana eða fyrirmæla, sem að framan greinir, telst efnd samningsins, hvort sem varan er affermd eða ekki.

(v) Viðskiptamaður ber ábyrgð á öllum viðbótarfarmgjöldum og biðdagagjöldum svo og öllum gjöldum og kostnaði, sem skipstjóri og farmflytjandi verða fyrir við framangreindar aðgerðir.

(vi) Ef mögulegt er, en án ábyrgðar farmflytjanda, ber að tilkynna viðtakanda um tilfelli, sem um getur í þessari grein.

13. Viðskiptamaður fari að lögum staðar

Viðskiptamaður ber ábyrgð á og ber að verja, bæta og halda farmflytjanda og skipi skaðlausu vegna hverskyns greiðslna, útgjalda, sekta, gjalda, tolla, skatta, álagninga, tapa, skemmda eða kyrrsetninga, sem farmflytjandi verður fyrir, bakar sér eða lögð eru á hann eða skipið í sambandi við vöruna af hvaða sökum sem er, þar með töldu eðli, gæðum eða ástandi (hvort sem kunn hafa verið farmflytjanda eða skipstjóra eða ekki). Einnig vegna hverskyns aðgerða eða kröfu ríkisstjórnar, stjórnvalda eða aðila, sem segist starfa samkvæmt heimild þeirra, handlagningar vegna málaferla eða tilraun til töku, rangra eða ófullnægjandi merkinga, tölu- eða viðtakandamerkingar pakka eða lýsingar á innihaldi, ef viðskiptamaður útvegar ekki vottorð ræðisskrifstofu, öryggis-, heilbrigðis eða tollayfirvalda eða önnur skírteini sem eiga að fylgja vörunni eða nauðsynleg eru til að fullnægja hverskyns lögum og reglugerðum, sem sett eru um vöruna af yfirvöldum í sérhverri höfn eða stað eða hverskyns athöfn eða athafnaleysi viðskiptamanns. Verði af einhverri ástæðu synjað um innflutning vörunnar ber viðskiptamaður ábyrgð á og skal greiða farmgjald vegna endursendingar og gjöld í því sambandi.

14. Hitastýrður farmur

(i) Viðskiptamaður ábyrgist að afhenda ekki til flutnings neina vöru, sem þarfnast hitastýringar, án þess að afhenda áður skriflegar upplýsingar um eðli hennar og sérstakt hitastig, sem halda þarf, og þegar um er að ræða hitastýrðan gám, sem fylltur er af eða af hálfu viðskiptamanns, ábyrgist hann ennfremur að vörunni hafi verið hlaðið á réttan hátt í gáminn við rétt hitastig, og loftop ef þörf krefur, og að hitastillitæki hans og loftop hafi jafnan verið stillt á fullnægjandi hátt af honum áður en varan er afhent til farmflytjanda. Hafi ofangreindum skilyrðum ekki verið fullnægt skal farmflytjandi ekki vera ábyrgur fyrir nokkru tapi eða skemmdum á vörunni, hvernig sem þær verða.

(ii) Farmflytjandi er ekki ábyrgur fyrir nokkru tapi eða skemmdum á vörunni, sem stafa af leyndum göllum, gangtruflun, bilun eða stöðvun véla til hitastýringar, vélasamstæðu, einangrun og/eða hverskyns útbúnaðar gáms, skips, flutningatækis og sérhvers annars búnaðar að því tilskildu að farmflytjanda ber fyrir og við upphaf flutningsins að sýna eðlilega árvekni við að halda frysti-/kælibúnaði á því hitabili, sem í farmskírteini þessu segir, ef þess er getið.

15. Gámar

(i)Farmflytjanda eða umboðsmönnum hans er, án takmörkunar og án sérstakra tilkynninga til viðskiptamanns, heimilt að stúfa/lesta/pakka/hlaða eða setja vöru í gáma, á tengivagna, í flytjanlega tanka, á fleti, á bretti og/eða í eða á annan svipaðan flutningsbúnað sem notaður er til að safna vöru í.

