Samskip breyta siglingaáætlun sinni

Tímabundin breyting í ljósi aðstæðna í þjóðfélaginu Styður enn frekar við útflutning frá öllu landinu beint til Evrópu Aukin þjónusta við innflutning á Norðurlandi

Samskip fækka skipum um eitt í tímabundnum breytingum á millilandasiglingum fyrirtækisins. Í nýrri siglingaáætlun sinna fjögur skip vöruflutningum á áfangastaði á landsbyggðinni og í Evrópu. Siglingar samkvæmt nýrri áætlun hefjast 6. apríl næstkomandi.

Í nýju kerfi sinna flutningaskipin Samskip Hoffell og Samskip Skaftafell siglingum á svonefndri Strandleið þar sem siglt er vikulega frá Reykjavík norður og austur fyrir land, þaðan til Hull í Bretlandi og svo áfram til Rotterdam í Hollandi áður en haldið er aftur til Reykjavíkur.

Ný Strandleið mun hafa vikulega viðkomu á Akureyri, en aðra hverja viku er komið við á Ísafirði, Vopnafirði, Sauðárkróki og Reyðarfirði. 

Norðurleiðin er óbreytt miðað við núverandi áætlun Samskipa. Þar sem flutningaskipin Arnarfell og Helgafell halda áfram vikulegum siglinum frá Reykjavík til Rotterdam. Á útleiðinni er komið við í Vestmannaeyjum og í Færeyjum, en á heimleiðinni frá Rotterdam er viðkoma í Cuxhaven í Þýskalandi, Varberg í Svíþjóð, Árósum í Danmörku og svo í Færeyjum.

Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Samskipa á Íslandi:

„Ráðist er í breytingarnar núna vegna óvissu sem uppi er í kjölfar heimsfaraldurs COVID-19. Þær verða svo teknar til endurskoðunar þegar aðstæður leyfa. Með þessum breytingum erum við að bjóða stysta flutningstíma frá strönd til Evrópu. Þannig hefur tekist vel til við að viðhalda og auka þjónustu á innflutningssviði með því að bæta tengingar við Norðurlandið.

Um leið og við leggjum áherslu á að breytt áætlun hafi ekki áhrif á núverandi þjónustu við innflutning á vörum til Íslands er lagt upp með að bæta enn frekar þjónustu við útflutning frá landinu öllu með beinum siglingum frá útskipunarhöfnum á ströndinni á markaði í Evrópu.”

Nánari upplýsingar um siglingaáætlun Samskipa og þjónustu við inn- og útflutning er að finna á vef Samskipa: www.samskip.is

Hér má sjá nánari upplýsingar um innflutningsleiðir okkar í breyttri áætlun.

Hér má sjá nánari  útflutningsleiðir okkar í breyttri áætlun.