Leiðbeiningar vegna tjónamála

Varð tjón á vöru í flutningi á vegum Samskipa? Hér er að finna leiðbeiningar um hvernig á að bera sig að í samskiptum við Samskip.

Fyrstu viðbrögð

Komi til þess, að viðskiptavinir Samskipa fái afhentar skemmdar vörur eða eitthvað vantar af þeim er áríðandi að gerð sé athugasemd þar um og hún skráð á kvittun viðtakanda fyrir vörunni. Hugsanlegt er, að skemmdir eða vantanir komi ekki í ljós fyrr en eftir að vara er komin í vörslu viðtakanda og er þá áríðandi að skriflegri tilkynningu verði komið til Samskipa innan þriggja daga frá afhendingu. Hægt er að senda þessa tilkynningu á netfang tjónadeildar sem er claims@samskip.com.

Í tilkynningunni er mikilvægt að fram komi með hvaða skipi varan var flutt, í hvaða ferð, númer farmbréfs, númer gáms, hvers eðlis tjónið er og áætlaða fjárhæð tjónsins.

Þetta er nauðsynlegt svo félagið geti tekið afstöðu til þess, hvort kalla þurfi til óháðan skoðunaraðila af sinni hálfu. Jafnframt er áríðandi að vörueigandi tilkynni farmtryggjanda sínum um málið og feli honum að skoða og meta vörurnar. Séu vörur ekki vátryggðar af eiganda þarf hann að meta, hvort ástæða er til að fá óháðan aðila til að meta tjónið, enda er hver skoðunargerð einvörðungu til afnota fyrir þann sem um hana bað.

Kröfugerð

Falli tjónið ekki undir vátryggingu eiganda ætti að senda formlega kröfu eins fljótt og auðið er til tjónadeildar Samskipa eftir að fyrir liggur hvert umfang tjónsins og fjárhæð þess er.

Kröfur sendist til:
Samskip hf.
tjónadeild,
Kjalarvogi 7-15
104 Reykjavík

Eftirfarandi gögn þurfa að liggja fyrir til stuðnings kröfu:

  • Formleg tjónakrafa, þar sem tjóni er lýst í stuttu máli og fjárhæð kröfu kemur fram.
  • Eintak af farmskírteini, hafi varan verið skráð með þeim hætti, en ella eintak af fylgibréfi/Sea Waybill.
  • Afrit af vörureikningi og pökkunarlista.
  • Afrit af skýrslu um skoðun sem vörueigandi hefur látið gera, sé um það að ræða.
  • Afrit af móttökukvittun þar sem gerðar hafa verið athugasemdir um ástand vöru. Ef um vöntun er að ræða í heilgám (FCL-gám) þarf móttökukvittun að gefa til kynna gámanúmer og innsiglisnúmer, sérstaklega ef það hefur verið annað en upprunalegt innsigli á gámi. Þarna ætti einnig að koma fram, þegar um vöntun er að ræða, hvert var númer eða annað auðkenni á pakka eða einingu sem hefur vantað, auk frekari lýsingar á gerð og tegund vöru þegar um blandaðar sendingar er að ræða.
  • Ljósmyndir af skemmdri vöru eða gámi, ef þær eru til.

Sé um að ræða tjón á vöru sem ekki var unnt að nýta, þarf að fylgja staðfesting á eyðingu vörunnar. Hafi hins vegar eitthvað fengist fyrir skemmda vöru skal draga slíkt verðmæti frá kröfufjárhæð. Vörueiganda ber að grípa til hverra þeirra aðgerða sem mögulegar eru til að draga úr tjóni.

Þegar lögð eru fram nauðsynleg gögn og sannanir fyrir tjóni munu Samskip tafarlaust aðstoða viðskiptavini sína við kröfumál þeirra vegna tjóna á vörum í flutningi eða geymslu hjá félaginu.

Nánari upplýsingar fást í síma 458 8321 eða með því að senda tölvupóst til tjónadeildar á netfangið claims@samskip.com.

Eyðublað sem skila á til tjónadeildar