Framflytjanda eða umboðsmönnum hans er heimilt án takmörkunar og án sérstakra tilkynninga til viðskiptamanns að flytja  gáma, tengivagna, flytjanlega tanka, fleti, bretti og/eða annan svipaðan flutningsbúnað á þilfari eða undir þiljum, hvort sem farmflytjandi hefur stúfað/lestað/pakkað/hlaðið eða sett vöru í gáma sjálfur eða tekið við þeim stúfuðum/lestuðum/pökkuðum/hlöðnum af viðskiptamanni, nema viðskiptamaður hafi skriflega óskað eftir því að vara væri flutt undir þiljum.

(ii) Hafi gámur ekki verið fylltur, stúfaður/lestaður/hlaðinn eða í hann sett af farmflytjanda ber hann ekki ábyrgð á tapi eða skemmdum á innihaldi hans og viðskiptamanni ber að verja, bæta og halda farmflytjanda skaðlausum gegn sérhverju tapi, skemmdum, ábyrgð eða kostnaði, sem farmflytjandi verður fyrir ef slíkt tap, skemmdir, ábyrgð eða kostnaður hefur orsakast af:

(a) því, hvernig gámurinn hefur verið fylltur, hlaðinn eða í hann sett; eða

(b) vanhæfni innihaldsins til flutnings í gámum; eða

(c) vanhæfni eða gallaðs ástands gámsins, sem verður án skorts á eðlilegri árvekni af hálfu farmflytjanda við að gera gáminn eðlilega hæfan til þeirra nota, sem hann er ætlaður; eða

(d) vanhæfni eða gallaðs ástands gámsins, sem hefði orðið ljóst við eðlilega skoðun viðskiptamanns á eða fyrir þann tíma þegar gámurinn var fylltur, hlaðinn eða í hann sett; eða

(e) pökkun frystrar/kældrar vöru, sem ekki er á réttum hita til flutnings samkvæmt skjali þessu.

(iii) Farmflytjanda er heimilt, en ber engin skylda til, að opna hvaða gám sem er hvenær sem er og skoða innihaldið. Komi þá í ljós að innihaldið eða einhver hluti þess verði ekki á öruggan eða eðlilegan hátt flutt eða flutt lengra, annað hvort alls ekki eða án þess að hafa í för með sér aukin útgjöld eða aðgerða er þörf varðandi gáminn eða innihald hans eða einhvern hluta þess, er farmflytjanda heimilt að hætta við flutninginn og/eða grípa til aðgerða og/eða stofna til hverskyns eðlilegra viðbótarútgjalda til að flytja eða halda áfram flutningi eða til að fá geymslu á landi eða sjó undir þaki eða undir berum himni, hvar sem er, og skal slík geymsla þá teljast rétt afhending samkvæmt farmskírteini þessu. Viðskiptamanni ber að halda farmflytjanda skaðlausum vegna hverskyns eðlilegra viðbótarútgjalda, sem þannig er stofnað til.

(iv) Þegar vara, sem farmskírteini hefur verið gefið út fyrir, er hluti sendinga, sem safnað hefur verið í gám, annað hvort af hálfu viðskiptamanns eða farmflytjanda, skal farmflytjandi hafa leyfi til að tæma slíkan gám í því skyni að afhenda nefnda vöru.

 (v) Vörum sem hefur verið stúfað/lestað/pakkað/hlaðnar eða settar í gám, á tengivagn, í flytjanlegan tank, á fleti, á bretti og/eða í eða á annan svipaðan flutningsbúnað af viðskiptavini  telst varan móttekin fullsjóbúin.

(vi) Þegar gámur, sem er í eigu farmflytjanda eða hann hefur á leigu, er tæmdur á athafnasvæði viðskiptamanns, ber viðskiptamaður ábyrgð á því að skila gáminum tafarlaust eða innan tilgreinds tíma sópuðum og þrifnum að innan á losunarstað eða á stað, sem farmflytjandi, starfsmenn hans eða umboðsmenn tilgreina.

Viðskiptamaður er ábyrgur fyrir leigu, kostnaði af þrifum, biðdagagjaldi, tapi og kostnaði, sem til kann að koma ef ekki verður af skilum gámsins eða að þau tefjast.

16. Flutningsgjöld o.s.frv., haldsréttur/veðréttur

(i) Flutningsgjöld greiðast af raunverulegum brúttó þunga eða máli við móttöku eða, að vali farmflytjanda, af raunverulegum brúttó þunga eða máli við losun. Reikna má flutningsgjöld á grundvelli upplýsinga um vöruna, sem viðskiptamaður veitir í skjali þessu, en farmflytjandi má hvenær sem er opna hvaða gám sem er eða annan pakka og athuga, vega, mæla og virða vöruna. Reynist upplýsingar viðskiptamanns rangar og greiða ber viðbótarflutningsgjald, falla á vöruna hverskyns útgjöld vegna skoðunar, vigtunar, mælingar og virðingar vörunnar.

Óskert flutningsgjöld ber að greiða fyrir skemmda eða gallaða vöru. Óskert flutningsgjöld samkvæmt skjali þessu teljast að fullu áunnin þegar farmflytjandi tekur við vörunni og farmflytjandi á rétt á öllum flutningsgjöldum og öðrum gjöldum er á falla samkvæmt skjalinu, hvort sem þau hafa raunverulega verið greidd eða ekki og því að taka við og halda þeim undir hvaða kringumstæðum sem er, hvort sem skipið og/eða varan hafa tapast eða ekki.

(ii) Öll ógreidd gjöld ber að greiða að fullu og án nokkurrar skuldajöfnunar, gagnkröfu eða frádráttar. Hverskyns skekkja í flutningsgjaldi, öðrum gjöldum eða í flokkun vöru er háð leiðréttingu og ef leiðrétt flutningsgjald eða gjöld eru hærri getur farmflytjandi innheimt viðbótarupphæðina hjá viðskiptamanni.

(iii)Farmflytjandi á haldsrétt/veðrétt í vörunum og öllum skjölum sem þær varða fyrir öllum greiðslum/gjöldum/upphæðum sem farmflytjandi á rétt á samkvæmt samningi þessum og fyrir öllum gjaldföllnum skuldum viðskiptamanns gagnvart farmflytjanda samkvæmt öðrum samningum hvort sem þeir tengjast flutningi á vörum eða ekki og fyrir framlagi til niðurjöfnunar sjótjóna án tillits til hver á rétt til þess og vegna kostnaðar við að innheimta þessar fjárhæðir og hefur í þessum tilgangi heimil til að selja þær á opinberu uppboði eða með einkaréttarlegum samningi án þess að tilkynna viðskiptamanni  um það.  Ef ekki tekst með sölu farms að ná fyrir gjaldföllnum greiðslum og kostnaði og útgjöldum, sem stofnað hefur verið til, skal farmhafi hafa rétt til að fá dæmdan mismuninn frá farmhafa.

(iv) Viðskiptamaður er ábyrgur fyrir öllum útgjöldum við að flokka, gera við, sekkja eða lagfæra vöru og/eða umbúðir, sem varan er í, svo og við að safna saman lausum farmi og/eða innihaldi pakka, enda stafi það af ónógum umbúðum eða áhættum, sem undanþegnar eru.

(v) Þegar búið er að ferma vöru getur viðskiptamaður ekki tekið hana brott nema með samþykki farmflytjanda og gegn greiðslu óskertra flutningsgjalda og bóta fyrir hverskyns skaða, sem farmflytjandi verður fyrir vegna þess að vara er þannig fjarlægð.

(vi) Viðtakanda og/eða eiganda vörunnar ber að greiða hverskyns skipagjöld, geymslugjöld, hafnargjöld, tolla og gjöld, bryggjugjöld og önnur gjöld, sem greiða ber vegna vörunnar eftir að hún fer úr búnaði skips.

(vii) Viðskiptamanni ber að verja, bæta og halda farmflytjanda skaðlausum vegna hverskyns kostnaðar, sem hann verður fyrir við að nýta sér rétt sinn samkvæmt þessari grein.

17. Ákvæði um beggja sök á árekstri

Lendi flutningsskipið í árekstri við annað skip vegna vanrækslu hins skipsins, hverskyns aðgerða, vanrækslu eða mistaka við siglingu eða stjórn flutningsskipsins, ábyrgist viðskiptamaður að greiða farmflytjanda, eða, sé farmflytjandi ekki eigandi og vörslumaður flutningsskipsins, að greiða til farmflytjanda sem umboðsmanns eiganda og/eða þurrleigutaka flutningsskipsins, fjárhæð, sem nægir til að bæta farmflytjanda og/eða eiganda og/eða þurrleigutaka flutningsskipsins, allt tap eða ábyrgð gagnvart því skipi, sem ekki flytur vöruna eða eigendum þess, að því marki, sem tapið eða ábyrgðin er tap eða skemmdir eða hverskyns krafa viðskiptamanns, sem greidd er eða greiða ber af hendi þess skips, sem ekki flytur vöruna eða eigenda þess og sem skipið, sem ekki flytur vöruna, eða eigendur þess, láta mæta hluta kröfu sinnar á hendur flutningsskipinu, eigendum þess, þurrleigutaka eða farmflytjanda. Framangreind ákvæði eiga einnig við þegar eigendur, stjórnendur eða umráðamenn skips eða skipa eða annarra hluta, en árekstrarskipanna eða hlutanna, eða til viðbótar við þau, eiga sök varðandi árekstur, snertingu, strand eða annað slys.

18. Samtjón

Samtjóni skal jafna niður og greiða í samræmi við York-Antverpen reglur frá 1994 í hvaða höfn eða stað, sem farmflytjandi velur, hvort sem því er lýst yfir af farmflytjanda eða af undirverktaka farmflytjanda. Viðskiptamaður skal leggja fram innborgun eða aðra þá tryggingu, sem farmflytjandi telur nægja fyrir áætluðu samtjónsframlagi vörunnar fyrir afhendingu ef farmflytjandi krefst þess eða, krefjist farmflytjandi þess ekki, innan þriggja mánaða frá afhendingu vörunnar, hvort sem viðskiptamaður hafði við afhendingu fengið tilkynningu um haldsrétt/veðrétt farmflytjanda eða ekki. Farmflytjandi skal á engan hátt skuldbundinn til að nýta veðrétt fyrir samtjónsframlagi til handa viðskiptamanni. Ef farmflytjandi á eða rekur björgunarskip ber að greiða fullt gjald fyrir björgun eins og ef björgunarskipið hefði tilheyrt ótengdum aðila.

Verði slys, hættuástand, skemmdir eða stórtjón fyrir ferð eða að henni lokinni, vegna hverskyns orsaka, hvort sem það er vegna vanrækslu eða ekki, en farmflytjandi er ekki ábyrgur að lögum, samkvæmt samningi eða á annan hátt, ber sendanda ásamt farmflytjanda, þegar um samtjón er að ræða, að greiða hverskyns tap, tjón eða útgjöld sem af samtjóni leiða og einnig greiði þeir björgunarlaun og sérstök gjöld vegna varanna.

19. Eldsvoði

Farmflytjandi er ekki ábyrgur fyrir því að svara fyrir eða bæta neitt tap eða skemmdir á vöru hvenær sem það verður og jafnvel þótt það verði fyrir fermingu í eða eftir affermingu úr skipinu þegar um er að ræða hverskyns eldsvoða, nema honum sé valdið af ásetningi eða gáleysi hans sjálfs.

20. Farmflytjandi ræður hleðslu

(i) Án þess að tilkynna viðskiptamanni má hlaða vöru á þilfar og, auk þess, án takmörkunar, á skutpall, hvalbak, þilfarshús, hlífðarþilfar, farþegarými, eldsneytisrými eða hverskyns annað yfirbyggt rými, þar sem venja er að flytja vöru. Vara sem þannig er flutt, telst flutt undir þiljum í öllum tilgangi þar með töldu samtjóni. Haagreglurnar og (þegar við á) US COGSA eins og fellt er inn í skjal þetta gilda um slíkan flutning vöru, sem þannig er komið fyrir.

(ii) Gámar og vara, sem fram er tekið á forsíðu skjals þessa að flutt sé á þilfari á áhættu sendanda eða viðskiptamanns, er flutt án ábyrgðar farmflytjanda á hverskyns tapi eða skemmdum, sem til koma í flutningi á sjó hvort sem þær orsakast af óhaffærni, vanrækslu eða hverskyns öðrum atvikum.

(iii) Lifandi dýr og jurtir eru fluttar algjörlega á ábyrgð viðskiptamanns. Ef um lifandi dýr er að ræða ber farmflytjandi alls enga ábyrgð á meiðslum, veikindum, dauða, töfum eða eyðileggingu hvernig sem verða, jafnvel þótt aðgerðir, vanefndir eða vanræksla farmflytjanda eða óhaffærni eða óhæfni hverskyns skips, fars, flutningatækis, gáms eða annars á hvaða tíma sem er, hafi valdið eða átt þátt í slíku.

21. Hættuleg vara

(i) Viðskiptamaður ábyrgist að afhenda ekki vöru til flutnings, sem er hættuleg, eldfim, geislavirk eða spillandi eðlis án þess að gefa farmflytjanda fyrirfram skriflega tilkynningu um eðli hennar og merkja vöruna og gáminn eða aðrar umbúðir að utan eins og krafist er í hverjum þeim lögum eða reglugerðum, sem kunna að gilda meðan á flutningi stendur.

(ii) Viðskiptamaður skuldbindur sig til að sjá um að vörunni sé pakkað á þann hátt, sem nægir til að þola venjulega áhættu í flutningi með tilliti til eðlis hennar og þannig að farið sé að öllum lögum og reglugerðum, sem gilda kunna meðan á flutningi stendur.

(iii) Verði kröfum málsgreina (i) og (ii) ekki fullnægt ber viðskiptamanni að verja, bæta og halda farmflytjanda skaðlausum gegn hverskyns tapi, skemmdum eða kostnaði, sem til kemur vegna þess að varan er boðin til flutnings, meðhöndluð eða flutt af farmflytjanda.

(iv) Vöru, sem er eða verður einhverntíma hættuleg, eldfim, geislavirk eða spillandi, má hvar eða hvenær sem er afferma, eyða eða gera skaðlausa án bóta og ef viðskiptamaður hefur ekki tilkynnt farmflytjanda um eðli hennar samkvæmt (i) lið hér að framan skal farmflytjandi ekki skuldbundinn til að leggja neitt til samtjóna vegna slíkrar vöru.

22. Tilkynning og afhending

(i) Ef getið er í skjali þessu um aðila, sem tilkynna á um komu vörunnar, er það eingöngu til upplýsinga fyrir farmflytjanda og ef slík tilkynning er ekki gefin skal það ekki valda farmflytjanda neinni ábyrgð né leysir það viðskiptamann undan neinni skuldbindingu samkvæmt skjali þessu.

(ii) Þegar flutningurinn, sem farmskírteini þetta fjallar um, er frá höfn til hafnar er farmflytjanda frjálst að afferma vöruna eða einhvern hluta hennar án tilkynningar jafnharðan og að henni kemur á hvaða hafnarbakka, far eða stað sem er, hvaða dag sem er og á hvaða tíma sem er, og lýkur þá ábyrgð farmflytjanda (ef einhver er) að fullu að því er vöruna varðar eða þann hluta hennar sem affermdur hefur verið eins og fyrr segir, þrátt fyrir aðrar venjur í höfninni og þrátt fyrir hverskyns gjöld, álögur eða annan kostnað, sem þegar er gjaldfallinn eða kann að gjaldfalla. Slík afferming skal vera ígildi raunverulegrar afhendingar.

(iii) Þegar flutningur samkvæmt farmskírteini þessu er fjölþáttaflutningur lýkur ábyrgð farmflytjanda (ef einhver er) að fullu þegar varan kemur til afhendingarstaðar. Viðskiptamaður skal tafarlaust taka við vörunni þegar hún kemur til afhendingarstaðar.

23. Málmvörur

Þar sem orðalagið "að því er virðist í góðu lagi og ástandi" er notað í farmskírteini þessu með vísan til járn-, stál- eða málmframleiðsluvöru þýðir það ekki að varan hafi við móttöku verið laus við sjáanlegt ryð eða raka. Ef sendandi óskar þess verður gefið út nýtt farmskírteini þar sem framangreindri skilgreiningu er sleppt og skráðar hverjar þær athugasemdir um ryð eða raka, sem fram kunna að koma á kvittunum stýrimanns eða talningamanns.

24. Bandarísk gildisákvæði

(i) Ef flutningur felur í sér flutning til, frá eða um höfn í Bandaríkjum Norður-Ameríku lýtur farmskírteini þetta lögum Bandaríkjanna um vöruflutninga á sjó (1936) (US COGSA), en ákvæði þeirra eru felld inn í skjal þetta og skulu gilda meðan flutningur fer fram á sjó (utan þess er segir í 20. grein (ii)) og allan tímann meðan varan er í vörslu farmflytjanda eða undirverktaka hans á hafnarbakka fyrir fermingu eða eftir affermingu eftir því sem við á.

(ii) Farmflytjandi ber ekki á neinn hátt, hverju nafni sem nefnist, ábyrgð á tapi, skemmdum eða töfum á vörunni á meðan hún er í Bandaríkjum Norður-Ameríku utan losunarstaðar skips og er ekki í raunverulegri vörslu farmflytjanda. Þegar svo stendur á starfar farmflytjandi einungis sem umboðsmaður við að útvega flutning hjá þriðja aðila (eins eða fleiri) samkvæmt venjulegum skilmálum og skilyrðum slíks þriðja aðila. Ef farmflytjanda er af einhverri ástæðu synjað um réttinn til að starfa sem umboðsmaður eingöngu á þessum stigum verður ábyrgð hans á tapi, skemmdum eða töfum vörunnar ákvörðuð í samræmi við 6., 7., 9. og 10. grein skjals þessa.

(iii) Ef almennur farmflytjandi, sem ekki rekur skip (non-vessel operating common carrier (NVOCC)) eða söfnunarumboðsmaður sem starfar sem NVOCC tekur við farmskírteini þessu, og hefur síðan gert aðra flutningasamninga við þriðju aðila, ábyrgist hann hér með að allir flutningasamningar, sem hann gerir vegna vörunnar, er farmskírteini þetta fjallar um, feli í sér skilmála og skilyrði farmskírteinis þessa og sé, þar sem nauðsyn ber til, í samræmi við gjaldskrár farmflytjanda eða NVOCC, sem leggja þarf fyrir viðkomandi stjórnvöld.

Framangreindur NVOCC fellst einnig á að verja, bæta og halda farmflytjanda, starfsmönnum, umboðsmönnum og undirverktökum hans skaðlausum gagnvart öllum afleiðingum þess að hann láti undir höfuð leggjast að fella atriðin inn í skjalið.

(iv) Eins og heimilað er í US COGSA fer ábyrgð farmflytjanda og/eða skipsins ekki fram úr upphæðinni sem tilgreind er í 7. grein (iii) skjals þessa, nema verðmæti vörunnar hafi verið skráð á forsíðu skjalsins og viðbótarflutningsgjöld hafi verið greidd af skráðu verðmæti, sé þess krafist.

25. Gildi

Fari svo að einhver ákvæði skjals þessa séu ekki í samræmi við gildandi alþjóðasáttmála eða landslög, sem samningurinn verður að lúta, skulu ákvæði þess vera dauð og ómerk, að því marki en ekki frekar.

26. Lögsaga og lög

Að undanskildu því sem fram kemur í 24. grein (bandarísk gildisákvæði) gilda íslensk siglingalög um samning þann, sem felst í farmskírteini þessu, og hverskyns deilumál, sem rísa samkvæmt honum, ber að úrskurða af íslenskum dómstólum samkvæmt íslenskum lögum og útilokar það lögsögu dómstóla í öðrum löndum.

Ath: Textinn hér að ofan er íslensk þýðing á flutningsskilmálum Samskipa í fjölþáttaflutningum (Combined Transport) - beri eitthvað á milli gildir enski frumtextinn.